25.03.1925
Efri deild: 38. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2486 í B-deild Alþingistíðinda. (1572)

59. mál, sundnám

Einar Árnason:

Jeg gerði athugasemdir við frv. við 2. umr., og voru það sjerstaklega tvö atriði, sem jeg vildi óska, að hv. nefnd athugaði betur, áður en málið kæmi til 3. umr. En jeg sje, að svo hefir ekki verið gert, og virðist mjer hv. mentmn. hafi ekki sýnt of mikinn skilning í málinu.

Háttv. frsm. viðurkennir, að það muni liggja rök til þess, að fyrirmæli frv. sjeu of ströng og tíminn of langur, sem unglingum er ætlaður til þessa náms. Hinsvegar hygg jeg, að frv. komi að fullum notum (IHB: Stutt), þegar öll skilyrði eru til þess, að hægt sje að framfylgja þeirri reglugerð, sem frv. gerir ráð fyrir.

Um reglugerð þá, er talað er um í frv., er þess ekki getið, hvað í henni eigi að standa. Sveitarstjórnunum er aðeins heimilað að skylda unglingana til sundnáms. Það er nú venjulegt að taka það fram í lögum, hvað eigi að standa í þeim reglugerðum, sem settar eru í sambandi við þau, og hefði jeg heldur kosið, að svo hefði og verið gert hjer.

Það hefir verið talað um frv. þetta sem heimildarlög, og jeg hefi haldið því fram, að það væri helsti kostur þeirra. Annars gera slík lög lítið gagn, ef þau eiga ekki ítök í þjóðinni sjálfri. Sjest það á því, að mörg slík lög, er frá Alþingi hafa komið. eru lítið notuð.

Mjer dettur ekki í hug að hafa á móti sundinu sem nauðsynlegu fyrir uppeldi þjóðarinnar. En mjer finst, að hjer sje verið að smíða negluna á undan bátnum. Það er nokkuð líkt því og ef hjer væru engir skólar, að gefin væri út reglugerð um að skylda börn til skólanáms, áður en nokkur skilyrði væru til þess að hægt væri að halda uppi kenslu.

Í þessu efni er það margt fleira, sem gefa þarf gaum. Það er fleira nauðsynlegt fyrir gott uppeldi þjóðarinnar en sundið eitt, þótt það geti verið gott fyrir ungt fólk, sem brýtur allar heilbrigðisreglur í öllum háttum, því að þá er bót í máli fyrir það að læra sund eða einhverja aðra góða íþrótt, heilsu sinnar vegna. Hjer er því ekki eingöngu um sund að ræða, heldur hitt, hvernig þjóðin á að fá áhuga fyrir að nema íþróttir. Álít jeg, að bæjar- og sveitarfjelög eigi þar fyrst að renna á vaðið og byrja á þessu heima hjá sjer, þegar þau eru þess megnug. Og þegar öll skilyrði eru fyrir hendi um það, að þessi skyldukensla geti komið að notum og full trygging er fyrir því, að heilsu unglinganna verði ekki teflt íhættu, þá fyrst má setja slík lög sem þau, er í þessu frv. felast.