07.05.1925
Neðri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2597 í B-deild Alþingistíðinda. (1670)

74. mál, slysatryggingar

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg heyrði ekki ræðu hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Mjer er sagt, að hann hafi lagt það til að vísa frv. til stjórnarinnar. Af hvaða ástæðum, veit jeg ekki. Hugsa jeg, að því valdi breytingar hv. Ed. á till. hans. (SvÓ: Það og fleira). Nú, það er bæði það og fleira. Jeg verð að segja það, að vegna ákvæðisins í 21. gr. álít jeg, að ekki hafi mikið að segja, þó farið verði strax að framfylgja þessum lögum. Það er sem sje lítil hætta á því, að teknar verði til greina mjög smáfeldar tryggingar fyrst í stað, þar sem stjórnin mun frekar hafa tilhneigingu til að halda í í þessu efni heldur en hitt. Hinsvegar mundi stjórnin telja sjer skylt að athuga málið nánar fyrir næsta þing, ef því væri vísað til hennar, þó jeg telji engu síður heppilegt að byrja strax að framkvæma lögin, og bíða þá með breytingar á þeim þar til sú reynsla væri fengin, sem hægt yrði að byggja á.

Að lokum vil jeg taka það fram, að þar sem mjer hefir ekki unnist tími til að athuga frv. þetta sem skyldi, þá get jeg auðvitað ekki borið ábyrgð á því í öllum greinum. En eins og jeg hefi áður drepið á, þá er varnagli sleginn í 21. gr. fyrir því, að smáfeldar tryggingar komist að fyrst í stað. Það er satt, sem sagt hefir verið, að frv. þetta er samið af mönnum, sem lítið þekkja til í sveitum, en úr þeim annmarka dregur 21. gr.

Það er auðvitað, að stjórnin gerir það ekki að neinu kappsmáli, hvort frv. verður vísað til hennar eða ekki, en eins og jeg hefi þegar sagt, þá sje jeg ekki neitt á móti því, að frv. eins og þetta komi til framkvæmda strax.