06.05.1925
Neðri deild: 73. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2732 í B-deild Alþingistíðinda. (1783)

116. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Frsm. (Klemens Jónsson):

Hv. 4. þm. Reykv. (KlJ) gat þess fyrir hönd minni hl. nefndarinnar, að hann áliti, að þetta fyrirkomulag með gengisnefndina hefði reynst gott, og hann var sammála mjer um það, að nefndin væri eins vel skipuð og hægt væri að kjósa. En ýmsir eru þó á því, að hún hafi farið of frekt í það að hækka krónuna. Þetta kom fram í ræðum þeirra hv. 1. þm. G.-K. (ÁF), hv. þm. Str. (TrÞ) og hv. þm. Borgf. (PO), og einn þeirra ljet í ljós, að hann gæti sannað það, að menn hefðu beðið tjón af hækkuninni.

Þegar farið er fram á það að fjölga nefndarmönnum, er það meðfram haft, fyrir augum að koma í veg fyrir fljótar gengissveiflur, og að gengið haldist fastara. Hæstv. fjrh. hefir haldið því fram, að umboðsmaður stjórnarinnar í nefndinni muni gæta hagsmuna almennings í þessu efni. Það kann að vera, en jeg efast samt ekki um það, að það getur verið gott fyrir nefndina að hafa aðra menn með sjer til athugunar og ráðuneytis. Gengisnefndin hefir sjálf skýrt frá því, að útgerðarmenn hafi ósjaldan verið á fundum með henni og rætt um gengismálið, og er enginn efi á því, að hún hefir tekið tillit til tillagna þeirra og fylgt þeim eftir því, sem frekast var fært. En þessir menn koma svo að segja af götunni og nefndin þarf ekki að taka neitt tillit til þess, er þeir segja. En hinir, sem þingið skipaði og gæfi tillögurjett, hljóta að hafa miklu meiri áhrif, því að gjaldeyrisnefnd verður að taka fult tillit til þeirra. En ef þeir hefðu atkvæðisrjett og fulltrúi stjórnarinnar snerist í lið með þeim gegn bankastjórunum, svo að þeir yrðu í meiri hluta, þá gæti farið svo, að þeir settu það gengi, að bankarnir treystu sjer ekki til þess að kaupa útlendan gjaldeyri fyrir það ákvæðisverð, og fyrir því er rjett að gefa þeim ekki atkvæðisrjett.

Hv. þm. Str. hjelt því fram, að „konsekvent“ ætti fulltrúi stjórnarinnar ekki heldur að hafa atkvæðisrjett, en það þarf altaf oddamann í hverri nefnd, til þess að gera útslagið. Jeg skal ekki fara út í almennar aths. um málið, en jeg skal geta þess, að gengisnefnd getur ekki skráð eftir eigin geðþótta. Hún verður að taka tillit til bankanna, stjórnarinnar, árferðis o. s. frv. Þetta býst jeg við, að allir hljóti að skilja.

Hv. þm. Str. hjelt því fram, að það hefði verið fastur þingvilji síðastliðið ár, samkv. lögum nr. 48, 4. júlí, að nefndin hefði það verksvið að hækka krónuna. Jú, það stendur í 1. gr. laganna, að „festa eða hækka gengi krónunnar“. Þarna er óbeinlínis gefin fyrirskipun um að hækka gengið, enda vildu þá allir, að krónan hækkaði. Nú hefir hv. þm. Str. viljað fá nýjan þingvilja, og sætt sig við það að bæta þessum 2 mönnum í nefndina, ef hann fengi yfirlýsingu frá mjer um það, að þingviljinn væri sá, að festa gengið. Jeg hefi engan myndugleika til þess. Og jeg er ekki við því búinn að greiða atkvæði um það, hvort það á að stýfa krónuna eða ekki, og jeg held, að enginn ráðherranna sje í rauninni viðbúinn að greiða ákveðið atkvæði um það.

í brtt. stendur, að nefndin eigi að festa gengi krónunnar og stuðla að varlegri hækkun. Þetta er hið sama og í lögunum stendur, nema hjer er talað um varlega hækkun. Þetta hefir fjhn. fallist á, eins og tekið er fram í nál. Það verður að fara gætilega í þetta mál. Stórar sveiflur upp eða niður eru stórhættulegar.

Með þessu er svarað því, sem komið hefir fram í ræðum ýmsra hv. þdm. Aðaláherslan er lögð á það, að málið sje rækilega athugað og undirbúið fyrir næsta þing, og hjer er um það stórmál að ræða, að ólíklegt er, að þingmönnum blæði í augum, þótt verja þurfi nokkrum hundruðum króna til þess. Það mun enginn sjá eftir því.