02.05.1925
Efri deild: 66. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2590 í B-deild Alþingistíðinda. (1659)

74. mál, slysatryggingar

Ingvar Pálmason:

Hv. frsm. (EP) hefir tekið fram ástæðurnar fyrir þessu frv., og skal jeg því ekki fara út í það, nje heldur sjálft frv. í heild sinni, en aðeins minnast á eitt atriði. Það er 1. gr. b. Þar stendur svo: „Fiskimenn á vjelbátum og róðrarbátum, er stunda fiskiveiðar einn mánuð á ári eða lengur“. Jeg tel, að slysatryggingin gangi hjer of skamt. 1. vikan í mánuðinum hlýtur að vera jafnáhættusöm fyrir sjómennina og sú 4. Jeg játa, að hjer sje erfitt að setja rjett takmörk, en þó vildi jeg óska þess, að sú breyting væri hjer á gerð, að sett væri ein vika í staðinn fyrir einn mánuð. Jeg hefi ekki komið með brtt. um þetta nú. En jeg skýt því til háttv. nefndar, að hún vildi sjá sjer það fært að athuga þetta til 3. umr. og bera þá fram till. í þessa átt, ef henni virðist það rjettmætt.