02.04.1925
Neðri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2667 í B-deild Alþingistíðinda. (1734)

99. mál, innheimta gjalda af erlendum fiskiskipum

Frsm. (Björn Líndal):

Ef framfylgja á lögum um eftirlit með fiskiskipum, getur þrásinnis komið fyrir, að fara þurfi oftar en einu sinni um borð í þau. Í fyrsta skifti getur margt sjest grunsamlegt, þótt ekki sje beinlínis saknæmt. Þannig sjest máske við fyrstu ferð ósöltuð síld á þilfari, og það út af fyrir sig er ekki lagabrot. En svo er byrjað að salta hana undir eins og eftirlitið er um garð gengið. Það þarf því oft að hafa stöðugar gætur á þessum skipum.

Þau ákvæði hafa nýlega verið sett inn í fiskiveiðalöggjöfina, sem ekki hafa orðið vinsæl, og er því mikil þörf á eftirliti með þeim. Jeg tel víst, að minni von sje til, að þetta eftirlit verði vel og skörulega framkvæmt, ef til þess er ætlast, að lögreglustjórar leggi fram allan kostnað úr eigin vasa. Sífelt er verið að hlaða á þá nýjum störfum, og einkum hefir tolllöggjöfin aukið mjög starf þeirra.

Jeg skal ekki þræta hjer um, hvað felist í ákvæðum laganna frá 1922, eða hvort stjórnarráðsúrskurðurinn sje rjettur eða ekki. Það er mál, sem dómstólarnir verða að skera úr. Jeg er ekki hræddur við að setja þessi lög, þótt efasamt kunni að þykja, hvort þau geti gilt gagnvart núverandi lögreglustjórum. Úr því verða dómstólarnir líka að skera, ef til kemur.