06.03.1925
Neðri deild: 27. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2498 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

74. mál, slysatryggingar

Flm. (Jón Baldvinsson):

Jeg þarf ekki að fylgja frv. þessu úr garði með mörgum orðum að þessu sinni, þar sem greinargerð sú, er því fylgir, er mjög ítarleg, og auk þess þykist jeg vita, að hv. þm. muni hafa kynt sjer jafnmerkilegt mál rækilega. Á undanförnum þingum hafa verið samþyktar þál. til stjórnarinnar um að taka þetta mál til rannsóknar, en þetta er í fyrsta skiftið, sem málið sjálft liggur fyrir þinginu. Í fyrra var samþykt þál. um skipun milliþinganefndar í þessu máli, er atvinnumálaráðherra skyldi skipa. Nefndin var skipuð í sumar og lauk störfum sínum fyrir þing. Jeg tel nefndina hafa verið mjög heppilega skipaða. Í henni áttu sæti þessir þrír menn: Þorsteinn Þorsteinsson hagstofustjóri, af hálfu stjórnarráðsins, Hjeðinn Valdimarsson, af hálfu verkamanna, og Gunnar Egilson, af hálfu Fjel. ísl. botnvöruskipaeigenda.

Það starf, sem eftir nefndina liggur, er bæði gott og mikið. Að vísu hafði hún góðan grundvöll að byggja á, þar sem voru lögin um slysatrygging sjómanna, sem hafa verið tekin óbreytt upp í frv., en mjög miklu hefir verið bætt við um slysatryggingu á landi. Frv. er þó ekki svo víðtækt, sem menn hafa máske búist við, enda er örðugt að synda fyrir öll sker að því er hinn smærri atvinnurekstur snertir.

Nýmælin í frv. eru aðallega þrenskonar.

Í fyrsta lagi hefir sú breyting verið gerð — og það er ef til vill mesta nýmælið —, að í stað þess, að áður skiftust iðgjöldin niður á hvoratveggja, sjómenn og útgerðarmenn, eiga þau hjer eftir eingöngu að hvíla á atvinnurekstrinum, hvort heldur er á sjó eða landi, enda er það alviðurkent, að atvinnurekanda beri að bæta þeim, er fyrir slysi verða í þjónustu hans. Enda er erlendis, nær undantekningarlaust, iðgjaldagreiðslan lögð á atvinnurekendur.

Í öðru lagi er svo ákveðið í frv., að dagpeningar skuli greiddir þeim mönnum, er fyrir slysi hafa orðið. Þetta ákvæði var ekki í lögunum um slysatryggingu sjómanna. En það er bæði alveg nauðsynlegt þeim, er fyrir slysum verða, og auk þess mun það verða næsta gagnlegt sveitar- og bæjarsjóðum, er það kemur til framkvæmda, og ljetta af þeim margri byrði.

Í þriðja lagi er hjer stigið stórt spor í áttina til fullkominnar, almennrar slysatryggingar, og eru allir þeir liðir, sem tryggingarákvæðin ná yfir, taldir upp í frv., og get jeg því vísað þangað. Alt þetta eru hjer alger nýmæli. En með því að ekki er fengin reynsla hjer fyrir löggjöf þessari ennþá, þótti ekki ráðlegt að ákveða gjöldin fyrirfram fyrir hina ýmsu flokka, er kunna að verða innan slysatryggingarinnar. Þetta er eðlilegt, af því að stungið er upp á að skifta tryggingunum í svo og svo marga áhættuflokka, eftir því hve mikil slysahættan er. Menn eru ekki í vafa um, að langáhættusamasti flokkurinn er sá, sem sjómenskan heyrir til; því að hjer á landi eru slys og manndauði langtíðust þar. Því er ekki við því að búast, að þau iðgjöld, sem nú tíðkast þar, muni lækka, en fyrir hinu má sjálfsagt gera ráð, að iðgjöld við atvinnurekstur á landi verði stórum lægri en nú er ákveðið í slysatryggingu sjómanna.

Jeg vil að lokum geta þess, að þó að jeg hafi borið þetta mál fram í þessari hv. deild, þá hefi jeg gert það eftir tilmælum hv. allshn., sem hæstv. stjórn sendi málið. Nefndin fjekk ekki nema 1 eintak af frv. — líklega af eðlilegum ástæðum. — Því voru ekki tök á að athuga það svo sem skyldi, og þótti því nefndinni rjett að láta einn nefndarmanna flytja það hjer í deildinni, og varð jeg fyrir því. En þó þótti nefndinni ekki rjett að láta flytja það fyr en hún hefði athugað það allvel. Hefir hún nú lesið það allvandlega og þegar athugað, hvaða breytingar þyrfti helst að gera. Skal jeg ekki skýra frá þeim, en hitt tek jeg fram, að úr því að hv. allshn. hefir haft þessi afskifti af málinu, þá vil jeg leggja til, að frv. verði nú að lokinni umr. vísað til hennar aftur. Býst jeg þá við, að ekki þurfi að standa á afgreiðslu málsins, þar sem nefndin hefir þegar dálítið unnið að því.

Þá vil jeg að lokum, þar sem jeg tel það tilhlýðilegt, þakka hæstv. atvrh. (MG) fyrir afskifti hans af þessu máli, þ. e. skipun nefndarinnar. Og vil jeg því fremur þakka þetta, sem jeg tel vel gert af hans hendi, að þá verður síður hægt að bera mjer á brýn ósanngirni, þó jeg finni að hinu, er mjer virðist miður gert af hans hendi.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara frekari orðum um frv., enda býst jeg við, að það komi hjer brátt aftur á dagskrá.