07.05.1925
Neðri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2596 í B-deild Alþingistíðinda. (1669)

74. mál, slysatryggingar

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Það þýðir nú ekkert að fara að ræða frv. alment, eins og hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) vill gera. Hann kom með sömu aths. og við fyrri umræður. Hann hefir einkum fundið þrent að: Að frv. væri ekki nógu víðtækt, að það legði kvaðir á menn, og að iðgjaldagreiðslan kæmi skakt niður.

Við höfum deilt um þetta áður og hann hefir ekki sannfært mig. Hann getur aldrei búist við að koma á almennum tryggingum, svo að ekki verði eitthvert umstang við það. Og ef vandkvæði eru á því að koma nokkrum hluta manna undir tryggingu, þá er hitt æðistórt skref, að taka alla. Reyndin verður að gefa okkur vitneskju um það, hvernig á að haga þessu í framtíðinni; það er skólinn. Þetta er alveg nýtt hjer, að taka upp víðtækar, löggiltar tryggingar. Þó hafa allir sæmilegir atvinnurekendur haldi uppi einhverjum tryggingum fyrir verkamenn sína. En það hefir verið af handahófi. Og nú er margur atvinnurekandi, sem gleðst yfir að fá þessi lög. Þeir fylgja þeim margir úr þeim hópi. Það hefir oft verið talsverðum vanda bundið fyrir þá atvinnurekendur, sem hafa viljað bæta verkamönnum sínum tjón af slysum, að gera það, svo ekki verði misrjetti. Stundum er farið eftir efnahag, en það vekur aftur óánægju, ef misjafnt kemur niður. Og jeg get vel skilið, að atvinnurekendur gleðjist yfir því að fá þetta ákveðið með lögum. Jeg álít háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) hafa óttast alt of mikið það umstang, sem því fylgir að hafa reglu á þessum tryggingum. Hver atvinnurekandi hefir skrá yfir menn í þjónustu sinni. Þá er líka allur galdurinn leystur. Þetta er auðveldara en menn hugsa.

Jeg býst ekki við, að gallar frv. verði lagfærðir, þó hæstv. stjórn fái það til meðferðar, því það, sem einn telur galla, telur annar kost.

Jeg álít alveg þýðingarlaust að vísa þessu frv. til stjórnarinnar. Þetta er miklu betur undirbúið en frv. einstakra þm. yfirleitt eru, og meiri vinna í það lögð. Það hefir því sem næst fengið sama undirbúning og stjfrv., því það er algengt, að stjórnin fái sjerfróða menn til aðstoðar við samningu frumvarpa. Látum okkur sjá, hvernig þetta reynist, og af reynslunni læra að haga okkur í framtíðinni í þessum málum.