15.04.1925
Efri deild: 52. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í B-deild Alþingistíðinda. (173)

1. mál, fjárlög 1926

Sigurður Eggerz:

Jeg hefi ekki búið mig undir að tala hjer langt mál. En af því að skuld ríkisins við Landsbankann hefir verið talin sem ein af þeim lausu skuldum, sem greiða þyrfti strax, þá vil jeg taka það fram, að mjer hefir skilist svo, að þegar ríkið hjálpaði Landsbankanum til að fá 200000 punda lán, eða sem svarar 6 milj. kr., þá hefði verið undirskilið, að skuld ríkisins við bankann fengi að standa. Aðstaða ríkisins til þessa banka er alt önnur en til erlendra banka, þar sem ríkið hefir lánað bankanum fje. Og þó gott sje að losna við þessa skuld, eins og allar aðrar skuldir, og þó æskilegt væri, að hægt yrði að gera það sem fyrst, þá fullyrði jeg, að þessi bankaskuld getur engan veginn talist vanskilaskuld. Hinsvegar væri þarft og gott að geta stutt bankann með því að borga hana, ef hægt væri.