25.03.1925
Neðri deild: 42. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2547 í B-deild Alþingistíðinda. (1637)

74. mál, slysatryggingar

Sveinn Ólafsson:

Það kemur fljótt í ljós við lestur þessa frv., að við samningu þess hefir sjerstaklega verið höfð fyrir augum hin reglubundna starfsemi í bæjum og stærri kauptúnum, og eins reglubundin vinna við brúargerðir, vegalagningu og þess háttar störf í þarfir þess opinbera. Hitt kemur einnig í ljós, að ekki hefir verið haft fyrir augum hið sjerstaka ástand í sveitum landsins og með ströndum fram, þar sem strjálbýlla er, þar sem menn oft og tíðum vinna sína klukkustundina að hverju verki, að kalla má.

Þó að frv. sje nær eingöngu bygt utan um reglubundna starfsemi í kaupstöðum, þá hefir það eigi að síður orðið svo rúmt, að ákvæði þess ná einnig yfir starfsemi í sveitum, þar sem ómögulegt eða illmögulegt virðist að framkvæma lögin, og þar sem ennfremur er langtum minni ástæða að skylda menn til slysatrygginga en í kaupstöðum. Þó svo, að undir þessar fyrirhuguðu tryggingar eru teknir flokkar eða starfar, sem langtum minni hætta fylgir en öðrum flokkum, sem ekki eru nefndir. Var á þetta bent við 2. umr. málsins.

Hv. form. allshn. (MT) fór nokkrum orðum alment um málið, og lá það í orðum hans, að af annara hálfu en nefndarinnar hefði komið fram hjer í deildinni nokkur mótþrói gegn hugmyndinni um almennar tryggingar. En þetta er tilefnislaust, því að mínu viti hefir enginn slíkur mótþrói komið fram. Að vísu komum við sjö þingdeildarmenn fram með brtt. við frv., en þær brtt. lúta ekki svo mjög að stefnu frv., heldur hinu, að gera framkvæmd laganna þegar til kemur auðveldari og greiðari. Jeg hygg, að sú ósk vaki jafnt fyrir öllum, að gera tryggingarnar sem almennastar, þar sem því er hægt að koma við, en jafnframt vakir það fyrir mönnum, að lögin þurfi að byggja á öðrum grundvelli og að gera verði ráð fyrir því, að ríkið greiði hreint og beint nokkurn hluta af tryggingargjaldinu.

Þessar brtt., sem við höfum leyft okkur að koma með, eru á þskj. 226, og má segja, að þær falli eiginlega í tvo liði. Annar liðurinn lýtur að því, sem jeg þegar hefi nefnt, að gera lögin auðveldari í framkvæmdinni, með því að taka undan ýmsa minniháttar starfsemi, sem óþægilegt er að beita þessum lögum við og þar sem fyrirsjáanlegt er, að jafnvel ómögulegt er að hafa eftirlit með því, að lögunum verði framfylgt. Í öðru lagi — og það er stefnubreyting — gerum við ráð fyrir, að iðgjöldin verði að nokkru leyti látin falla á þá, sem trygðir eru, en ekki eins og frv. fer fram á, á vinnuveitendur eina eða þá, sem að störfunum standa. Þetta lýtur meira í þá átt, sem venjan hefir helgað, og frá okkar sjónarmiði má skoða þetta rjett og eðlilegt. Við viljum sem sje láta hina trygðu taka þátt í þessu, til þess að minna þá á, að þeir eiga ekki aðeins rjett á þessu sviði, heldur hafa og nokkrar skyldur að rækja. Auðvitað leiðir þessi brtt., ef samþykt verður, ekki til annars en þess, að kaupið frá þeim, sem vinnuna þiggja, verður sett þeim mun hærra, þegar svo stendur á.

Í einu tilliti höfum við, sem brtt. flytjum, farið skrefi lengra en frv. fór. Eftir frv. er gert ráð fyrir, að utan við tryggingarnar geti verið eða jafnvel verði þeir, sem róa á smærri skipum en fjórrónum, jafnvel þótt að staðaldri sje. Við höfum breytt þessu á þá leið, að allir skuli tryggingarskyldir, hvort sem þeir eru á smærri eða stærri skipum. Þessi breyting veldur engum erfiðleikum, að minsta kosti ekki í samanburði við það að gera þá tryggingarskylda, sem stundarkorn hverfa að afgreiðslu skipa, t. d. póstskips, sem um fer, en annars stunda allsendis ólík störf. Þessi brtt. okkar gerir því framkvæmd laganna í engu torveldari, en er hinsvegar í anda þeirra, auk þess sem þessar tryggingar róðrarmanna verða að teljast mjög nauðsynlegar. Hv. form. allshn. (MT) kvað svo að orði, að með þeim brtt., sem nefndin flytur, væri tekið tillit til framkominna óska um breytingar á frv. Jeg kannast við, að þetta er gert að sumu leyti, en alls ekki að öllu leyti, enda eru brtt. nefndarinnar miklu skammtækari en þær, sem við höfum lagt til að gerðar verði. Hann taldi, að með þeirri brtt. við 21. gr. frv., sem nefndin flytur, myndi úr því bætt, sem við flm. brtt. á þskj. 226 höfum óskað eftir. Jeg get ekki verið honum sammála um þetta, því að þótt með þeirri breytingu sje stjórninni heimilað með væntanlegri reglugerð að undanþiggja ýmiskonar starfsflokka við minniháttar starfsemi tryggingarskyldu, þá er auðsætt, að hvenær sem ágreiningur rís um það, hverjir skuli tryggingarskyldir, þá verður ekki hlaupið í reglugerðarbreytingu. Þetta gæti og leitt til þess, að upp kæmi sín reglan í hverju hjeraði og mismunandi reglugerðarákvæði um sömu hluti, eða að niðurstaðan yrði dálítið svipuð og sú, sem breytingin á bæjargjaldalögum Reykjavíkur í fyrra hefir leitt af sjer á því sviði. Með þessum brtt. nefndarinnar er líka gert ráð fyrir, að með reglugerð megi smám saman taka upp nýja flokka, sem trygðir skuli vera, en þá virðist mjer komið inn á þá leið, að stjórnin fari að setja lög um það, sem Alþingi ætti að setja lög um. Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um brtt. nefndarinnar; jeg vildi aðeins láta þess getið, að þær fullnægja okkur ekki, sem berum fram brtt. á þskj. 226, nema að nokkru leyti.

Hv. form. allshn. (MT) lagði talsverða áherslu á það, að ekki mætti fella undan tryggingargjaldi þá, sem vinna að fiskverkun, því að fiskverkun færi svo illa með hendur fólksins og orsakaði ígerð í höndum. En ástæðan til þess, að við tillögumenn viljum fella þetta niður, er sú, að fiskverkun er yfirleitt hættulaus vinna, en víða svo lítilsháttar og aðeins ígripavinna, að okkur þótti ekki taka því að draga hana inn undir tryggingarlögin. Handameiðsl og hruflun við fiskvinnu, er háttv. þm. nefndi, er lítilsverð ástæða. Slík meiðsli koma af því, að hendurnar eru ekki nógu vel varðar með vetlingum, en að öðru leyti er fiskverkun svo hættulítil, sem nokkur vinna getur verið.

Að við undanskiljum vegavinnu, kemur til af því, að sú vinna er að öllum jafn aði hættulítil, og allsendis fráleitt að hugsa sjer að draga hvern mann undir tryggingarskyldu, sem t. d. lítinn hluta dags vinnur að vegavinnu eins og víða tíðkast í sveitum, þar sem hreppavegavinna er skyldustarf. Sama máli gegnir um margar brúargerðir, en við höfum þó ekki felt undan aðrar en þær smáfeldari. Hinsvegar viljum við fella niður vatnsveitulagningar, nema þar sem um stórfelda starfsemi er að ræða, eins og á sjer stað þegar vatnsleiðsla er lögð til heilla bæja eða kauptúna.

Nú er svo ástatt, að fyrir liggja brtt. frá fleirum en okkur, t. d. brtt. frá hv. þm. Mýra. (PÞ) við 5. gr. frv. Hefi jeg í rauninni ekkert um þær brtt. annað að segja en það, að með þeim brtt., sem við berum fram við 5. gr. frv., eða þeim viðauka, sem við viljum við hana bæta, virðast brtt. hv. þm. Mýra. miður nauðsynlegar. Annars hefi jeg ekkert við þær að athuga og legg ekkert á móti þeim. Brtt. okkar við 6. gr. frv. er einmitt sú, sem jeg hefi áður nefnt, og lýtur að því að hluta iðgjaldið milli vinnuveitenda og vinnuþiggjenda. Hefi jeg áður gert grein fyrir því, hvað fyrir okkur vakir með þessari brtt. Aðrar breytingar, sem við leggjum til, að gerðar verði, eru afleiðingar af þessu, sem jeg hefi nú um rætt, og til að koma á samræmi milli annara greina frv.

Jeg get vel tekið undir það með háttv. form. allshn. (MT), að æskilegt væri, að hægt væri að fara nokkuð lengra í þessu efni og tryggja fleiri, helst alla þá, sem áhættustörf stunda; en það vill nú svo til, að fjöldi allra áhættusömustu starfanna er alls ekki talinn í frv. Nefndi jeg við 2. umr. nokkur tilfelli, en þau eru vitanlega miklu fleiri. Þannig væri t. d. æskilegt að geta trygt fjallferðamenn að vetrarlagi, eins og t. d. við læknisvitjun, meðalasókn og því líkt. Eru þær margfalt hættumeiri en mörg þau störf, sem frv. nefnir, og ef um almennar slysatryggingar væri að ræða, þá ættu slíkar starfsgreinar að sjálfsögðu að teljast með. En af því að frumv. er samið af mönnum, sem lítil kynni hafa af slíkum störfum, en hafa einkanlega haft fyrir augum reglubundna starfsemi í stærri bæjum og kauptúnum, þá hafa þeir ekki komið auga á þessi áhættustörf, sem eiga sjer stað annarsstaðar. Svo skal jeg ekki fjölyrða frekar að sinni, en jeg býst jafnvel við, að ef nokkurt kapp verður í hv. þdm. um málið, þá gefist mjer tilefni til þess síðar að taka nokkuð fleira fram.