24.04.1925
Neðri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2704 í B-deild Alþingistíðinda. (1771)

116. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Tryggvi Þórhallsson:

Mjer skildist það á hæstv. fjrh. (JÞ), að umr. um þetta ættu ekki að verða langar að þessu sinni, því það yrði til þess eins, að menn yrðu að endurtaka síðar það, sem nú yrði sagt, og má það rjett vera; en mjer fanst það þó vera rjett, að jeg ljeti mína skoðun í ljós á þessu máli þegar á þessu stigi þess.

Út af því, sem hæstv. fjrh. og hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hafa sagt, vil jeg bæta því við, að jeg tel það illa farið, að þetta mál, sem er eitt hið allra stærsta mál, sem fyrir þessu þingi liggur, kemur svo seint fram, að það er orðið alt of áliðið þingtímann til að hægt verði að sinna því eins ítarlega og það á skilið. En þetta mál er svo merkilegt, að það á skilið góða athugun og nákvæma meðferð af þinginu, og er jeg að því leyti sammála hæstv. fjrh. En þó jeg búist við því, að svo sje í garðinn búið, að ekki verði á þessu þingi hægt að taka endanlega ákvörðun um skipulag þessara mála, þá má þó stíga fyrsta sporið í þá átt, sem síðar skal farin.

Þá ætla jeg að víkja nokkrum orðum að ræðu háttv. 2. þm. Reykv. (JBald). Mjer kom alls ekki á óvart ræða hv. þm., því flokksmenn hans úti um allan heim halda þessari skoðun fram; en ef nánar er aðgætt, er mjög vafasamt, að hann vinni ísl. verkamönnum það gagn, er hann vill, ef hann fengi þessari skoðun sinni fullnægt. Hann sagði meðal annars, að gengið hefði lítið breyst á síðastl. ári; en í fyrra kostaði sterlingspundið 33 kr., en nú aðeins 27 kr. Þetta er alls ekki lítil breyting. Þetta er svo afskapleg gengisbreyting, að nærri liggur að einsdæmi sje. Hv. þm. sagði, að minn tilgangur væri að láta bændur græða á lággenginu. Þetta er algerlega rangt. Minn tilgangur er ekki sá, að láta bændur fremur græða á því en öðru, heldur hitt, að fá heilbrigðan grundvöll að standa á við þennan atvinnuveg. Jeg vil, að bændur geti vitað, að hverju þeir gangi, er þeir eru að byrja atvinnurekstur hvers árs; eru búnir að draga að sjer nauðsynjavörur og greiða kaup verkafólki sínu, en hafa ekki enn lokið afurðasölunni. Jeg vil ekki, að bændur fái fyrst vitneskju um það eftir á, að þeir fái minna fyrir hverja krónu í afurðum sínum en krónan kostaði í innkeyptum nauðsynjum. Hv. þm. segir, að bændur græði á lággengi krónunnar. Ef hann vill fá rjettlæti til handa verkamönnum, þá er og rjettlátt, að samið sje um verkamannakaup á rjettlátum grundvelli; en það verður aðeins með því, að peningagildið sje fast og óhaggandi. Í öðru lagi, ef haldið væri áfram á þeirri leið að láta krónuna stíga eins ört framvegis og hún hefir gert til þessa, mundi afleiðingin óhjákvæmilega verða sú, að þeir, sem geta, fresta öllum framkvæmdum, því að með því að fresta þeim, vita þeir, að þær verða ódýrari síðar. Ríkið mundi og gera hið sama, og ef menn vildu láta krónuna stíga ennþá hærra en komið er, — hver yrði þá afleiðingin af því fyrir verkamennina? Jeg svara: Meira og minna, ef ekki algert atvinnuleysi! Nei, ef litið er hlutdrægnislaust á þetta, mun það verða best fyrir alla að fá fastan gengisgrundvöll til að byggja á. Það á að vera æðsta krafan frá öllum atvinnurekendum, og frá öllum yfir höfuð, að fá fastan grundvöll, svo hægt verði að gera fastar áætlanir um allan atvinnurekstur og önnur viðskifti. Ef krónan breytist í verði, t. d. um 10%, þá verður alt að áhættuspili — „spekulation“ — en ekki að ábyggilegum atvinnurekstri. Menn vilja hækka krónuna upp í gullgildi, til þess að fá fastan grundvöll til að byggja á, segja þeir; en þetta er hægt að gera strax. Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) sagði, að jeg hefði sagt, að um tvær leiðir væri að velja. Þetta er ekki rjett; en jeg legg áherslu á að festa gengi ísl. krónunnar, en ef það á endilega að láta hana hækka, þá á að gera það á þeim tíma, sem minst tilfinnanlegur er í öllum atvinnurekstri, — á hinum „dauða“ tíma ársins, svo að menn viti, að hverju þeir eiga að ganga, áður en þeir byrja ársatvinnureksturinn, þegar þeir eru búnir að kaupa inn og selja afurðirnar.

Hæstv. fjrh. talaði um vandkvæði á þessu máli. Það er vitanlega rjett, að gagnvart Norðurlöndum hefir þetta alvarlega hlið; en jeg vil benda á, að til eru fleiri lönd en Norðurlönd. Viðskifti okkar eru á síðari árum ávalt að færast meir og meir til Englands, og jeg hygg t. d., að megnið af fiskinum okkar sje selt fyrir enska peninga, og þess er að vænta, að landbúnaðarafurðir okkar komist smám saman mestmegnis á enskan markað. En nú er sterlingspundið sem næst í gullgildi, og ef krónan ísl. yrði fest gagnvart sterlingspundi, væri hún komin allnærri því að vera jafngóð og gull, og ef stíga á þetta spor, sem jeg álít, að við eigum að gera, verðum við að gera það sem allra fyrst. Jeg veit t. d., að eitt land, sem að jafnaði er talið með Norðurlöndum, þ. e. Finnland, hefir gert þetta og stöðvað gengi sinna peninga, ekki í 2/3, heldur í 1/10 við hið fyrra gullgildi þeirra.