06.05.1925
Neðri deild: 73. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2746 í B-deild Alþingistíðinda. (1788)

116. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Frsm. (Klemens Jónsson):

Það er aðeins stutt aths. til hv. þm. Borgf. (PO) Hann hjelt því fram, að þessir kjörnu menn, sem eiga að verða eftir frv., mundu ekki geta gert meira en hinir, sem komið hefðu til gengisnefndar „af götunni“. Hvorirtveggja bæru fram gögn sín og rök, og það væri væning til nefndarinnar, að halda því fram, að hún vildi ekki taka til greina gögn eða rök aðvífandi manna. Hverjir það hafi verið, sem komið hafa til nefndarinnar, veit jeg ekki; líklegast hafa það verið einhverjir útgerðarmenn. sem þar hafa komið í sjálfs sín erindum og með eigin hagsmuni fyrir augum, og það er ekki nema eðlilegt, þótt gengisnefnd tæki ekki nema lítið tillit til þessara manna. Jeg skal ekkert lasta þá fyrir það, þótt þeir leituðu til nefndarinnar, því það er eðlilegt, að hver hugsi um sig. En þótt nefndin þurfi ekki að taka tillit til þessara manna, sem aðeins eru fulltrúar sjálfra sín, þá er alt annað mál með kosna fulltrúa samkvæmt lögum frá Alþingi. Þegar þeir koma fram í nefndinni með mál, sem þeir hafa kynt sjer frá öllum hliðum, hlýtur nefndin að taka fult tillit til þeirra raka og gagna. Er það síst ofmælt að ætla, að nefndin taki meira tillit til slíkra kosinna manna, sem koma þar til að stuðla að almenningsheill, en einstakra manna, sem koma þar aðeins sjálfra sín vegna eingöngu vegna stundarhags.