04.05.1925
Efri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2591 í B-deild Alþingistíðinda. (1661)

74. mál, slysatryggingar

Ingvar Pálmason:

Jeg gat þess við 2. umr. þessa máls, að jeg mundi flytja brtt. við þessa umr. Nú hefir mjer ekki unnist tími til þess að ganga frá henni svo, að hún yrði prentuð, og leyfi jeg mjer því að koma með hana skriflega, í þeirri von, að hæstv. forseti sjái sjer fært að láta hana koma til atkv.

Brtt. þessi er við 1. gr. 1. b. og fer fram á að í staðinn fyrir „1 mánuð“ komi ,,1 viku“ fyrir þá menn, sem atvinnu stunda á vjelbátum eða róðrarbátum. Jeg lít svo á, að hjer sje um engu áhættuminni vinnu að ræða en margt það, sem talið er í frv. Það er ekki fullnægjandi þetta ákvæði frv., að miða skyldutryggingu þessara manna við 1 mánuð. Þegar þess er gætt, að bátar þessir ganga ekki nema með höppum og glöppum, og atvinnan því stopul, en áhættan hin sama, hvort sem atvinnan er stunduð lengri eða skemri tíma. Er því auðsætt, að menn þessir geta algerlega fallið undan tryggingunni, en það tel jeg illa farið, enda misrjetti gagnvart öðrum stjettarbræðrum þeirra.

Jeg tel brtt. þessa til bóta. Hún er svo ljós og skýr, að hv. þdm. þurfa ekki langan tíma til þess að átta sig á henni. Læt jeg útrætt um hana og leyfi mjer að afhenda hæstv. forseta með þeirri ósk, að hún verði borin undir atkv. hv. deildar.