25.03.1925
Neðri deild: 42. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2559 í B-deild Alþingistíðinda. (1639)

74. mál, slysatryggingar

Sveinn Ólafsson:

Jeg verð að segja, að mig langar ekki í daglangt reiptog um þetta mál, og þess vegna mun jeg reyna að svara hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hógværlega, svo að ekki verði brýn ástæða fyrir hann að teygja lopann.

Jeg get þó ekki látið ósvarað því, sem hann hefir vikið að mjer, og þótti mjer hann sumstaðar taka nokkuð djúpt í árinni. Það er að vísu rjett, að jeg gaf ekki í fyrri ræðu minni ítarlega skýringu á einstökum brtt. eða ástæðum fyrir þeim. Því er rjett af honum að benda á það og æskja skýringar. Eins og hann þegar hefir tekið fram, hefir nefndin ákveðið að fallast á 3 af brtt. okkar. Hinar telur hv. 2. þm. Reykv. óhafandi eða óverjandi með öllu.

Um fermingu og affermingu skipa fórust honum svo orð, að það lakasta við okkar brtt. væri það, að slysatryggingarsjóðurinn yrði sviftur svo miklum tekjum. Hann virtist leggja minni áherslu á þörfina að tryggja þá menn, er vinnu þessa stunda, en aðaláhersluna á hitt, að svifta ekki sjóðinn tekjum. Hann benti líka á, að með þeim takmörkunum, sem við vildum hafa um affermingu skipa, þá fjellu undan tryggingarskyldu þeir, sem ynnu að afferming togaranna, en þeir væru svo margir, að tekjur slysatryggingarsjóðsins rýrnuðu til stórra muna við það. Það er satt, að vinnu þessa stundar fjöldi manna, en það skil jeg ekki, að áhættumeira sje að kasta fiski upp úr togurum heldur en öðrum skipum, enda mun svo litið á alment, að vinna þessi sje áhættulítil, og aðalatriðið er að tryggja við hættum, en ekki að safna fje eingöngu.

Hjer gæti komið til tals — og jeg er ekki fjarri því — að leggja skatt á alla vinnu og alla starfandi menn, helst eftir efnum og ástæðum, þannig að allir landsmenn greiddu eitthvað af mörkum í sjóðinn. En að taka frá einni kirkju og gefa annari, eins og segja má, að hjer sje gert, felli jeg mig ekki við.

Hv. þm. mintist líka á, að með brtt. okkar fjelli undan slysatryggingu afgreiðsluvinna við skip úti um land, og yrði það, eins og annað í brtt. okkar, til þess að baka sjóðnum tap. Þetta er einmitt óhjákvæmilegt og nauðsynlegt, því að við teljum alt of mikið umstang við að færa vinnuskrár og margbrotnar skýrslur vegna þessarar litlu vinnu, er til fellur við að t. d. póstskip kemur á einhverja höfn 4 eða 5 sinnum á ári. Afgreiðsla slíkra skipa getur varla talist svo hættuleg, að nauðsyn beri til að tryggja þá menn, sem að henni starfa, fyrir slysum.

Hv. þm. drap ekkert á ísvinnuna, er við viljum láta falla undan skyldutryggingu, og má þá kannske álíta, að hann sje okkur sammála um hana, enda mun mála sannast, að skoða megi þá vinnu áhættulausa, nema ef til vill þar, sem ís er tekinn á djúpu vatni og svo illa getur til tekist að ósyndur maður falli í vök.

Þá virtist hv. frsm. (JBald) leggja mikla áherslu á, að brtt. hv. allshn. á þskj. 214 yrðu samþyktar, því með þeim yrði bætt úr öllum göllum frv. En jeg sje ekki betur en að þær brtt. leiði aðeins til handahófslegra ákvarðana um það, hverjir skuli trygðir og hverjir ekki, og heimila þær sífeldar breytingar með reglugerðum upp aftur og aftur um þetta efni.

Þá taldi hv. frsm., að það væri illa farið, að við vildum fella undan vegavinnu. Jeg hafði nú skýrt frá því, hvers vegna við vildum fella hana undan. Í fyrsta lagi getur sú vinna ekki talist hættuleg, eða þeim mönnum slysagjarnt, er hana stunda; og í öðru lagi mundu undir hana falla allir þeir menn, sem ekki gerðu annað en aðeins að kasta steini úr götu eða laga heimreiðir að bæjum í hjáverkum.

Honum þótti ekki tilhlýðilegt að fella lögregluþjóna undan skyldutryggingu. Jeg get ekki sjeð, að stöðu þeirra fylgi nein sjerstök hætta. Hinsvegar höfum við bætt inn í frv. einum flokki manna, sem fullkomin ástæða er til að tryggja, en það eru póstarnir. (JBald: Við höfum líka tekið þá). Jeg veit það, en við gátum ekki vitað, hvað nefndin mundi leggja til eftir á, og þess vegna tókum við póstana upp.

Hann kvað svo að orði, hv. frsm., að eftir okkar brtt. fjelli undan skyldutryggingu meginið af þeim mönnum og flokkum, sem frv. vildi halda. Þetta er ekki rjett; jeg hygg, að fleiri sjeu eftir, enda höfum við með brtt. okkar aðeins felt þá eina undan, sem með rökum má sýna, að óþarft sje að tryggja fyrir slysum, og það af þeirri einföldu ástæðu, að vinna sú, er menn þessir stunda, getur ekki talist hættuleg, en umstangið mikið við tryggingu þeirra.

Þá sagði hv. frsm. ennfremur, að það væri ósk og krafa alment úti um land að tryggja þá menn, sem vinna að afgreiðslu skipa. Það kann að vera, að hann telji sig þekkja betur til úti um land en jeg geri. En á Austurlandi hefi jeg aldrei heyrt þetta, hvorki í einmæli eða þar, sem fleiri hafa borið ráð saman, að neinn hafi óskað eftir þessu. En hinsvegar er mjer óhætt að fullyrða, að úti um land, þar sem aðeins um ígripavinnu er að ræða, þar vilja menn vera lausir við það mas og þá skriffinsku að færa vinnuskrár og útfylla flókin skýrsluform vegna fárra stunda ígripavinnu.

Hv. frsm. vill slá alla varnagla með reglugerð. Jeg hefi áður minst á þessar reglugerðir og sýnt fram á, að þær sjeu að engu hafandi. Þær geta aldrei staðið óbreyttar árinu lengur, enda er með þeim komið inn á þá braut, er jeg síst vildi kjósa, að stjórnin setji lög og reglur eftir sínu höfði um þau efni, sem Alþingi einu ber að ákveða.

Hann áleit líka, að með þál. mætti t. d. á mesta þingi taka upp fleiri flokka til tryggingar, eða fela stjórninni að bæta þeim við. Þar er hann aftur við sama heygarðshornið; hann vill láta stjórnina setja lög, en ekki Alþingi. Annars hafði jeg ekki vitað, að hann bæri neitt sjerstakt traust til núverandi stjórnar, og kom því dálítið á óvart, að hann vildi leggja slíkt vald í hennar hendur.

Þá vildi hann halda því fram, að fiskvinna í þurkhúsum væri hættuleg vegna vjelanotkunar í sambandi við húsin. Jeg hefi ekki komið í mörg fiskþurkunarhús; þó hefi jeg kynst dálítið vinnubrögðum þar, og jeg get ekki skilið, að meiri hætta sje að flytja fisk inn og út um hús, sem vjel er einhversstaðar í, heldur en að ganga um þilfar á gufuskipi, þar sem vjel er undir. Slíkar viðbárur geta ekki talist veigamiklar ástæður gegn brtt. okkar, enda virtist hv. frsm. ekki leggja mjög mikla áherslu á þetta.

Jeg gef látið mjer lynda þetta í bráð og beðið átekta um, að atkvæði skeri úr um brtt. okkar á þskj. 226 en vil ekki gera gildringar til þess að lengja umr. að óþörfu.