08.05.1925
Efri deild: 71. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2696 í B-deild Alþingistíðinda. (1754)

99. mál, innheimta gjalda af erlendum fiskiskipum

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það orkar mjög tvímælis, hvort lögreglustjórarnir halda þeim rjetti fyrir dómstólunum, sem hv. 1. landsk. (SE) telur þá hafa. En hvað sem því líður, þá felst ekki í þessu atriði nein ástæða til að vera á móti frv., því ef svo skyldi reynast, að lögreglustjórunum verði dæmdur rjetturinn, þá hefir löggjafarvaldið altaf í hendi sjer að láta þá halda honum áfram. Hinsvegar er ekki viðeigandi, að Alþingi segi nokkuð um þetta atriði og gefi dómstólunum þar með bendingu, áður en þeir fella úrskurð sinn.

Ef það er meiningin að hafa áhrif á dómstólana, þá er rjettara, að Alþingi taki þegar af skarið og segi, að lögreglustjórarnir skuli halda umþráttuðu gjaldi.

Það er hrein afstaða og Alþingi samboðin, en ekki hitt, að gera rjett þeirra skilorðsbundinn.