06.05.1925
Neðri deild: 73. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2717 í B-deild Alþingistíðinda. (1778)

116. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Jón Baldvinsson:

Ef breyta á um frá því, sem nú er í lögum um skipun nefndarinnar, þá finst mjer hvorki rjettlátt nje sanngjarnt að breyta svo um sem þeir vilja, er hv. þm. Str. (TrÞ) hefir orð fyrir. Mjer finst hvorki rjettlátt nje sanngjarnt, að þeir einir, er kaupa og selja gjaldeyrinn, skuli öllu ráða, heldur fái og þeir nokkru ráðið, sem mest eiga undir því, að gengið fari hækkandi. Þess vegna legg jeg til, að í nefndina verði enn bætt tveim mönnum, einum fulltrúa, sem stjórn Alþýðusambandsins kýs, og öðrum, sem Verslunarráðið kýs. Við þetta hefi jeg nú komið fram með skriflega brtt. þess efnis, að í stað Verslunarráðs Íslands komi Samband íslenskra embættismanna. Er það gert eftir bendingu frá hv. frsm. (KlJ) og fleirum, og hefi jeg ekki á móti, að svo sje. Aðrar brtt. mínar eru afleiðing af þessari aðalbrtt., svo sem brtt. við brtt. á þskj. 441, að í stað: „Tveir hinir síðasttöldu hafa þó ekki atkvæðisrjett“ o. s. frv. komi: Fjórir hinir síðasttöldu o. s. frv. Er þetta bein afleiðing af aðalbrtt. minni. Annars verð jeg að segja, að jeg teldi rjettast, að allir nefndarmenn hefðu atkvæðisrjett, því ef þessir menn komast í nefndina, eins og hjer er farið fram á, hljóta þeir að hafa mjög mikil áhrif á gengisskráninguna, og jeg sje ekki þýðing þess að varna þeim atkvæðisrjettarins.

Ýmsar athugasemdir hafa komið fram um málið í heild, sjerstaklega frá hv. þm. Str. (TrÞ). Hann talaði mjög ákaft um, hversu varlega yrði að fara í því að láta krónuna hækka, og sagði, að það væri þingviljinn, að hún hækkaði ekki. Þetta er nú svo og svo. Auðvitað verður þetta að fara mest eftir því, sem ástæður eru til og sanngjarnt er. Það gæti verið til ills fyrir landið að halda útlenda gjaldeyrinum langt fyrir neðan sannvirði. Það gæti leitt til þess, að menn færu meira í kringum bankana og versluðu með gjaldeyrinn án þess að bankarnir fengju við ráðið. Þá væri ekki hægt fyrir bankana að halda stöðugt föstu gengi. Annars verð jeg að segja viðvíkjandi þessu fasta gengi, að mjer skilst, að áður en það getur komist á. Þurfi að gera svo margar og mikilsverðar ráðstafanir, að ekki sje hægt að segja rjett svona út í bláinn: Við viljum að gengið sje fast. Nei, áður en fast gengi kemst á, skilst mjer, að gera þurfi seðlana innleysanlega með gulli, leyfa að flytja gull út úr landinu og ef til vill breyta um mynt í landinu. Jeg hefi ekkert að athuga við, að gengið sje fast, þegar þessar ráðstafanir hafa verið gerðar en að segja nú aðeins, að krónan megi ekki hækka, það fær ekki staðist. Í augum hv. þm. Str. eru ekki aðrir til í þetta sinn en bændur og útvegsmenn, og þá aðallega þeir, sem flytja út fisk, því að þetta mál snertir þá mest. En þeir eru nú ekki sjerlega margir, sem það gera, og viðvíkjandi bændum landsins, þá held jeg, að þeir biðu ekki sjerstaklega mikinn skaða, þó íslenska krónan hækkaði varlega, eins og hún gerði síðastliðið ár.

Jeg tel því sjálfsagt, að verði skipun nefndarinnar breytt, þá verði þeim, sem jeg hefi stungið upp á, gefinn kostur á að hafa áhrif á starf gengisskráningarnefndarinnar. Væri mjög ósanngjarnt að bola þeim frá að hafa áhrif á nefndina, því að vitanlega snertir starf hennar ekki síður þeirra hag en hinna, sem hv. þm. Str. (TrÞ) ber svo mjög fyrir brjósti.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum.