04.05.1925
Efri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2681 í B-deild Alþingistíðinda. (1747)

99. mál, innheimta gjalda af erlendum fiskiskipum

Fjármálaráðherra (JÞ):

Út af afstöðu hv. nefndar, sem mjer kom raunar algerlega á óvart, finst mjer nauðsyn bera til að skýra nokkuð ger frá gangi þessa máls.

Jeg skal þá fyrst minna á það, að í lögum um aukatekjur, dagpeninga og ferðakostnað sýslumanna, bæjarfógeta o. fl. frá 2. febr. 1894, er svo fyrir mælt, að lögreglustjóri eða hreppstjóri skuli fá 10 aura af hverri smálest skips, er hingað kemur til lands, sem þóknun fyrir að skoða og rita á skipsskjölin. Gjald þetta var þó aðeins 5 aur., ef skipið hafði fyrr komið á íslenska höfn og sýnt þar skipsskjöl sín. Ef hreppstjóri framkvæmdi skoðunina f. h. fógeta, þá skiftist gjald þetta jafnt á milli þeirra (1. gr.). Seinna var annað gjald, sem nam 50 aurum á smálest, lagt á dönsk og færeysk fiskiskip, og rann það gjald í landssjóð. Á skipum annara ríkja hvíldi aðeins áritunargjaldið. Stóð svo til 1919, er launalögin voru sett. Var þar í 11. gr. sett það ákvæði inn í lögin um lögreglustjóra, að allar aukatekjur svo og innheimtugjöld skuli þar eftir ganga til ríkissjóðs. En þessar tekjur, sem þeir höfðu haft, voru t. d. tekjur samkv. lögunum frá 1894. Því var full ástæða til að halda, að áritunargjaldið ætti upp frá þessu að hverfa í ríkissjóð. Næst voru með nýjum aukatekjulögum 1921 hækkuð gjöld af dönskum og færeyskum skipum úr 50 au. af smálest upp í 100 au. og lögleitt 50 au. gjald af öðrum erlendum fiskiskipum, samkv. 54. gr., og var svo fyrir mælt, að gjaldið rynni í ríkissjóð, en lögreglustjórar innheimtu það. Þessu næst koma til sögunnar lög um rjett til fiskiveiða í landhelgi 1922. En út af ákvæði þessara laga, 4. gr. í. f., reis vafi um það, hvort tekjur þessar skyldu áfram renna í ríkissjóðinn eða verða eign innheimtumanna. Þess skal þó getið, að 1922 skiluðu flestir af sjer þessum tekjum, en einn sá sig þó um hönd og fór fram á, að sjer yrði endurgreitt þetta fje með skírskotun til síðustu málsgr. 4. gr. nefndra laga. Fjell um þetta úrskurður í fjármálaráðuneytinu á þann veg, að honum var endurgreitt fjeð. Eðlileg afleiðing þessa hefði auðvitað verið sú, að einnig hinum hefði verið endurgreitt fjeð, en það var samt ekki gert. Næsta ár skiluðu svo enn ýmsir, en úrskurður um þá reikninga er ekki fallinn. Svo á síðasta ári, 1924, var vakin eftirtekt viðkomandi embættismanna á því, að núverandi stjórn liti öðrum augum á þetta en gert hefði verið, og óskaði eftir, að reikningarnir bæru með sjer, hve tekjur þessar hefðu numið miklu; en því voru þeir lögreglustjórar hættir, sem farnir voru að innheimta þessi gjöld handa sjer. Komu svo skýrslur um þetta frá ýmsum, og frá einum góðum og mikilsvirtum lögfræðingi barst yfirlýsing þess efnis, að hann áliti, að tekjur þessar ættu að renna í ríkissjóð. Er þannig hin mesta óreiða komin á um þetta efni, þar sem sumir hafa skilað ríkissjóði þessum gjöldum, en aðrir haldið þeim eftir.

Út af ræðu hv. frsm. meiri hl. (SE) verð jeg stuttlega að koma inn á lögskýringu þessa atriðis. Hann vísaði í athugasemdirnar við stjfrv. 1922, en þar er ekkert sagt annað en að ekki þyki rjett að taka upphæð þessa gjalds inn í lög um rjett til fiskiveiða í landhelgi, heldur ákvarðist hún eftir því, sem fyrir er mælt í aukatekjulögum, sem gilda á hverjum tíma, og tekur til dæmis 54. gr. En auðvitað er, að sú tilvísun á ekki að vera tæmandi. Það er aðeins bending um, að greinin sje í gildi, en ekki hitt, að það sje tæmandi. Orðið „sbr.“ sýnir einmitt. hvernig þetta hefir verið skilið.

Því næst hefir verið bygt á því, að „aukatekjulög“ merki aðeins lög um aukatekjur ríkissjóðs, og að þá sje átt við 1. 1921. En þetta er ekki rjett. Jeg hefi sjeð lagastaf fyrir því, að með þessu sama orði sje átt við lög um aukatekjur sýslumanna. Má í því sambandi benda á lög um skiftingu bæjarfógetaembættisins í Reykjavík 1917, 3. gr., þar sem sagt er, að tekjur, sem runnið hafi til bæjarfógetans samkv. aukatekjulögunum, skuli renna til ríkissjóðs.

Þá er að lokum bygt á sjálfu orðalagi 4. gr. laganna 1922, þar sem sagt er í næstsíðustu málsgr., að gjaldið eigi að greiðast hreppstjóra eða lögreglustjóra. En með þessu er ekkert sagt um það, til hvers gjaldið skuli renna, enda hefi jeg ekki heyrt neinn fyr byggja rjett innheimtumanna til gjaldsins á þessu ákvæði. Svo í síðustu málsgr. er tekið upp ákvæði um skiftingu gjaldsins milli lögreglustjóra og hreppstjóra. En jeg held því fram, að í 1. 1921 sje skýr staður þess, að ríkið eigi gjaldið. Sömuleiðis er það sýnilegt, að ef 1. 1922 gefa lögreglustjórum og hreppstjórum þetta gjald, þá hefir það verið gert í ógáti. Það sjest hvergi, að til þess hafi verið ætlast, að teknar yrðu tekjur frá ríkissjóði og látnar til lögreglustjóra. Enda er nú fullkomin viðurkenning fengin á þessari skoðun minni, þar sem í frv. því, er lá fyrir síðasta þingi um að innheimta ýms gjöld og tolla með 25% gengishækkun, var þessi tollaukning líka lögð á skipagjöldin, en allar athugasemdir við það frv. hníga í þá átt, að það sje fram borið til að afla ríkissjóði tekna, en ekki einstökum embættismönnum.

Því er það, að hvaða niðurstöðu, sem dómstólarnir kunna að komast, þá hefir það orðið löggjafarvaldinu á óvart, ef það hefir gefið lögreglustjórum þessar tekjur. Og þá vil jeg heldur ekki, að sá siður komist á, að þeir haldi þeim. En haldi einhver, að þetta hafi verið tilraun til að bæta kjör þessarar stjettar embættismanna, þá má með sanni segja, að gripið hafi verið til óyndisúrræða, sem best má sjá á því, hve misjafnt þessi tekjuauki kemur niður. Hv. nefnd hefir haft með höndum skýrslu frá fjármálaráðuneytinu, en það reyndi að komast eftir því, um hvaða upphæðir hjer væri að ræða. En því miður nær þessi skýrsla skamt, því, eins og áður hefir verið drepið á, hafa margir innheimtumenn hætt við að taka þessi gjöld upp í reikninga sína. Hjer er því aðeins um ófullkomið yfirlit að ræða yfir þessar tekjur eins og þær urðu síðari hluta ársins 1922, en eins og menn muna, gengu fiskiveiðalögin í gildi 1. júlí þ. á. Tekjurnar reyndust að vera svo sem hjer segir:

Í Gullbringu- og Kjósarsýslu og Hafnarfirði ca. 400 kr., í Barðastrandarsýslu ca. 900 kr., í Ísafjarðarsýslu og kaupstað ca. 1750 kr., í Strandasýslu ca. 160 kr., á Siglufirði ca. 5000 kr., í Eyjafjarðarsýslu og á Akureyri ca. 1000 kr., í Þingeyjarsýslu ca. 2700 kr., í Norður-Múlasýslu og á Seyðisfirði ca. 3200 kr., í Suður-Múlasýslu ca. 1900 kr.

Óupplýst er um þessar tekjur í Vestmannaeyjum og Reykjavík og úr hinum lögsagnarumdæmunum hefir ekki komið neitt. Eftir því sem ætla má, nema þessar tekjur 30—40 þús. kr. á ári, og langmestar verða þær í Reykjavík. Sumstaðar hefir innheimtan allmikinn kostnað í för með sjer fyrir lögreglustjóra, en annarsstaðar verður kostnaðurinn enginn fyrir þá, svo sem er í Reykjavík, þar sem allur kostnaður af embættinu er greiddur samkvæmt reikningi, og tekjurnar þannig hreinar tekjur fyrir lögreglustjórann. Það væri því meir en lítið misrjetti í því, ef bæta ætti kjör stjettarinnar með þessu. Jeg get engu að síður tekið undir það, að þessi stjett hefir verið mjög vanhaldin af launakjörum sínum undanfarið. Og til að bæta nokkuð úr því, mun skrifstofukostnaður þeirra á árinu 1925 verða, upp á væntanlegt samþykki Alþingis, ákveðinn í samræmi við till. um hann í fjárlagafrv. fyrir 1926. Verður þá sýslumönnum sagt um leið, að þessi ríflega hækkun verði gerð með það fyrir augum, að ríkissjóður fái eftirleiðis skipagjöldin. Og mun fjármálaráðuneytið telja sig vanhaldið af þessari ákvörðun, ef lögreglustjórar verða látnir halda þeim. — Það má vel vera, að gott sje að hafa feit embætti innan um, sem sjeu eftirsóknarverð, en jeg held ekki, að þetta sje besta leiðin til slíks.

Annars veit jeg ekki, hvað leggja á inn í till. meiri hl. nefndarinnar á þskj. 428. Hann vill, að ákvæði frv. nái ekki til þeirra lögreglustjóra, sem nú sitja í embættum. En ef þetta fer í mál, þá munu ríkinu verða dæmdar tekjurnar eftir lögunum 1921, sem álitin voru í gildi, er frv. um gengisviðaukann var undirbúið. En verði nú málalokin slík, og þessi viðaukatillaga í annan stað samþykt, þá verður ekki sjeð, að hún hafi aðra þýðingu en þá, að núverandi lögreglustjórar megi ekki fá innheimtukaupið samkvæmt 1. gr. frv. Jeg held, að úrslit þessa máls verði svo best, að komist verði hjá málaferlum, og hefi jeg vonað, að það tækist á þeim grundvelli, sem frv. setur. En mjer finst málið fara að vandast og gæti vel skilið óánægju þeirra lögreglustjóra, sem nú eru, ef þeir væru sviftir öllu gjaldinu, en þeir, sem eftir þeim koma, fá 25% í innheimtukostnað. Annað mál er það, þó þeir reyni að halda þeim rjetti að lögum, sem þeir kynnu að hafa öðlast, en það er algerlega óþarft að setja inn í þetta frv. ákvæði, sem tryggja þeim slíkan rjett.

Hv. frsm. meiri hl. (SE) spurði, hve miklu þetta mundi nema. Maður býst við, að það verði um 30 þús. kr. á ári; veit jeg þó ekki enn um Reykjavík og Vestmannaeyjar. Þó hefir það verið sagt, og því ekki mótmælt, að í Vestmannaeyjum hafi þessi gjöld frá því í febrúar í fyrra og þar til í ágúst verið um 6000 kr. En um það, hve mikið þurfi að borga fyrir að innheimta þessi gjöld, þá hygg jeg, að hjer í Reykjavík þurfi ekkert að greiða, þar eð allur kostnaðurinn við skrifstofuhald lögreglustjóra er greiddur úr ríkissjóði, eftir reikningi, en á öðrum stöðum fari það eftir því, hvernig á stendur, og jeg hugsa mjer helst, að 25% verði ákveðið í flestum lögsagnarumdæmum austanlands og norðanlands, þar sem innheimtan mun vera sjerstaklega erfið, þar sem margir tollstaðir eru og skipin koma víða í sama umdæminu.

Jeg tók svo eftir, að hv. 5. landsk. (JJ), sem annars hefir lagt á móti þessu frv., segði, að hann myndi greiða atkvæði með því, og þá vildi jeg segja það, að hvernig sem afstaða hv. þm. (JJ) kann að vera til 1. gr. frv., þá get jeg ekki skilið, að neinn óski eftir að hafa rjettaróvissu um það áfram, hverjir eigi þessar tekjur, og algerlega óviðeigandi að þurfa að úrskurða það með málaferlum á milli ríkissjóðs og starfsmanna hans, enda er ekki farið fram á annað en að úrskurða það með lögum, hverjir eigi þetta gjald.