15.04.1925
Efri deild: 52. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

1. mál, fjárlög 1926

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg vildi aðeins geta þess, er þetta frv. kemur hjer til 1. umr. með afbrigðum frá þingsköpum, að í dag er 15. apríl. Þingið hófst að þessu sinni viku fyr en í fyrra, svo að fjárlagafrv. kemur í raun og veru hálfum mánuði síðar til umr. í þessari deild nú en þá.

Jeg fann ástæðu í fyrra til að hrósa Nd. fyrir fljóta afgreiðslu á fjárlagafrv. Því miður get jeg ekki gefið henni sama vitnisburð nú. Þingi var slitið 6. maí í fyrra, enda þótt fjárlagafrv. væri þá viku fyr á ferðinni en nú. Það eru því litlar horfur á, að þingi verði slitið svo snemma að þessu sinni.

En því er nú ver og miður, að það er ekki fjárlagafrv. eitt, sem nú er seint á ferð, því að hið sama má segja um mörg önnur mál hjer á þingi.

Jeg tel mjer óhætt að lofa því fyrir hönd fjvn. þessarar deildar, að hún muni gera sitt til, að málið dragist ekki á langinn. Og jeg held ennfremur, að mjer sje óhætt að segja, að nefndin muni hafa fullan vilja til sparnaðar, enda líst mjer, að hv. Nd. hafi verið fullbjartsýn á fjárhag inn í afgreiðslu sinni á fjárlagafrv. Jeg hefi bæði í ræðu og riti heyrt, að menn byggja vonir sínar á því, að þessi deild taki nokkuð í taumana, en þó er víst, að erfiðara er að fá fjárhæðir út úr fjárlagafrv. heldur en að verjast því, að þær sjeu settar inn í það.

Jeg er fullkomlega sammála hæstv. stjórn um það, að áherslu beri að leggja á að nota komandi tíma til að greiða lausaskuldir ríkisins, en fresta fremur þeim framkvæmdum, sem beðið geta. Skuldirnar eru jafnan hinar sömu að krónutali, hvernig sem gengi stendur, og því er beinn hagur að losna við þær sem allra fyrst. Framkvæmdir fást hinsvegar miklu minni fyrir sömu krónutölu, er gengi á íslenskri krónu er hátt, og er því sjálfsagt að borga lausu skuldirnar, en fresta framkvæmdum þeim, er frestað verður, meðan gengi krónunnar er lágt eins og nú.