23.03.1925
Efri deild: 37. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2476 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

59. mál, sundnám

Einar Árnason:

Ef frv. það verður að lögum, sem hjer er til umræðu nú, býst jeg við, að þar komi ein pappírslögin til, í viðbót við þau, sem eru fyrir. Má því segja, að frv. sje bæði meinlaust og gagnslaust.

Eins og hv. 2. landsk. (SJ) tók fram, eru þetta heimildarlög, en mjer skildist á honum, að hann telja það eina ókost þeirra. En það verð jeg að telja eina kost þeirra, því að jeg býst ekki við, að sveitirnar, að minsta kosti, verði viðbúnar í náinni framtíð að framkvæma slík lög sem þessi. Yfir þetta held jeg, að háttv. nefnd hafi sjest.

Mjer dettur ekki í hug að hafa á móti því, að hjer sje um þarfa og góða íþrótt að ræða, þó fyrir geti komið, að unglingar missi heilsuna við að læra hana. Að slíkt geti ekki komið fyrir, tryggja lögin á engan hátt; því að í frv. eru engin tryggingarákvæði í þá átt. Engin ákvæði um, hvernig laugarnar skuli vera eða hvernig kenslunni skuli háttað, svo að trygging sje fyrir, að heilsu unglinganna sje ekki hætta búin.

Það er vitanlegt, að tíðarfari er svo háttað hjer á landi, þó sjerstaklega á Norðurlandi, að óhugsandi er, að sundkensla geti farið fram nema um hásumarið. Getur þá rekið að því, sem hv. 2. landsk. (SJ) mintist á, að mjög myndi það koma sjer illa fyrir marga að missa unglinga sína alt að tveimur mánuðum um háannatímann, því að víða er svo háttað á bæjum, að nauðsyn ber til að nota allan þann vinnukraft, sem til er, um þann tíma.

Það er langt frá því, að jeg vilji vinna á móti því, að sundið verði útbreidd íþrótt, eða að unglingar læri sund yfirleitt. En jeg hefði heldur kosið, að sú leið hefði verið farin, að unglingar og aðrir hefðu bæði í ræðu og riti verið fræddir um nauðsyn sundsins, og að sveitar- og bæjarstjórnir hefðu verið hvattar til að koma upp sundþróm sem víðast, en gera engum það að beinni skyldu.

Annars býst jeg ekki við, að frv. þetta sje hættulegt, því jeg geri ráð fyrir, að heimildin verði ekki notuð.