18.04.1925
Efri deild: 55. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2675 í B-deild Alþingistíðinda. (1743)

99. mál, innheimta gjalda af erlendum fiskiskipum

Fjármálaráðherra (JÞ):

Frv. þetta er borið fram af fjhn. í hv. Nd. í samráði við mig, og get jeg verið fáorður um ástæðurnar fyrir því. Skal þess aðeins getið, að vafi hefir þótt leika á um það, hvort gjöld af erlendum fiskiskipum, sem lögboðin eru í 54. gr. laga nr. 27, frá 27. júní 1921, um aukatekjur ríkissjóðs, skuli renna til ríkissjóðs eða lögreglustjóranna, sem innheimta þau. Þessi vafi er kominn inn með niðurlagsákvæði 4. gr. laga nr. 33, frá 19. júní 1922, um rjett til fiskiveiða í landhelgi, og er í því frv., sem hjer liggur fyrir, lagt til, að nefnd málsgrein sje úr lögum numin, sbr. 2. gr. frv. og eru þar þá líka tekin af öll tvímæli um það, að ríkið eigi þessi gjöld, svo sem var áður, en um leið er innheimtumönnunum sýnd full sanngirni, með því að þeim skuli greiddur ríflegur innheimtukostnaður. Leyfi jeg mjer svo að óska að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og til hv. fjhn.