04.05.1925
Efri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2497 í B-deild Alþingistíðinda. (1605)

120. mál, lífeyrissjóður embættismanna

Frsm. (Jónas Jónsson):

Nefndin hefir fallist á það, að mál þetta fengi fram að ganga. Það er kunnugt, að þessi breyting nær aðeins til símastúlknanna. Þær eru lágt launaðar, en löggjöfin um lífeyrissjóð er þeim að mörgu leyti andstæð. Símameyjarnar eru í starfi þessu oft einskonar farfuglar; þær koma og dvelja við starfið 2–3 ár og hverfa svo að einhverju öðru, oftast inn í hjónabandið.

Þess vegna þótti nefndinni rjett, að þær fengju þessa rjettarbót, þegar þær hverfa svo skjótlega frá starfinu og auðsætt er, að þær bera ekkert úr býtum af fríðindum þeim, er sjóðurinn á að veita. Þetta verður því að skoðast sem sanngirnismál, og vænti jeg, að hv. deild samþykki frv. eins og það liggur fyrir.