04.05.1925
Efri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2680 í B-deild Alþingistíðinda. (1746)

99. mál, innheimta gjalda af erlendum fiskiskipum

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Jeg hefi ekki getað fylgt hv. meiri hl. í máli þessu. Eins og hv. frsm. meiri hl. (SE) sagði, eru allmjög skiftar skoðanir um það ákvæði laganna, sem hjer kemur til greina. Það er ennfremur kunnugt, að hæstv. núverandi fjrh. (JÞ) lítur á það öðrum augum en fyrirrennari hans (KlJ). Mjer skilst, að sýslumenn hafi haft töluverðan viðbúnað í vetur til að hrinda fram skoðun sinni á þessu máli — og hagsmunum sínum um leið. Hefi jeg heyrt, að þeir hafi skilið hjer eftir erindreka fyrir sig, til að vinna hjer að þessu áhugamáli sínu og frekar tvo en einn.

Nú hefir hæstv. fjrh. borið fram einskonar miðlunartill. í málinu. Vill hann láta lögreglustjóra fá framvegis nokkurn hluta af tekjum þessum, en fella niður 1. gr. laganna frá 1922, sem þeir byggja á kröfur sínar. Hv. meiri hl. nefndarinnar fellst á þetta, en vill þó ekki, að til framkvæmda komi fyr en eftir dag núlifandi embættismanna.

Mjer finst nú að vísu, að stjfrv. gangi heldur skamt, en þar sem jeg sje, að ekki verður lengra komist að sinni, mun jeg greiða því atkvæði mitt. En hitt dylst mjer ekki, að tekjur þessar nema sumstaðar miklu meira fje en stendur í hlutfalli við fyrirhöfnina, eins og t. d. hjer í Reykjavík. Hjer leggur ríkissjóð til bát og auk þess marga menn, er standa í þjónustu lögreglustjóra. En hann á að fá af þessari starfsemi mörg þús. króna aukatekjur, ef til vill tugi þúsunda.

Vildi jeg mælast til þess, að hæstv. fjrh. vildi gefa skýrlu um, hversu miklar þessar tekjur væru nú hjer í Reykjavík og jafnframt hverjar þær yrðu eftir hans frv.

Ræða hv. frsm. meiri hl. (SE) gat jeg ekki sjeð, að snerti þetta mál. Gekk hún mest út á, að nauðsynlegt væri að búa til feita bita meðal sýslumannaembættanna, er sem flesta langaði í. Og jeg verð að segja, að sum embættin, eins og t. d. lögreglustjóraembættið í Reykjavík, eru nógu eftirsótt, þó þessum launum verði ekki bætt við.

Það verður ekki sjeð af umr. um fiskiveiðalögin, að þm. hafi hugsað sjer, að umsjónin myndi kosta svona mikið, en þennan tombóludrátt vilja sýslumenn nú ekki missa, og stendur deilan um það, hvort þeir eigi að gera það eða ekki. En ekki verður annað með sanni sagt en að frv. hæstv. stjórnar geri konunglega vel ráð fyrir því, hvernig launa eigi þeim fyrir ómak þeirra.