02.04.1925
Neðri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2671 í B-deild Alþingistíðinda. (1735)

99. mál, innheimta gjalda af erlendum fiskiskipum

Klemens Jónsson:

Það þýðir ekki fyrir okkur hæstv. fjrh. (JÞ) að vera að karpa lengur um frv. þetta. Jeg held mínum skilningi fram og hann sínum. Málið kemst sjálfsagt fram í einhverri mynd, og þar með er þetta mál ákveðið framvegis. En úr því hæstv. fjrh. telur sinn skilning á lögunum frá 1922 rjettari en minn, þá var það skylda hans að höfða mál og fá endanleg dómsúrslit.

Jeg bygði skilning minn á lögunum frá 1922 einkum á þeim orðum í niðurlagi 4. gr., að gjöldin skiftist á milli lögreglustjóra og hreppstjóra; og jeg skil ekki, hvað þau orð eiga að þýða, ef þeir eiga ekki þessi gjöld. Hæstv. fjrh. segir, að þetta orðalag sje endurhljómur frá aukatekjulögunum 1894. Alveg rjett. En einmitt eftir þeim eiga sýslumenn og hreppstjórar þau gjöld, sem þar um ræðir. Hafa átt þau nú í 30 ár og hafa þau enn. Þetta er því einmitt sterkasta sönnunin fyrir því, að minn skilningur sje rjettur.

Þá talaði hæstv. fjrh. um það, að ríkissjóður hefði verið óheppinn í málssóknum sínum. Þetta er hverju orði sannara. Jeg man eftir tveim málum, sem ríkissjóður hefir farið í við einstaka menn, og annað eftir bendingu Alþingis, og gertapaði báðum. Þarf þó ekki að væna dómstólana um neina hlutdrægni, hver sem í hlut á. Síst mun ástæða til að búast við slíku af hæstarjetti.

Þá gat hæstv. fjrh. þess, að ýmsir lögreglustjórar hefðu gefið vottfest loforð um að skila tekjum þessum aftur. Jeg get svo sem vel trúað, að lögreglustjórarnir í Dala- og Rangárvallasýslum hafi ekkert kært sig um að halda sínum hlut, því hann er alls enginn, ekki einn eyrir. Ef til vill hafa fleiri gert það, sem ekki hafa athugað lög þessi eða hafa haft ríka tilfinningu fyrir þeim ákvæðum launalaganna, að allar aukatekjur væru úr sögunni. En ýmsir góðir og glöggir lögfræðingar, eins og lögreglustjórinn í Reykjavík, hafa skilið lögin á annan hátt og ekki skilað einum eyri aftur. Þetta er auðvitað dómstólamál. En ekki verður annað sagt en að það sje jafnan óheppilegt, að ráðherra bregði úrskurði fyrirrennara sinna. Jeg er þó ekki að koma fram með ásakanir í sambandi við þetta, því að hjer er um allháa upphæð að ræða. En hitt var hægt fyrir hæstv. fjrh., að vera búinn að höfða málið, áður en hann bar frv. fram.

Út af ummælum hv. þm. Barð. (HK) vil jeg geta þess, að hreppstjórar hafa einnig hlunnindi samkv. lögunum, enda þótt hann kunni að fara á mis við þau. Á Austfjörðum eru 9 eða 10 hreppstjórar, sem koma í stað sýslumanns í þessu tilfelli og hljóta allverulega upphæð, ef dómur fellur þeim í vil. (HK: Þeir fá ekki neitt). Það er alls ekki rjett, og jeg skil ekki, að svo greindur maður sem hv. þm. Barð. er skuli ekki geta sjeð, að í lögunum eru miklar rjettarbætur fyrir hreppstjóra, enda er og bætt við þá allmiklum störfum.

Út af því, að hann sagði, að sýslumenn borguðu ekki umboðsmönnum sínum, verð jeg að segja, að jeg þekki hvergi til þar, sem slíkt tíðkast, og í minni sýslumannstíð man jeg, að jeg gerði það, og býst jeg við, að svo sje um flesta eða alla sýslumenn landsins.