29.04.1925
Neðri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2635 í B-deild Alþingistíðinda. (1696)

118. mál, herpinótaveiði

Atvinnumálaráðherra (MG):

Háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) var enn að tala um þessa rannsókn, sem hann virðist leggja alt upp úr. Jeg veit ekki, hvort hann ætlast til. að talað sje við þessa tvo aðilja, þá, sem síldarútveg stunda, og Skagfirðinga. Nú er það vitanlegt, hvernig þessir aðiljar líta á málið. og það veit hv. deild þegar. Svo þá virðist ekki annað fyrir hendi en að dæma um það, til hvorra aðiljanna beri meira tillit að taka, eða hvor þeirra hafi meiri rjett til veiðanna. Og mjer blandast alls ekki hugur um, að rjetturinn hljóti að vera Skagfirðinga megin, og segi jeg það þó alls ekki vegna þess, að jeg er þm. þeirra, heldur hlýtur heilbrigð skynsemi að játa, að svo sje.

Einasta rjettmæt ástæða til synjunar um staðfestingu á samþykt er sú, að hún sje ekki undirbúin lögum samkvæmt. Ef svo er, tel jeg ráðherra skylt að staðfesta hana til þess að öðlast gildi á þeim tíma, sem hlutaðeigendur óska, eða svo fljótt sem unt er. Þessari venju hefir jafnan verið fylgt, og sje jeg enga ástæðu til að bregða út frá henni hvað þessa samþykt snertir.

Hitt er rjett, að háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) er ekki vanur að rjetta hönd að stjórninni til samkomulags, en þegar það svo á sjer stað, er það í þeim tilgangi, að jeg brjóti gamlar reglur og venjur. Og framrjetta hönd í þessum tilgangi sje jeg mjer ekki fært að taka; má hv. þm. leggja það út á þann veg, sem hann vill.