20.04.1925
Neðri deild: 60. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2599 í B-deild Alþingistíðinda. (1674)

118. mál, herpinótaveiði

Flm. (Sigurjón Jónsson):

Jeg býst við að geta verið stuttorður um frv. þetta að þessu sinni og vona, að það fái að ganga til nefndar. Svo er mál með vexti, að 1913 voru samþykt heimildarlög fyrir Skagafjarðar-, Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslur um að gera samþyktir um herpinótaveiði. Var þetta mál hjer fyrst til meðferðar í hv. deild, og var borið fram af þingm. Eyjafjarðar- og Skagafjarðarsýslna, en deildin klofnaði um málið. Urðu allmiklar umr. um þetta mál 1913, eins og jeg mun víkja betur að, en 1923 er heimild Skagfirðinga aukin að miklum mun, þeim heimilað að friða Skagafjörð fyrir herpinótaveiði út að línu frá syðri enda Þórðarhöfða til nyrðri enda Drangeyjar og þaðan sömu stefnu á Skaga. Nú hefir sýslunefnd Skagafjarðarsýslu notfært sjer þessi heimildarlög og bannað herpinótaveiði innan línu frá syðri enda Þórðarhöfða til norðurenda Drangeyjar og þaðan í sömu stefnu til Skaga.

Það sem farið er fram á með frv. því, sem hjer liggur fyrir, er að fella úr gildi þessa auknu heimild. En þótt frv. þetta verði að lögum, hafa Skagfirðingar jafnt eftir sem áður heimild til að friða innan línu, sem gengur frá Þórðarhöfða að Ingveldarstöðum. Sömuleiðis hafa Eyfirðingar leyfi til þess að þvergirða við Hrísey. Um þessi heimildarlög frá 1913 urðu sem sagt þá allmiklar umræður og klofnaði hv. Ed. líka í þessu máli, en lögin voru þó sett í það horf, sem þau eru nú, að bæði Skagfirðingar og Eyfirðingar hafa rjett til þess að setja hjá sjer slíkar reglugerðir og hjer um ræðir.

Menn deildi mikið á um það, hvort rjett væri að setja slíka löggjöf. En lögin standa óbreytt til 1923. Þá er Skagfirðingum heimilað að færa út línuna, sem ákveðin var 1913, og er það merkilegt, að þá fylgjast báðar deildir Alþingis að um málið. En þá er fregnin um þetta barst út um land, kom upp kurr hjá þeim, er stunda síldveiðar þar nyrðra. Á síðasta þingi hafði sjútvn. Nd. í huga að koma fram með frv. um það að nema lögin úr gildi, en jafnframt barst þá skeyti frá sýslunefnd Skagafjarðarsýslu, að hún mundi ekki nota heimildina frá 1923, og fjell málið því niður. En á sýslufundi þar í vetur er þessi heimild notuð, og bannað að stunda herpinótaveiði innan línu, sem gengur frá syðri enda Þórðarhöfða og lendir á Skefilsstaðabökkum.

Þegar við flm. þessa frv. vissum um, að þetta væri staðráðið, þótti okkur rjett að koma fram með frv. þetta, sem á að nema úr gildi lögin frá 1923. Við vildum ekki fara lengra, þótt sumum fyndist, að nema ætti úr gildi lögin frá 1913.

Ástæður þær, sem færðar hafa verið fram fyrir lögum þessum, er gefa sýslunefnd Skagafjarðar umgetna heimild, eru sumpart þær, að hætt sje við, að veiðarfæri manna þar skemmist, og sumpart þær, að síldveiðar með herpinót innan hinnar ákveðnu línu muni trufla fiski- og síldargöngu inn á fjörðinn.

Okkur flm. er ljóst, að slík heimild, er hjer um ræðir, er til stórhnekkis fyrir síldveiðarnar og þá, sem þær stunda. Og ástæður þær, sem færðar hafa verið fram fyrir þessum heimildarlögum, eru ekki á þeim rökum bygðar, að þær rjettlæti lögin.

Um eyðileggingu veiðarfæra er það að segja, að það, sem þar um hefir verið sagt, er á misskilningi bygt og ókunnugleik á því, hvernig veiðar eru stundaðar. Vona jeg, að háttv. þdm. geti sjeð, að þau skip, sem veiða með herpinót, verða að forðast það að lenda í botni, eða í veiðarfærum, sem í botni liggja. Yfirleitt mega herpinætur ekki snerta botn, nema þá að botninn væri sandbotn. Að lenda með herpinót í línu, þar sem önglar flækjast í nótina, herpinótasíldveiðamenn ekki gert sjálfum sjer meiri ógreiða en þann. Þessi ástæða, sem færð hefir verið fram fyrir heimildarlögunum 1923, er því ekki á rökum bygð.

Um hitt skal jeg ekki neitt fullyrða, en vitanlegt er, að síld eltir átu alveg inn í fjarðarbotna. Hinsvegar má vera, að meira mundi veiðast í lagnet innarlega í Skagafirði, ef þessi friðun, sem nú er ráðgerð ætti sjer stað. En þessi veiði, eða sá hagur, sem af henni leiðir, verður þó hverfandi lítill á móts við það óhagræði, sem öðrum mönnum er skapað. Tvö undanfarin sumur hefir mikill hluti síldarinnar veiðst á því svæði, sem nú á að friða, og mun sú verða reyndin altaf þegar tíðarfar er líkt, sífeld norðanátt. Þá berst átan inn firðina og síldin eltir hana. Er auðsætt, að þessi ráðgerða friðun hlyti að baka ríkissjóði, útgerðarmönnum, sjómönnum yfirleitt og verkalýð stórtjón, og má því ekki láta heimildarlögin standa. Landhelgin verður einnig að skoðast sem almenningseign, og er mjög takmarkað, hvað landeigendur að sjó eiga fremur rjett til sjávarins en aðrir. Og hættulegt er, að Alþingi skuli ganga inn á þá braut, að gefa vissum mönnum rjett á landhelginni.

Að þessari umr. lokinni óska jeg, að málinu verði vísað til sjútvn.