07.04.1925
Neðri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

1. mál, fjárlög 1926

Jón Baldvinsson:

Háttv. frsm. fyrri hl. fjárlagafrv. (ÞórJ) hefir tjáð sig móti till. um framlag til landsspítalans og gat þess, að þó að nú væru veittar 100 þús. kr. til byggingarinnar og 300 þús. kæmu frá landsspítalasjóðnum, þá væri samt eftir að veita 600 þús. kr. frá ríkinu og verkið gæti því stöðvast fyrir þessu. En jeg vil þá aðeins minna hv. þm. (ÞórJ) á það, að ef ekki verða veittar þessar 100 þús. kr. nú, þá eru 700 þús. kr. eftir, og er síst skynsamlegt að draga að leggja fram alla þá upphæð. Þessi röksemdaleiðsla hans er að mínu áliti svo barnaleg, að óhugsanlegt sje, að hún standi í vegi fyrir þessu máli.

Þá vil jeg aðeins geta þess, að jeg tek aftur till. mína á þskj. 318. Er það ekki vegna þess, að jeg telji hana ekki hafa fullan rjett á sjer, heldur af hinu, að hv. fjvn. mun taka það, sem hún fer fram á, til athugunar.