23.03.1925
Efri deild: 37. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2475 í B-deild Alþingistíðinda. (1560)

59. mál, sundnám

Sigurður Jónsson:

Það er nokkuð farið að tíðkast á Alþingi nú í seinni tíð að gefa út heimildarlög, sem sveitarstjórnum og bæjarstjórnum er hægt að fara eftir þegar þeim þykir svo við horfa, að þess sje full nauðsyn. En eftir því, sem jeg þekki til úti um landið, eru þessi heimildarlög flest lítið notuð. Má þar til nefna stofnun fóðurbirgðafjelaga og eldsvoðaábyrgðar o. fl. Hætt þykir mjer við, að þetta frv. verði að sæta eitthvað líkum kjörum, að óvíða verði farið eftir því, þar sem hjer eru aðeins heimildarlög. Mjer skildist svo á ræðu hv. frsm. (IHB), að hjer væri um lögboð að ræða, en það er það ekki. Þetta er aðeins heimild, sem hægt er að byggja á svo að lagagildi hafi. Jeg vil skjóta því til hv. nefndar, hvort hún vilji ekki til 3. umr. taka það atriði til sjerstakrar athugunar.

Jeg er sammála hv. nefnd og hv. frsm. um, hvílík nauðsyn það er, að sem allra flestir — og helst allir — sem til þess hafa heilsu, kunni sund. Gagnvart 1. gr. verð jeg að taka það fram, að jeg er hræddur um, að það verði víða hik á að nota þessi lög, þannig að skylda hvern ungling til náms 2 mánuði í 4 ár. Aðstæður heimilanna eru víða svo, að menn í raun og veru geta ekki mist unglinga svo langan tíma. Jeg hefi kynt mjer sundkenslu í minni sveit, og mjer þykir það spursmál, hvort þetta sje ekki óþarflega langur námstími. Ætti nefndin einnig að athuga betur það atriði.

Brtt. mun jeg greiða atkvæði mitt, og orð mín má ekki skilja svo, að jeg sje á móti þessu máli, ef því verður breytt í þeim atriðum. sem jeg hefi minst á.