07.04.1925
Neðri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Jeg þarf ekki að svara mörgu, enda hefi jeg takmarkaðan tíma.

Hv. þm. Str. (TrÞ) fór út í ummæli mín um sakamálsrannsóknina. Jeg hefi ekki kastað neinum spaugsyrðum að hæstv. stjórn vegna afskifta hennar af þessu máli, en eins og jeg hefi oftlega tekið fram, þá er mjer lítið um það gefið að elta menn.

Hvað viðvíkur styrknum til Búnaðarfjelags Íslands, sem jeg hafði áður talað um á þann hátt, að hneykslaði háttv. þm. Str. (TrÞ), þá svara jeg því einu, að þó grunur leiki á um það, að fje því, sem til þess hefir verið veitt, hafi ekki verið sem best varið, þá verður maður jafnan að trúa því um hverja stjórn og stofnun, að hún geti tekið framförum. Eða kannske hv. þm. (TrÞ) vilji mótmæla því að því er snertir þessa stofnun!