06.05.1925
Neðri deild: 73. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2723 í B-deild Alþingistíðinda. (1780)

116. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Fjármálaráðherra (JÞ):

Háttv. frsm. (KlJ) skaut því til mín, hver kostnaðurinn við gengisnefndina muni vera. Jeg veit lítið um það, því að ekkert af þeim kostnaði er greitt úr ríkissjóði, heldur er honum skift á milli beggja bankanna. Fyrir mín augu hefir aðeins komið einn reikningur upp á 2—3 þús. kr. fyrir skrifstofukostnað, húsnæði og aðstoð nefndarinnar. Annað veit jeg ekki um þetta.

Viðvíkjandi þeim till., er fyrir liggja, vil jeg segja, að jeg get gengið inn á till. hv. meiri hl. fjhn., en tel þó, að svo framarlega sem bæta á við í nefndina tveim utanveltumönnum af hendi seljanda erlends gjaldeyris, þá fari ekki vel á öðru en að líka sje bætt við mönnum af hálfu kaupenda gjaldeyrisins. Eins og nefndin er nú samansett, þá er hún að minni hyggju svo óhlutdræg sem unt er. Í henni eru tveir fulltrúar frá bönkunum, og i þessu tilfelli eru bankarnir aðeins miðlarar milli kaupenda og seljenda. Þeir selja þann gjaldeyri, sem þeir kaupa, og kaupa þann gjaldeyri, sem þeir selja. Verslunin getur minkað og aukist, en þeir verða ætíð milligöngumenn, sem hljóta að taka tillit til hagsmuna beggja aðilja. Þriðji maður nefndarinnar er fulltrúi stjórnarinnar, sem gætir hagsmuna almennings. Nú er farið fram á að bæta við tveimur fulltrúum fyrir útflytjendur. Það væri þá ekki óeðlilegt, að fulltrúi kæmi fyrir hina aðiljana, sem eru daglaunamennirnir og sá hluti verslunarstjettarinnar, sem hefir vöruinnflutning á hendi. Það eru kaupendur erlenda gjaldeyrisins. Hvað sem annars verður gert, tel jeg alveg þýðingarlaust, hvernig nefndin verður skipuð. Í aðaldráttum stjórnast gengisbreytingar af atriðum, sem liggja utan við verksvið nefndarinnar. Breytingar á gengi orsakast annarsvegar af ráðstöfunum bankanna um útlán og vexti og við hliðina á því af ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar viðvíkjandi skuldum. Á hina hliðina ræður árferðið, hversu hagstætt það er atvinnuvegunum. Þetta liggur alveg fyrir utan verksvið nefndarinnar. Það, sem hún getur sjeð um, er að verjast eftir föngum smágengissveiflum, sem stafa af árstíðum eða sjerstökum viðburðum, svo sem þegar stórar greiðslur falla í gjalddaga. Síðan þessi nefnd var sett, höfum við tekið eins föstum tökum á þessu máli og nokkur önnur þjóð. Okkur hefir tekist að hindra allar smásveiflur, en hækka gengið smámsaman. Jeg held að rjettast væri að framlengja lögin óbreytt, eins og minni hl. fjhn. vill, en ekki bæta við í nefndina utanveltumönnum. Þeir yrðu þá velsæmis vegna að koma frá báðum hliðum.

Hv. þm. Str. (TrÞ) leggur áherslu á, að gengið hækki ekki, eða þá mjög varlega. Jeg er ekki á móti því, að varlega sje farið, og það hefir nefndin gert. Því fer fjarri, að hún hafi stýrt hækkuninni fram úr því, sem bein ástæða var til. Hv. þm. (TrÞ) vill slá því föstu, að rjett sje að stýfa krónuna. Hann vill láta koma fram fyrir munn frsm. fjhn. yfirlýsingu, sem eigi að þýða skipun til Landsbankans og gengisnefndarinnar um að undirbúa skuli til næsta þings stýfingu krónunnar, með því að halda genginu föstu. Jeg held, að óþarft sje af þinginu að gera slíka yfirlýsingu. Jeg skal benda á, að ekkert Norðurálfuríkjanna, þar sem líkt hefir staðið á um gengi gjaldeyris og hjá oss, hefir stigið þetta spor um stýfingu gjaldeyrisins. England hefir hækkað gengið hjá sjer upp í gullgildi. Nokkur ríki hafa að vísu stýft gjaldeyri sinn, en það hefir ekki verið gert nema þar, sem gengið hefir hrapað svo langt, að ekki var hugsanlegt, að það kæmist í gamla horfið. Má nefna Rússland, Þýskaland, Pólland og Eystrasaltslöndin. Finnland hefir ekki gert það enn, en gerir það væntanlega. Þar er líka markið fallið niður í 1/7 upphaflegs verðgildis, og hefir staðið svo í 3 ár. Ekkert þeirra ríkja, þar sem gjaldeyririnn hefir ekki fallið meira en miðja vegu milli gamla verðsins og núlls, hefir viljað stíga svona spor. Rjett mun að fara varlega í þessu efni. Líta verður á það, að þau tvö lönd, sem við kaupum mest frá, Noregur og Danmörk, standa á svipuðu stigi að því er gjaldeyrinn snertir, og ekki verður annað sjeð en að þau ætli að hækka hann upp í gullverð. Ef þau halda áfram að hækka gengið og munurinn á okkar gjaldeyri gagnvart dönsku krónunni fer hækkandi, getur það valdið óþægindum. Þá opnast sú gróðaleið fyrir hvern, sem á innstæðu í ísl. banka, að flytja hana í norska eða danska banka meðan okkar gengi stendur kyrt. Þetta er svo alvarlegt, að ekki væri rjett að flíka fyrirætlunum um stýfingu áður en ákveðið væri að gera slíkt. Það gæti valdið ýmsum óþægindum. Menn mundu missa trúna á, að okkar króna hækkaði eins og norsk og dönsk króna. Þó að sumum þætti góð í bili stöðvun á hækkun krónunnar, mundi koma annað hljóð í strokkinn, þegar menn yrðu þess varir, að lánsfje yrði að heimta harðri hendi af því að ísl. peningastofnanir þyrftu að standa skil á innstæðum manna til útlanda. Best mun að viðhafa alla gætni. Nú er bjargföst trú á hækkun krónunnar, og heppilegast mun, að sú trú haldist fyrst um sinn.

Háttv. þm. Str. (TrÞ) hefir víst meint, að halda þyrfti genginu föstu gagnvart pundi, sem nú er í þann veginn að komast í gullgildi. Eigi hann við, að ekki sje rjett að fara fram úr dönsku krónunni, býst jeg við, að allir geti verið honum sammála um það.