23.03.1925
Efri deild: 37. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2479 í B-deild Alþingistíðinda. (1563)

59. mál, sundnám

Frsm. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Hv. flm. þessa máls (JJós) hefir tekið flest það fram, sem svara hefir þurft þeim hv. 2. landsk. (SJ) og hv. 1. þm. Eyf. (EÁ).

Hv. 2. landsk. taldi það ókost við frv. þetta, að það ætti að verða heimildarlög, en hv. 1. þm. Eyf. vildi aftur telja það eina kostinn við það.

Þó oft vilji við brenna, að heimildarlög verði aðeins pappírslög, þá hygg jeg, að svo muni ekki verða hjer, því að svo má segja, að áhugi þeirra, sem sund læra, aukist við hverja ferð í vatnið. Er því ekki rjett að finna frv. það til foráttu, að hjer er einungis um heimildarlög að ræða.

Jeg skal fúslega játa, að oft getur ver­ið erfitt fyrir heimilin að missa ungling­ana frá vinnu. En mönnum ætti að vera það ljóst, að samfara því að auðga and­ann verður að vera líkamleg heilbrigði, til þess að hraust sál geti búið í hraustum líkama.

Um nauðsyn þessarar íþróttar þarf ekki að deila. Öllum ætti að vera í fersku minni mannskaðinn mikli, sem varð nær því uppi í landsteinunum í Vestmanna­eyjum í vetur. Og þeim, sem einu sinni hefir sjeð mann drukna, mun það seint úr minni líða. Að minsta kosti gleymi jeg aldrei slíkri sjón. Jeg þykist því sannfærð um, þegar hv. deildarmenn fara að íhuga þetta betur, þá komist þeir að þeirri nið­urstöðu, að hjer sje ekki um nein papp­írslög að ræða, heldur lög, sem miða að því að auka hreysti þjóðarinnar.

Ákvæðið um læknisskoðunina, er nefnd­in hefir tekið upp, verður að teljast alveg nauðsynlegt til þess að fyrirbyggja, að unglingunum geti stafað hætta af sund­náminu.