20.02.1925
Neðri deild: 12. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2749 í B-deild Alþingistíðinda. (1799)

50. mál, tollalög

Flm. (Björn Líndal):

Jeg get naumast hugsað mjer, að nokkrum hv. þm. verði það undrunarefni, að frv. þetta er fram komið. Miklu fremur hefði það mátt vekja furðu manna, ef ekkert slíkt frv. hefði verið lagt fyrir þetta þing. Síðustu kosningar sýndu það greinilega, að miklum meiri hluta þjóðarinnar er alt annað en geðfeld stefna sú, sem tekin hefir verið hin síðustu og verstu árin, að leiða á ný einkasölu eða einokun inn í þetta land. Og það er heldur engin furða. Þessi þjóð hefir þá sögu að segja af margvíslegri einkasölu á liðnum öldum, að engin von er til þess, að hún vilji halda aftur inn á þær brautir, án þess að hugsa sig tvisvar um áður. Á síðasta þingi var og borið fram frv. um að afnema tóbakseinkasöluna; en sá galli þótti á því frv., að í því var ríkissjóði ekki sjeð fyrir neinum tekjum í stað þess tekjumissis, sem samþykt frv. hlaut að hafa í för með sjer. Þess vegna þótti athugavert að samþykkja það frv. þá. Fjárhagsástæður ríkissjóðs leyfðu ekki, að bann væri sviftur einum eyri af tekjum sínum án þess að full uppbót kæmi fyrir. Kusu menn því heldur að halda örþrifaráðstöfunum, eins og tóbakseinkasalan er, í gildi ennþá um stund, en að rýra tekjur ríkissjóðs á þeim tíma, þegar engu mátti sleppa og fyrsta skylda þingsins var að reyna að klóra í bakkann og bjarga ríkinu frá fjárhagslegri glötun. Þá gat naumast talist hættulaust að hrófla við einum einasta tekjulið, á hversu óheppilegum grundvelli, sem hann annars var bygður. Nú eru tímarnir breyttir til batnaðar, sem betur fer. Ríkissjóði hefir verið aflað nýrra tekjustofna, sem sýnt er, að nægja munu til þess að hann fái rjett úr mestu kreppunni, ef haldið verður nægilega lengi eftir þeirri braut, sem gengið var inn á í fyrra. Auk þess er fjármálastjórn landsins nú komin í hendur manna, sem að mínu viti er trúandi til að fara vel og gætilega að ráði sínu, og er það út af fyrir sig ekkert smáatriði. Er því minni hætta á ferðum nú en áður var, þó að einhver tekjuliður lækki lítilsháttar. En eftir þessu frv. er ekki gert ráð fyrir því, að ríkissjóður missi nokkurs af tekjum sínum, þó að tóbakseinkasalan verði afnumin. Í frv. er gert ráð fyrir, að hækkaðir tollar vegi á móti verslunarhagnaði þeim, sem ríkissjóður nú er talinn hafi af tóbakseinkasölunni, og ríkissjóði er hjer sjeð fyrir talsvert hærri tekjum af tóbakstollinum einum saman en gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. hæstv. stjórnar fyrir árið 1926 af tóbakstolli, að viðbættum verslunarhagnaði einkasölunnar.

Þegar lögin um tóbakseinkasölu ríkissjóðs, nr. 40 1921, voru sett, má greinilega sjá það, bæði á greinargerðinni fyrir frv., nál. fjhn. og eins kemur það fram í ummælum flestra þm., sem um málið töluðu, að þá vakti aðeins fyrir mönnum hin fjárhagslega hlið málsins, að afla ríkissjóði tekna á þennan hátt, ef mögulegt væri. M. ö. o., menn litu svo á, að þetta væri örþrifaráð, sem þó yrði að grípa til, þegar þm. varð loksins nokkurn veginn ljóst, sem því miður var of seint, að fjárhagur ríkissjóðs var að komast í hið mesta öngþveiti og að ófært var með öllu að halda áfram sömu braut. Þegar í slíkt óefni er komið, er afsakanlegra, þó gripið sje til örþrifaráðstafana, og það jafnvel að ver yfirveguðu máli en annars myndi vera. Menn hugsa fyrst og fremst um að afla fjárins, síður um hitt, hversu heppileg aðferðin kunni að vera.

Auk þess var viðskiftalíf landsmanna orðið sjúkt og hugsunarhátturinn í viðskiftamálum spiltur á þessum tímum. Hinar snöggu verðbreytingar og sveiflur stríðsáranna ollu því, að mönnum varð erfiðara að standast ýmsar freistingar á sviði viðskiftanna. Þeir, sem við verslun og viðskifti fengust, voru ekki allir þeim vanda vaxnir að forðast slíkar freistingar. svo sem ætlast hefði mátt til af vel þroskaðri verslunarstjett. En það var ekki aðeins verslunarstjettin, sem hafði orðið fyrir áhrifum stríðsáranna. Þjóðin var öll orðin spilt á sama hátt. Menn voru alment orðnir meiri og verri kaupmenn en áður hafði verið. Ýmsir menn virtust hagnast mjög vel á þessum árum, og óx mörgum sá gróði mjög í augum, einkum þeim, er illu heilli hefir tekist að innræta þann húsgangshugsunarhátt, að sjá altaf ofsjónum yfir fjárhagslegri velgengni meðbræðra sinna. Reyndar hefir reynslan síðar leitt það í ljós, að þessi margumtalaði gróði hefir verið meira í orði en á borði.

Það er alls ekki að undra, þó að alt þetta los hafi gefið einokunarstefnunni byr undir báða vængi, einkum þegar þess er gætt, að auk þessa var illum anda pólitískrar valdagræðgi blásið undir vængina. Enda óx stefnu þessari mjög fiskur um hrygg á þessum árum, og er þá skiljanlegra og afsakanlegra, þó að hún hefði einnig áhrif á marga, sem í hjarta sínu voru og eru enn allri einokun andvígir. Þeir voru tilleiðanlegri til að halda inn á þessa braut, þegar til allra ráða þurfti að grípa til að afla ríkissjóði tekna. Þeim hefir fundist rjett að reyna þessa leið, ekki síður en aðrar. Þeim hefir verið viðreisn fjárhagsins fyrir öllu. Stofnun tóbakseinkasölunnar var í þeirra augum hreint og beint fjárhagsmál, en annað ekki. Og þar sem einkasalan var stofnuð á þessum grundvelli, þá hefir okkur flm. þessa frv. þótt rjettast að leggja aðaláhersluna á fjárhagshlið málsins í greinargerðinni fyrir frv. Hvernig hefir þessi grundvöllur reynst?

Á fjárhagshlið þessa máls verður að líta frá tveim sjónarmiðum. Annarsvegar er tekjuþörf ríkissjóðs, en hinsvegar ber og á það að líta, hvert útsöluverð tóbaksins er, vegna þeirra. sem þess neyta.

Æskilegast væri, að ríkissjóður gæti haft sem mestar tekjur af tóbakinu, án þess þó, að það yrði neytendum óhæfilega dýrt. En í þessu efni sem öðrum er mjótt mundangshófið.

Í greinargerð frv., sem jeg geri ráð fyrir að allir háttv. þm. hafi kynt sjer, höfum við gert grein fyrir því, að haldist meðalinnflutningur þriggja síðustu ára áfram óbreyttur, þá gefur tóbakstollurinn, eins og hann verður samkv. frv., ríkissjóði nokkru minni tekjur en meðaltal teknanna af tolli og einkasölu hefir verið, en þó nokkru meiri en áætlað er í fjárlagafrv. því, sem nú liggur fyrir þinginu. Hæstv. stjórn ætti að geta gert sig ánægða með þær tekjur af þessari vörutegund, sem hún sjálf gerir ráð fyrir að fá með því fyrirkomulagi, sem nú er. Hún áætlar tekjur þessar 630 þús. kr., en sje gert ráð fyrir sama innflutningi og verið hefir að meðaltali síðustu 3 árin, verða tolltekjur samkv. frv. okkar um 650 þús. kr. En sje gert ráð fyrir því, sem telja má alveg ábyggilegt, að innflutningur tóbaks aukist um ca. 12% frá meðaltali þriggja síðustu ára, ef einkasalan verður afnumin, aukist frá meðaltalinu upp í það, sem hann var síðastliðið ár, þá verða tolltekjurnar nálega hinar sömu, og þó dálítið hærri, en meðaltekjur af tóbaki hafa verið þessi 3 ár. Einnig höfum við sýnt, hvernig fara myndi, ef innflutningur síðasta árs er eingöngu lagður til grundvallar, en hann er 20—30% minni en meðalinnflutningur árin 1914—1921. Þarf innflutningur þá að aukast um ca. 10% frá því, er var síðasta ár, til þess að tekjur ríkissjóðs verði hinar sömu samkvæmt frv. og þær voru árið sem leið. Hættan á því, að ríkissjóður missi nokkrar tekjur, þó að frv. verði samþykt, er því hverfandi lítil, og miklu minni en líkurnar fyrir því, að tekjurnar verði meiri, ef frv. verður samþykt.

Jeg skal geta þess, að við höfum ef til vill hallað lítilsháttar rjettu máli í greinargerð frv. óviljandi. Við teljum gengiságóða og verðhækkun á birgðum sakir 25% tollhækkunarinnar nema 90—100 þús. kr. síðastliðið ár, og er það rjett. En þess var þá ekki gætt, að síðastl. ár hafði einkasalan greitt útsvar fleiri ára, samkvæmt dómi, nálægt 70 þús. kr. Má því telja hinn raunverulega hagnað síðasta ár nokkru meiri en við höfum talið, en ef útsvarinu er jafnað á öll árin, verða tekjur tveggja fyrstu áranna minni en talið hefir verið og meðaltekjur allra áranna þær sömu.

Jeg tel gott, ef varasjóður tóbakseinkasölunnar vegur á móti tapi á skuldum og verðfalli á birgðum, en því miður hefi jeg sterkar ástæður til þess að búast við, að mikið vanti á, að varasjóðurinn hrökkvi til þessa. Í greinargerð frv. þykjumst við hafa fært sönnur fyrir því, að tóbakið verði neytendum ódýrara, ef breytt verður til. Sje jeg ekki ástæðu til þess að fara fleirum orðum um þessa hlið málsins að sinni.

Þá vil jeg minnast örlítið á 2. gr. frv. Einkasölunni hefir oft verið talið það til gildis, að óhægara sje um tollsvik, vegna þess að hún láti líma merki sitt á smásöluumbúðir allra tóbakstegunda, sem hún lætur úti.

Í 2. og 3. gr. er gert ráð fyrir hliðstæðum ráðstöfunum að því er tollgreiðslu snertir. Er þar ætlast til, að límdur verði miði á umbúðir alls tóbaks, sem tollur er greiddur af, með áletruninni „Tollur greiddur“. Jeg skal játa, að okkur er ekki fyllilega ljóst, hversu mikið þessi ráðstöfun muni kosta, en það getur varla orðið meira en svo, að aðferð þessi borgi sig. í 3. gr. höfum við gengið svo langt að leggja til, að þeir tóbakssalar verði sektaðir, sem hafa með höndum tóbaksvörur, sem ekki eru merktar þessu tollgreiðslumerki, jafnvel þó að þeir geti sannað, að þeir hafi greitt tollinn. Það kann að vera álitamál, hvort hjer sje ekki fulllangt gengið, en við höfum tekið þetta ákvæði upp í frv. hv. þm. til athugunar. Annars skal jeg taka það fram, að einstök atriði þessara tveggja greina eru í okkar augum engin aðalatriði þessa máls.

Að því er snertir 4. og 5. gr. frv., má vel vera, að sumum kunni í fljótu bragði að þykja einkennilegar þær till. okkar, að tollhækkunin og afnám einkasölunnar skuli ekki koma samtímis til framkvæmda. En jeg hygg þó, að hv. þm. muni fallast á þessa tilhögun, enda höfum við gert þessar till. að vel yfirveguðu máli. Tollhækkunin á að ganga í gildi 1. júlí næstk., og hefir einkasalan því tímann fyrir sjer að birgja sig upp fyrir þann tíma, ekki síst þar sem hún mun hafa 6 mán. gjaldfrest á því, sem hún kaupir. En fari þó svo, að hún kaupi eitthvað inn eftir þennan tíma til 1. sept., þá verður hún að greiða hærri tollinn af því, sama toll og aðrir innflytjendur verða að greiða eftir 1. sept. Það má óhætt gera ráð fyrir því, að einkasalan eigi einhverjar birgðir 1. sept. næstk., þegar innflutningur tóbaks verður gefinn frjáls samkv. frv., birgðir, sem hún verður að losna við í frjálsri samkepni við aðra tóbakssala, og mun því mega gera ráð fyrir, að hún verði starfrækt eitthvað fram yfir næstu áramót. En helst ætti henni þá að vera lokið að fullu. En lítil hætta ætti að vera á því, að hún komi birgðum þessum ekki út í frjálsri samkepni, jafnvel þó að af einhverjum hluta þeirra hafi verið greiddur hinn hækkaði tollur, einkum ef það er rjett, sem sumir vilja halda fram, að einkasalan geti gert betri innkaup en allur almenningur, sem við verslun fæst. Ætti aðstaða hennar þá að vera svo góð, að ekki gæti til mála komið, að ríkissjóður líði baga við það, að hún starfi síðustu mánuðina í frjálsri samkepni við aðra tóbaksinnflytjendur.

Sje jeg svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um sjálft frv. að sinni. Hjer hafa verið færð mjög sterk rök fyrir því, þótt litið sje eingöngu á fjárhagshlið málsins, að þetta fyrirkomulag, frjáls verslun, verði hagfeldara bæði fyrir ríkið og neytendur.

Jeg tel mig hingað til hafa talað fyrir munn allra meðflutningsmanna minna um leið og jeg hefi talað fyrir mig sjálfan. En nú mun jeg bæta hjer við nokkrum orðum, sem eingöngu standa fyrir minn eiginn reikning. Jeg tel mig hafa tvær höfuðástæður aðrar en fjárhagsástæðuna til þess að fylgja þessu máli fast fram. Og jafnvel þótt auðsætt væri, að ríkissjóður tapaði einhverju við breytinguna, mundi jeg, þrátt fyrir það, fylgja þessu frv. með jafnmiklum áhuga.

Fyrri ástæðan er sú, að það er mín skoðun, að ekki eigi aðeins að vera takmörk fyrir því, hversu langt ríkið seilist niður í vasa landsmanna eftir fje, heldur líka, á hvaða hátt það gerir það. En þá tel jeg of langt gengið, þegar ein vörutegund er svo mjög lögð í einelti, að jafnvel 1/9 hluti allra tekna ríkisins er tekinn af henni einni, jafnvel þó telja megi hana óþarfa. Hjer stendur líka svo sjerstaklega á um þennan óþarfa, að hann er einkum notaður af bestu og gagnlegustu mönnum þjóðfjelagsins, eldri mönnunum, þeim, sem fyrir öðrum þurfa að sjá. Þannig er um mest munn- og neftóbak, að það er einkum notað af bændum og sjómönnum. Og jeg get ekki sjeð eftir því, þó að þessir menn geti veitt sjer þá ánægju, sem þeir hafa af tóbakinu, án þess að ganga of nærri fjárhag sínum. Og jeg tel þá of langt gengið, er ríkið fer að okra á ástríðum þeirra manna, sem hafa vanið sig á slíkt. Þá get jeg ekki sjeð ofsjónum yfir gróða kaupmanna af því að versla með þessa vöru, eins og sumir gera. Sá hagnaður, sem þeir kunna af því að hafa, er ekki eytt fje. Það gengur aðeins úr einum vasa yfir í annan, sem er ekkert aðalatriði. Nú eru mörg og sterk kaupfjelög víða um alt land, og jeg býst ekki við því, að hagur þeirra af þessari verslun verði heldur eytt fje, og sjálfir kaupfjelagsmennirnir ættu síst að sjá ofsjónum yfir þeim hagnaði, sem talinn er að renna í þeirra eiginn vasa.

Þetta var fyrri aðalástæða mín fyrir flutningi þessa máls. Hin ástæðan er sú, að þetta er mjer principmál. Jeg er svo eindreginn og heitur fylgismaður frjálsrar verslunar, að öll einkasala er mjer mjög á móti skapi. Söguþekking mín, þótt lítil sje, hefir sannfært mig um það, að hjer er um hættubraut að ræða. Skaðsemd hennar fyrir þetta land að fornu fari ætti að vera ærin viðvörun fyrir okkur Af þeirri reynslu ættum við að hafa lært það, að það, sem altaf hefir illa reynst, muni enn illa reynast. Hinir sjerstöku staðhættir lands vors og lyndiseinkunn þjóðar vorrar heimta frelsi og sjálfræði. Þannig hefir ætíð verið frá því forfeður vorir fluttu hingað fyrst, og svo mun jafnan reynast. Hjer hefir enn verið skamt farið inn á einkasölubrautina, en þó er full ástæða til þess að vara löggjafarvaldið við áður lengra er farið. Þegar náð hefir verið tökum á litlafingrinun, verður í tíma að gæta þess, að ekki sje tekin höndin öll. Þó að ilt sje að festa litlafingurinn, þá er miklu verra að festa alla hendina. Jeg vil koma í veg fyrir það í tíma, og sje ekki betra ráð en að leggja þessa einkasölu niður.

Til er gömul saga um strák, sem var að sjóða hangikjöt. Heyrir hann þá að sagt er á eldhússtrompinum: Má jeg detta? Strákur var nógu kærulaus til að svara: Hví ætli þú megir ekki detta! Komu þá fætur niður um strompinn. Aftur var spurt: Má jeg detta? Gaf strákur sama svar, og þannig gekk þangað til draugurinn var allur kominn ofan um strompinn. Við höfum ekki gætt okkar nógu vel við einokunardraugnum, en jeg vil koma í veg fyrir það, að hann detti allur ofan yfir okkur. Jeg vil segja í tíma: Þú mátt ekki detta!

Að síðustu óska jeg þess, að málinu verði vísað til fjárhagsnefndar að lokinni umræðu.