27.04.1925
Neðri deild: 65. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2624 í B-deild Alþingistíðinda. (1687)

118. mál, herpinótaveiði

Atvinnumálaráðherra (MG):

Háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) sagði, að beiðnin um ytri línuna hefði komið af því, að innri línan hefði ekki komið að gagni. En það er ekki rjett að tala um ytri og innri línu, af því að þessar línur gikla nánast hvor fyrir sinn fjarðarhluta, og það vakir fyrir að gera báðum jafnhátt undir höfði.

Það er ekki tilgangur minn að gera lítið úr áliti sjerfræðinga. En þeir eru alls ekki sammála, og það veikir álit þeirra.

Það er satt, að jeg get ekki neitað að staðfesta samþykt, ef þess væri leitað og enginn formgalli væri á. En jeg veit ekkert um þessa samþykt, nje hvenær hún kann að koma.

Hvað stærð svæðisins snertir, þá hefi jeg ekki mælt það. En mjer þykir undarlegt, ef það er svo stórt, sem hv. þm. (SigurjJ) vill vera láta. Þetta er ekki ýkjastór þríhyrna. Það er náttúrlega ágætt að bera forseta Fiskifjelagsins fyrir sig, en þegar hann vill ekki standa við það, sem eftir honum er haft, fer að verða minna gagn að því.

Það má lengi deila um það, hverju megin hagsmunirnir liggi. Og ef þessi veiði er svo mikil, sem af er látið hjer, þá er það undravert, að ekki skuli vera komin síldarstöð í Skagafirði. Í minni tíð í Skagafirði veiddist langmest af síldinni langt fyrir utan umrædda línu. En eftir því sem nú er sagt, hefir á síðustu árum veiðst mikið innan við línuna. Þetta sýnir, að áraskifti eru að þessu og því ekki rjett að meta skaða síldarútvegsmanna eftir einhverju einu ári.