04.05.1925
Efri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2676 í B-deild Alþingistíðinda. (1745)

99. mál, innheimta gjalda af erlendum fiskiskipum

Frsm. meiri hl. (Sigurður Eggerz):

Meiri hl. nefndarinnar leggur til, að frv. verði samþykt, þó með þeirri breytingu, að það nái ekki til lögreglustjóra þeirra, sem nú eru í embættum. Eins og kunnugt er, hefir orðið ágreiningur um, hvernig skilja bæri ákvæði laganna um þetta efni. Háttv. 2. þm. Rang. (KlJ), fyrv. fjrh., skýrði það svo, að lögreglustjórum bæri 50 aura gjaldið, en hæstv. núverandi fjrh. (JÞ) lítur öðrum augum á það mál.

Jeg skal játa, að jeg heyrði því miður ekki alla ræðu hæstv. fjrh., en jeg get strax tekið fram, að jeg tel kröfu lögreglustjóranna í þessu efni fullkomlega í samræmi við löggjöfina. Vil jeg fyrst í því sambandi vitna til laganna nr. 33 frá 19. júní 1922, 4. gr. 2. málsgr. Þar stendur svo: „Fyrir skoðun skipsskjalanna skal greiða lögreglustjóra eða hreppstjóra gjald það, er ákveðið er í aukatekjulögunum.“

Það sýnist alveg augljóst, að hjer er átt við aukatekjulögin frá 1921, því hjer getur ekki verið átt við lögin frá 1894, því áður en þessi lög voru samþykt, var svo álitið, að sýslumenn ættu rjett til 10 aura gjaldsins, sem þar er rætt um.

Ennfremur segir svo í 3. málsgr. 4. gr. laganna frá 1922: „Er hreppstjóri framkvæmir skoðunina vegna lögreglustjóra, skal skifta gjaldinu jafnt milli þeirra.“ Einmitt af því hjer er átt við aukatekjulögin frá 1921, þarf að taka þessa reglu um skiftinguna fram, en ef átt væri við gömlu lögin frá 1894, þá var þetta óþarfi. því þar eru ákvæðin um skiftinguna.

Hjer virðast vera tekin öll tvímæli af um það, að átt sje við lögin frá 1921. Og þó eru öll gögnin ekki lögð fram ennþá. Í aths. við 4. gr. stjfrv. til laga um fiskiveiðar í landhelgi er skýrum orðum tekið fram, að hjer sje átt við aukatekjulögin frá 1921. Þar sem stjórnin, sem hefir undirbúið málið, hefir skýrum orðum sagt, að átt væri við aukatekjulögin frá 1921, er það því ljóst, að þinginu er þetta atriði ljóst, er það samþykkir lögin, og ef þingið hefði verið á annari skoðun en stjórnin, þá hefði það auðvitað bæði komið fram í umr. og í orðun laganna. Fyrir hvaða dómstól sem væri mundu því lögreglustjórarnir vinna mál sitt, sem bygt er á skýrum lagabókstaf.

Þá kemur annað atriði til greina. Þótt því sje slegið föstu, að lögreglustjórum beri rjettur þessi og hafi borið hann, þá mætti spyrja, hvort ekki mætti taka hann af þeim nú. Held jeg, að slíkt væri lítt sæmilegt, enda gegn þeirri venju, sem fylgt hefir verið. Þegar launalögunum var breytt, gátu þeir, sem þá voru í embættum, kosið um gömlu eða nýju launalögin. Samkv. 2. gr. laga um vitagjald, nr. 61 frá 16. nóv. 1907, bar lögreglustjórum 20% af vitagjaldi af fiskiskipum, þegar þeir innheimtu það sjálfir, en lög nr. 17 frá 11. júní 1911 breyttu þessu þannig. að lögreglustjórar skyldu ekki fá þessi innheimtulaun, en ákveða hinsvegar, að lögreglustjórar, sem nú eru í embættum, haldi þessum innheimtulaunum meðan þeir hafi innheimtuna á hendi. Þessi tvö dæmi — sjálfsagt mætti telja mörg fleiri — sýna það ljóst. að löggjöfin telur ekki sæmilegt að taka af embættismönnunum þau rjettindi, sem þeir hafa öðlast á löglegan hátt. Svo verður að vera í því þjóðfjelagi, sem byggist á slíkum grundvelli sem vort, að hægt sje að treysta loforðum hins opinbera.

Þá kemur eitt atriði enn, sem ýmsir vilja gera mikið úr, og er það það, að lögreglustjórar hafi hjer notið of mikilla rjettinda og hlunninda. Mjer hefir ekki unnist tími til að kynna mjer, um hve miklar tekjur er hjer að ræða. Telja má víst, að þær sjeu töluverðar á Akureyri, Seyðisfirði, Vestmannaeyjum og Reykjavík, og máske víðar. Jeg vil taka það fram í þessu sambandi, að í mínum augum var það einhver stærsti gallinn á lögunum 1919, hversu lítill greinarmunur var gerður á embættum. Þessi embætti á þeim stöðum, sem jeg nú taldi upp, voru áður allra keppikefli, en eru nú talin ljeleg og lítt eftirsóknarverð.

Jeg tel þetta illa farið. Jeg álít æskilegt, að til sjeu embætti svo vegleg og arðsöm, að menn leggi alt kapp á að gerast þess verðir að hljóta þau. Jeg segi þetta ekki vegna mannanna sjálfra, heldur miklu fremur vegna embættanna sjálfra og ríkisins í heild.

Samkv. launalögunum er það nú svo, að embætti eins og Dalasýsla og Rangárvallasýsla, þar sem fremur lítið er að gera, eru í raun og veru bestu embættin.

Jeg teldi því ekki illa farið, þótt nokkru meira fje gengi til embætta þeirra, er jeg taldi fyr, á þann hátt, sem hjer er um rætt. Gæti það orðið til að skapa samkepni um þessi embætti, sem yrði öllum til góðs, eins og jeg hefi áður tekið fram.

Jeg vænti þess því, að hv. deild vilji ekki gera hlut þessara lögreglustjóra alt of skarðan. Undanfarið hafa sýslumenn átt rjett til skrifstofufjár. Hafa þeir þó jafnan orðið að borga alldrjúgan hluta kostnaðarins úr sínum eigin vasa. Hefi jeg áður sýnt fram á þetta í Nd. og lagt þar fram reikninga frá sparsömum og reglusömum sýslumönnum, er sýndu þetta með óyggjandi tölum. Voru þá margir, er ekki vildu sinna þessu, en nú verður því vonandi breytt. Þessi ókjör gengu svo langt, að sýslumenn neyddust til að koma saman hjer í Reykjavík til samtaka um að heimta endurbætur, og er furða, að þeir skuli ekki hafa gert slíkt miklu fyr. Niðurstaðan varð og sú, að stjórnin viðurkendi rjett þeirra.

Sýslumennirnir eru þýðingarmestu starfsmenn ríkisins úti um land, og tel jeg því illa og óheppilega að farið, ef þessir helstu innheimtumenn ríkissjóðs ættu við sultarkjör að búa.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. þetta að sinni. Jeg þykist hafa sýnt fram á, að sjálfsagt sje, að lögreglustjórar fái að halda rjetti sínum óskörðum meðan þeir sitja í embætti, og eins hitt, að þær auknu tekjur, sem sá rjettur veitir þeim, miða aðeins til þess að bæta úr ranglæti launalaganna.