29.04.1925
Neðri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2642 í B-deild Alþingistíðinda. (1705)

118. mál, herpinótaveiði

Frsm. (Sigurjón Jónsson):

Háttv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) hefir gert lítið úr ástæðum þeim og rökum, sem fram hafa komið við umr., og einnig því, sem fram er tekið í greinargerð frv. og nál. Honum fórust svo orð, að þetta frv. virtist eiga að fara gegnum þingið án þess verulegar ástæður eða rök væru fyrir hendi. Þetta get jeg ekki viðurkent, því að margra upplýsinga hefir verið aflað til málsbóta. Jeg vil benda hv. þm. (ÞórJ) á, að ef hægt er að segja með sanngirni um þetta mál, að það sje litlum rökum stutt, þá má ekki síður segja það um lögin frá 1923, því að þau fóru mjög umræðulítið og athugunarlaust gegnum þingið. Við höfum bent á, að hjer væru ekki einungis í veði hagsmunir útgerðarmanna, heldur miklu fremur tekjur ríkissjóðs, sem numið gætu tugum þúsunda, ef þetta frv. yrði felt. Þá eru ekki síður í veði hagsmunir verkafólks og sjómanna, er atvinnu hafa af veiðinni, ef veiðirjetturinn verður af tekinn.

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) talaði um, að vel ætti við að leita álits Fiskifjelagsins. Það hefir verið gert og það álítur óbætanlegt tjón, ef þetta kemst til framkvæmda.

Hæstv. atvrh. (MG) segist ekki geta neitað að staðfesta samþyktina, og því verður að ráðast á lögin sjálf. Annars hefir þetta mál verið svo mikið rætt við 2. umr., að hv. þingmenn ættu að geta látið sannfærast.