03.04.1925
Neðri deild: 50. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2571 í B-deild Alþingistíðinda. (1645)

74. mál, slysatryggingar

Sveinn Ólafsson:

Jeg átti ýmsu ósvarað háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) frá því síðast, er við deildum um þetta mál. En nú hefir hv. þm. Borgf. (PO) tekið flest af því fram, svo jeg get leitt hjá mjer að svara mörgu af þessu, sem jeg annars hefði þurft að gera.

Við fyrri hluta þessarar umr. var á það bent, að frv. þetta vann einhliða miðað við ástand og starfsháttu bæjanna og stórfelda, reglubundna vinnu í þarfir þess opinbera. Og að frv. fyrir þessar sakir yrði þá um leið ósamrýmanlegt við ástæður sveitanna og strjálbýlisins með ströndum fram.

Í öðru lagi var sýnt fram á þann stórfelda galla frv., að það ákveður skyldutryggingu fyrir fjölda manna, sem engin sýnileg slysahætta vofir yfir, en lætur hinsvegar ótrygða marga þá, sem áhættumestu störfin vinna.

Í þriðja lagi var það tekið fram, að með frv. væri að því stefnt að leggja allar kvaðir og þunga af slysatryggingunni á vinnuveitendur, en leysa þá slysatrygðu — vinnuþiggjendur — við allar slíkar byrðar og eðlilega sjálfsumhyggju, án alls tillits til þess, hvort hagur vinnuveitanda væri betri en vinnuþiggjanda, eða getan þar meiri.

Þessir eru líka þrír megingallar frv. Og af því að ákvæði þess miðast við þá stefnu, sem þessir þrír þættir eru ofnir saman úr, þá verða einstök ákvæði frv. óaðgengileg, einkum þó fyrir þann hluta landsbúa, sem heima eiga utan við það svæði, er haft hefir verið fyrir augum á meðan frv. var samið.

Frv. er því í rauninni einskonar spegilmynd af reiptoginu milli vinnuveitenda og vinnuþiggjenda hjer í Reykjavík, gegnsýrt af þeirri hugsun, að vinnuveitandi sje hvarvetna sá voldugi og ríki drotnandi, sem dragi til sín arðinn af vinnunni og sem þess vegna sje maklegur að bera allan þunga af óhöppum og slysum þeirra, sem vinna, en að vinnuþiggjendur sjeu einskonar umkomulaus fórnardýr, sem hvorki geti nje þurfi að sjá hag sínum borgið um þetta.

En þessi stefna á sjer hvergi formælendur, sem betur fer, nema hjer í Reykjavík, og fellur hvorki saman við hag sveitanna eða hugsunarhátt fólksins þar.

Útgerðarmenn fiskibátanna og sveitabændur margir eiga vissulega undir högg að sækja oft og tíðum við hina svonefndu vinnuþiggjendur, og ávöxturinn af vinnu hvorutveggja þeirra gengur oft allur til þess að greiða kaup þeirra svonefndu vinnuþiggjenda, en hinir, útgerðarmennirnir eða smábændurnir, synda áfram í botnlausum skuldum og eiga við þröngan kost að búa. Þetta er kunnugra en frá þurfi að segja. En þrátt fyrir það, á þó eftir frv. þessu að leggja á þessa eignalausu og skuldum hlöðnu vinnuveitendur allar kvaðir og allan vanda af slysatryggingunni, ásamt sektum og viðurlögum, ef ekki er gætt vandræktra ákvæða laganna.

Þetta er ekki aðeins óeðlileg kvöð við þá, sem minni máttar eru í þessum viðskiftum, útgerðarmenn víða úti um land og bændurna, sem oft verða um kaupkröfurnar að sætta sig við alt eins og sigraðir menn, en þetta er einnig brot á þeim ríkjandi og heilbrigða hugsunarhætti allrar alþýðu manna úti um sveitir landsins, að hver einstaklingur eigi að sjá um sig og sínar þarfir, svo langt sem geta hans nær, og njóta stuðnings þess opinbera til þess. Stefnan eftir þessu frv. er sú, að seilast svo djúpt í vasa vinnuveitanda sem unt er og án tillits til þess, hvort hann hefir nokkra gjaldgetu eða ekki. En frá mínum bæjardyrum sjeð á almenn slysatrygging að vera samstarf vinnuþiggjanda og vinnuveitanda, og jeg þykist mega fullyrða, að hún komi ekki að liði fyr en hún nær til allra, er áhættustörf vinna, bæði til sjós og lands. Og mjer skilst, að almenn slysatrygging eigi hreint og beint að vera með samvinnusniði og studd af ríkinu, eins og átt hefir sjer stað undanfarið um slysatrygging sjómanna, enda er þar alt óbrotnara og einfaldara en frv. þetta ætlast til.

Jeg þori að segja og fullyrða, að þetta á betur við hugsunarhátt fólksins í heild en stefna þessa frv. Það er eftir heilbrigðri skoðun þess hreint og beint lægjandi og auðmýkjandi að þiggja alt af öðrum og varpa allri áhyggju á þá, að vera skjólstæðingur um alt og snúast eins og hjól í sigurverki innan í einhverjum ríkis-„mekanisma“, sem aðrir stjórna. Lífsskoðun og stefna sveitafólksins felst í orðtakinu: Hjálpaðu þjer sjálfur, og þá hjálpar guð þjer! Sú skoðun er heilbrigðari og í mínum augum eitthvað mennilegri og rjettmætari en þessi barlómur, sem ymur á bak við frv.

Í raun og veru er alls ekki um almenna slysatryggingu að ræða eftir frv., þó svo sje látið í veðri vaka. Heldur er hjer um mishepnaða tilraun að ræða til þess að tryggja ýmsa atvinnuflokka og eftir ósanngjarnlegum og óframkvæmanlegum reglum, sem apaðar eru eftir erlendum fyrirmyndum.

Almenn slysatrygging getur því aðeins átt hjer við, að allir þeir sjeu að einhverju leyti trygðir, sem slysahættustarf annast bæði á sjó og í landi, og að iðgjaldsgreiðslan verði á alla lögð sem lágur skylduskattur, en ríkissjóður leggi fram verulegan hluta gjaldsins af tekjum þeim, er gjaldþegnarnir greiða í hlutfalli við gjaldgetu. Erlendar fyrirmyndir um slysatryggingar, miðaðar við stóriðjulekstur bæjanna, eiga ekki við landshætti hjer, og geta ef til vill orðið okkur hefndargjöf.

Þess vegna held jeg, að frv. þetta feli litla rjettarbót í sjer og að þetta mál þurfi miklu ítarlegri undirbúning, eigi það að verða samræmanlegt landsháttum hjer. Jafnvel með brtt. hv. allshn. á þskj. 214 held jeg það verði enginn happafengur.

Hv. allshn. vill bæta úr göllum frv. með reglugerðarákvæðum, en þau á að setja eftir till. tveggja manna, þar sem annar sje valinn af marghöfðaðri nefnd atvinnurekenda hjer í bæ, en hinn af svo nefndu Alþýðusambandi Íslands. Þannig á að leggja þessa tvíeggjuðu framkvæmd tyrfinna laga undir handahófslega ákvörðun tveggja manna, sem ef til vill eru gersamlega ókunnugir utan Reykjavíkur, eða að minsta kosti ekki ýkjaskygnir á það, sem betur fer, þegar lengra dregur frá bænum.

Mjer dylst það ekki, að frv. verður fullkominn gallagripur, þó að það fái þann búning, sem hv. allshn. ætlast til, og jeg kannast fúslega við það, að annmarkar þess eru ekki allir horfnir, þótt samþyktar verði brtt. okkar 7 flm. á þskj. 226, en einhver vegur mundi þá að ganga að því, ef þær yrðu samþyktar.

Annars held jeg, að rjettasta leiðin væri sú, að vísa frv. til stjórnarinnar til frekari undirbúnings og íhugunar, því mjer blandast ekki hugur um. að verði frv. nú að lögum, getur ekki liðið nema stuttur tími þangað til öllu verður rótað um aftur. En að svo stöddun vil jeg þó ekki koma fram með slíka till., á meðan jeg sje ekki fyrir afdrif brtt. okkar á þskj. 226.

Jeg viðurkenni fúslega, að tilgangur frv. er góður og að almennar slysatryggingar sjeu nauðsynlegar, en jeg tek það fram, eins og raunar fleiri hv. þm. hafa gert, að formið, eða fyrirkomulag slysatrygginga með þessu móti samkv. frv., er óheppilegt og að mestu leyti ónothæft.