24.03.1925
Neðri deild: 41. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í B-deild Alþingistíðinda. (18)

1. mál, fjárlög 1926

Jakob Möller:

Það er eins og það mælist einhvernveginn einna verst fyrir að vera mildur í orðum við hæstv. stjórn. Og það, sem mest bar á í ræðu hæstv. atvrh. (MG), var kvörtunin yfir því, hvað andstæðingarnir færu mjúkum höndum um hana. Út í frá hefi jeg einnig orðið hins sama var, og menn hafa kveðið sterkt að orði um það, hvað andstæðingarnir væru vægir í sókn sinni gegn stjórninni. Satt að segja veit jeg ekki, af hverju þetta er svo illa sjeð. En helst dettur manni í hug, að þessu sje eins varið og í fjelagsskap Hróa Hattar, en þar þótti ósæmilegt að skjóta á sitjandi fugla. Og segja mætti um hæstv. stjórn það sama, sem förukonurnar sögðu Hallgerði á Hlíðarenda um athafnir Bergþóru, að hún hefði „stritast við að sitja.“ Meina jeg það ekki svo mjög í þinglegri merkingu, heldur verklegri. Því að það leynir sjer ekki, að helsta stefnumál stjórnarinnar hefir verið það, að gera sem minst. En þegar svo er, þá er þess ekki að vænta, að gerðar verði mjög svæsnar árásir á aðgerðir stjórnarinnar, heldur verður það aðgerðaleysi hennar, sem fyrst og fremst verður fundið að. Enda hafa umræðurnar sýnt fram á þetta.

Undanfarna daga hefir einmitt eitt mál verið rætt, þar sem mjög hefir verið sett út á aðgerðaleysi hæstv. stjórnar. Og sök hennar þar hygg jeg líka, að sje sú þyngsta, sem fundin verði. Hinsvegar er það líka eftirtektarvert, að þar sem borið hefir verið lof á hæstv. stjórn, þá hefir það undantekningarlítið verið „negativt“. Jeg hefi t. d. ekki heyrt henni hrósað fyrir annað meira en það, hve varlega hún hafi áætlað í fjárlagafrv. fyrir 1926. — Hún hefir m. ö. o. verið lofuð hástöfum fyrir það snjallræði, að áætla einn tekjuliðinn helmingi minni en hann getur orðið minstur. Yfirleitt má þá segja, að þó lítið verði fundið að gerðum hæstv. stjórnar, þá sje ennþá minna hægt að finna henni til lofs.

En það, sem kom mjer til þess að fara að tala nú, voru nokkur ummæli, sem hrutu af vörum hæstv. atvrh. (MG) og sem hæstv. fjrh. (JÞ) tók upp eftir honum. Það var í sambandi við Krossanesmálið, sem hann sagði, að þeir, sem legðust á móti till. hv. þm. Dala. (BJ), þeir væru um leið á móti því, að lögleg rannsókn færi fram í málinu. Jeg hygg, að hæstv. ráðherra (MG) hafi raunar ekki sagt þetta vegna þess, að hann viti ekki sjálfur, hvers vegna jeg og aðrir greiddu atkv. móti þeirri till. Hún var að mínum dómi einhver sú fráleitasta, sem orðið gat, að efni til, ekki síst að því leyti, sem hún benti stjórninni á þá hæpnu leið, að hún ætti ekki að eiga frumkvæði að því, að hafist væri handa í málum sem þessum, þannig, að þó að upp komi mál og á allra vitorði sje, að glæpsamlegt atferli hafi átt sjer stað og fjárdráttur af svívirðilegasta tægi hafi verið framinn, þá eigi stjórnin ekki að láta neina rannsókn fram fara, nema því aðeins, að kæra berist henni. Orðalag till. er líka svo einstaklega álappalegt og alt öðruvísi en vænta mátti af hv. flm. (BJ). í till. er þess vænst, að hafin sje rannsókn, ef þess verður æskt. Það er ekki auðvelt að sjá, hvað háttv. þm. (BJ) meinar með þessu. Verður varla annað fundið út úr því en það, að sakamálsrannsókn í málum skuli ekki hafin, nema kæra komi frá þeim, er skaða hafa beðið við hið glæpsamlega atferli. Það var þetta, sem andstæðingar till. gátu ekki felt sig við. Og nú vil jeg segja það, að ef slík stefna festi hjer rætur, þá væri orðin hrappalleg afturför í rjettarfari þessa lands frá því, er það þó stóð lægst. Sagan hermir það, að um aldamótin 1600 var hjer danskur höfuðsmaður, sem hvorki þurfti ósk nje kæru frá neinum hlutaðeigendum til þess að sækja til sekta og fá dæmdan sökudólg, er brotið hafði lögin og haft ójöfnuð í frammi. Þetta var, eins og jeg tók fram, danskur embættismaður, en hann taldi sjer þó skylt að eiga frumkvæði að því að hefjast handa. Nú á hjer að innleiða þá venju að láta alla slíka sökudólga óáreitta, nema því aðeins, að kæra komi fram. Það er sannarlega athugavert þetta vaxandi virðingarleysi fyrir lögum og rjetti í landinu, og stefnir síst til bóta í því efni framkoma stjórnarinnar í jafnalvarlegu máli eins og Krossanesmálinu. Nei, stjórnin leggur áreiðanlega ekki hart að sjer til þess að tryggja og efla rjettarverndina í landinu. Hún skýtur sjer undan rannsókn í Krossanesmálinu undir því yfirskyni, að till. um hana væri sama og rannsókn á hæstv. stjórn — þvert ofan í yfirlýsingar þeirra manna, er æsktu rannsóknarinnar. Hæstv. stjórn hefir gert þá grein fyrir þessu máli, að vafasamt væri, hvort rannsaka ætti það frekar, og þess vegna telur hún vissast að láta það niður falla! Það er vel skiljanlegt, hversu mikla athygli þetta mál hefir vakið um land alt. Almannarómur er sá, að hjer hafi lögbrot átt sjer stað, sem sje þess eðlis, að ósæmilegt sje að láta það óátalið. Því sama er haldið fram af helmingi þm. í þessari hv. deild. í till. kom ekkert fram nema það, að þingið fengi að rannsaka, hvort ástæða væri til að aðhafast eitthvað frekar í málinu. Hvort hæstv. stjórn slyppi ómeidd af því, hlaut auðvitað að fara eftir málavöxtum. Hafi hún hreinar hendur, var sannarlega engin ástæða fyrir hana að óttast. Æðsti vörður laga og rjettar í landinu er vitanlega hæstv. dómsmálaráðherra (JM). Jeg öfunda hann ekki af þeim dómi, sem þjóðin fellir að maklegleikum yfir stjórn hans, ef hún ætlar að stuðla að því, að sú regla komist á, að stjórnin eigi aldrei að grípa í taumana, hversu mikið sem við liggur, nema kæra komi um það frá einstaklingum. Engum blöðum er um það að fletta að í þessu máli hafi hæstv. stjórn unnið sjer mest til óhelgi. Það er ekki þar með sagt, að hún hafi ekki í mörgum öðrum tilfellum vanrækt að hafa skylt eftirlit með því, að lögum landsins væri fylgt sem skyldi. T. d. hefir í dag orðið upplýst um enn eitt atriði í sambandi við Krossanesmálið. Á jeg þar við tekjuskattinn, sem verksmiðjunni hefir verið gert að greiða. Vantar mikið á, að lögunum hafi verið fylgt í því efni svo sem vera ber. Það hefir sem sje komist upp, að skatturinn hefir ekki verið lagður á samkvæmt tekjuframtali verksmiðjunnar sjálfrar, heldur eftir mati skattanefndarinnar í hreppnum, og væri ekkert við það að athuga, ef ekki væri það upplýst, að verksmiðjan hefir fastan samning um það, hve mikið hún eigi að greiða til hreppsins, og er ekki ólíklegt, að það hafi áhrif á skattanefndina. En slíkt er þvert ofan í lög og á ekki að líðast, og er bein skylda hæstv. stjórnar að sjá um, að slíkt eigi sjer ekki stað.

En eins og margtekið hefir verið fram, þá hefir hæstv. stjórn lagt alt sitt ofurkapp á að kæfa þetta mál. En sannast að segja hefir hún unnið lítið á við það. Frá því að sitja við yfirlýst traust og hlutleysi ákveðins meiri hluta þessarar háttv. deildar, þá er nú svo komið, að hún situr við það minsta traust, sem nokkur stjórn getur látið sjer nægja, sem sje helming atkvæða í hv. deild, að meðtöldum atkvæðum sjálfra ráðherranna. Bendir þetta óneitanlega á, að hæstv. stjórn hafi viljað öllu fórna til að fá mál þetta kæft. Og þá þýðir heldur ekki að leyna því, að það gefur ekki aðeins hv. þm., heldur öllum landslýð í skyn, að hæstv. stjórn viti sig berskjaldaða fyrir rannsókn í málinu.

En það versta, sem hægt er að vinna nokkurri þjóð, og það gæfulausasta verk, sem framið verður af nokkurri stjórn, er það, að stuðla að niðurdrepi virðingar manna og trausts á lögum og rjetti. Hvert sinn, sem einhverjum er látið haldast uppi nokkuð það, sem fer í bága við lög og rjett, þá er öllum öðrum um íeið gefið undir fótinn með það, að virða lög landsins og rjettarfar að vettugi. Og það er skylda hins háa Alþingis að benda hæstv. stjórn á þetta, þegar hún sjer það ekki að öðrum kosti.

Jeg tel alt annað, sem hæstv. stjórn hefir verið fundið til foráttu, smáræði hjá þessu, sem jeg nú hefi nefnt. Og jeg tel það varla þess vert, að þeim aðfinslum sje hreyft, þegar nýbúið er að útkljá stórmál sem þetta á þann veg, sem gert hefir verið. Það ber líka engan árangur hvort sem er, þó að verið sje að elta uppi ýmislegt, sem aflaga hefir farið hjá hæstv. stjórn. Hún skellir áreiðanlega skolleyrum við því öllu saman.

Jeg skal heldur ekki tala um mörg slík mál. En á eitt þeirra hefir þó verið minst lítilfjörlega hjer í deildinni, og það er framkvæmd innflutningshaftanna síðastl. ár. Um það hefir verið deilt, hve áhrifamikil afskifti stjórnarinnar hafi verið í því máli, og niðurstaðan orðið sú, að hæstv. stjórn hafi togast á við sjálfa sig um framkvæmd laganna. Hefi jeg litla trú á því, að hæstv. atvrh. hafi lagt þau lóð í metaskálamar, að jafnvægi hafi haldist.

Jeg hefi heyrt því haldið fram, að framkvæmd laganna hafi orðið á þann hátt, að einum hafi verið leyfður innflutningur, þótt öðrum hafi verið synjað innflutningsleyfis á sömu vörum á sama tíma. Út af fyrir sig er það ekki einkennilegt, þótt einhver verði á hakanum, en hitt er skringilegt, að það kemur fyrir í mörgum tilfellum um sama hlut, að einum er neitað, en öðrum leyft að flytja hann inn. Jeg skal nefna eitt dæmi. Kaupmaður nokkur sækir um leyfi til þess að flytja inn bíl, en honum var synjað um leyfi. Bíl þennan ætlaði hann að flytja inn fyrir ákveðinn mann, og sá maður fer nú til stjórnarráðsins og biður um leyfi og fær það undir eins. Þetta er ljóst dæmi þess, hvernig framkvæmd laganna hefir verið í höndum hæstv. stjórnar. Af umsókn kaupmannsins varð þó ekki annað sjeð en að um væri að ræða venjulega fólksflutningabifreið, ætlaða til þess að bæta samgöngurnar fyrir almenning, en þeirri umsókn þar neitað. En síðan var veitt leyfi til þess að flytja inn „luxus“-bifreið handa einum einstökum manni. Þarna þverbrýtur stjórnin hina einu rjettmætu hugsun, sem liggur á bak við höftin, sem sje þá að hefta innflutning á óþarfavarningi.

Það hefir mikið verið talað um sparnaðarstefnu og hæstv. stjórn þykist fylgja henni og flokkur hennar þykist hafa einkarjett á henni og sparnaði í landinu yfirleitt. Jeg veit nú ekki, hvað þessi stefna ristir djúpt í hugarfari hæstv. stjórnar, en skal þó nefna eitt dæmi, er sannar hið gagnstæða. Á síðasta ári átti stjórnin að ráðstafa vínverslun landsins. Hún fjekk tilboð frá manni um að taka að sjer forstöðu verslunarinnar fyrir 14–15 þús. kr. á ári. Stjórnin hafnaði því tilboði, en veitti forstöðuna öðrum með 20 þús. kr. lágmarkslaunum. Hæstv. stjórn vildi ekki spara þá.

Jeg sagði þegar, að jeg ætlaði ekki að elta ólar lengi við smáhnútur. Þó get jeg ekki látið eitt atriði óumtalað. Jeg hef í heyrt sagt, og hygg það satt vera, að stjórnin hafi gefið einstökum mönnum loforð um virkjunarleyfi á vatnsföllum. Fossamálið hefir nú verið til umræðu hjer í þinginu í nokkur ár, og virðist það yfirleitt vilji þingsins, að sjerleyfi verði ekki veitt, nema samþykki þingsins komi til. Það er því næsta merkilegt, að stjórnin skuli milli þinga, og meðan málið er ekki útkljáð, gefa fyrirheit um slík virkjunarleyfi. Stappar það nærri því, að þetta sje gerræði gagnvart þinginu.

Jeg býst nú við því, að hæstv. stjórn þyki ekki veigamikið það, sem jeg hefi sagt, en ef hún vildi láta sjer það að kenningu verða og laga framkvæmdir sínar eftir því, þætti mjer vel farið. Þessar umræður hjer eru auðvitað ekki til þess að koma stjórninni á kaldan klaka, heldur til þess, að þingmenn láti hana vita, hvað þeim finst aðfinsluvert í fari hennar.

Það er svo um margt, sem hjer hefir borið á góma, að um það má síðar tala í sambandi við önnur mál. Skal jeg því ekki fara lengra út í þetta að sinni.