20.02.1925
Neðri deild: 12. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2771 í B-deild Alþingistíðinda. (1803)

50. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg geri ráð fyrir, að viðeigandi þyki, að jeg lýsi með fám orðum áliti mínu á þessu frv. hvað snertir tekjur ríkissjóðs. Verð jeg fyrst að segja það, að að einu leyti hafa lögin um einkasölu á tóbaki brugðist vonum manna gagnvart ríkissjóði. á þann hátt, að innflutningur á tóbaki hefir minkað, og það hefir í för með sjer minkun á tollinum, sem vegur að nokkru leyti upp verslunarhagnað ríkissjóðs af þessu fyrirtæki. Sje litið á meðalinnflutning á þessum þrem árum, sem einkasalan hefir staðið, mun það láta nærri, að minkunin á tolltekjunum, samanborið við meðalinnflutning á árabilinu þar á undan, frá 1914, mundi nema með núverandi tolli, 5 kr. á kg., nokkuð yfir 200 þús. kr. Taki maður 2 síðustu árin, sem mun sanngjarnara að sumu leyti, af því að innflutningur 1922 var sjerstaklega lítill, þá nemur minkunin þó talsverðum tekjum móts við tímabilið fyrir 1922, eða um 175 þús. kr. á ári. Þegar þessi rýrnun á tolltekjum er borin saman við hinn raunverulega fjárhagslega árangur af ríkiseinkasölunni, er hefir gefið ríkissjóði tekjur samtals 650 þús. kr. í 3 ár, þá kemur í raun og veru í ljós, að breytingin hefir ekki orðið sú tekjulind ríkissjóðs, sem menn gerðu sjer vonir um. Enda er hægt að sjá þetta með því að athuga áætlanir þær um tolltekjur af tóbaki, sem gerðar voru á sama tíma og lögleidd var ríkiseinkasalan.

Nú er það í mínum augum sjálfgefið að ef gera á breytingu á þessu sviði, má hún ekki verða á þann hátt, að ríkissjóður — eftir því, sem fyrirsjáanlegt er — missi tekjur móti því, sem hann hefir nú af þessari vörutegund. Dálítið er deilt um það, hvað rjett sje að leggja til grundvallar, þegar reikna skal út, hvað mikið eigi að hækka tollinn. Flestir líta svo á, að óhætt muni að reikna nokkurn tekjuauka af auknum innflutningi, sem afnámið hafi í för með sjer. Andmælendur hafa aðallega haldið fram, að eingöngu beri að líta á tekjurnar af einkasölunni 1924. Jeg held, að tekjurnar 1924 hafi, á þessu sviði sem öðrum, orðið nokkru rífari en menn geta búist við í meðalári. Því er ekki að leyna, að álagning á tóbakið hefir verið meiri 1924 heldur en áður, og líklega dálítið meiri en ætlast var til. Stafar þetta af því, að verð vörunnar lækkaði í íslenskum krónum vegna gengishækkunar, en verðið, sem síðast var ákveðið kringum 1. apríl, var sett með hliðsjón af tollhækkun, sem gekk í gildi þá, og þáverandi innkaupsverði. En einmitt á þeim tíma stóð ísl. krónan nálægt lágmarki. Verðið var látið standa til ársloka. Þetta var verslunarbúhnykkur, sem maður verður að telja fullleyfilegt að nota ríkissjóði til tekna, en hefði ekki mælst vel fyrir hjá kaupmönnum, enda efast jeg um, að þeir hefðu leyft sjer að nota sjer hann. Jeg held, að menn megi ekki byggja vonir sínar á framtíð fyrirtækis þessa á reynslu síðasta árs. Hitt mun sönnu nær að segja, að þá sje vel stýrt, ef meðalinnflutningur, sem var þessi 3 ár. gefir með hækkuðum tolli tekjur á við þær, sem tollurinn og einkasalan gaf þessi 3 ár. Mjer finst síður en svo hallað á einkasöluna með þessum útreikningi. Hún hafði miklu meira til að versla með en inn var flutt á sama tíma; hefir haft einhvern ágóða af birgðum þeim, er hún tók við, þótt minni hafi verið en af því, er hún sjálf flutti.

Í þessu frv. er ekki farið fram á tollhækkun, sem gefi ríkissjóði sömu tekjur af meðalinnflutningi þessara 3 ára eins og hann hefir haft með núverandi tollhæð og þeim raunverulegu tekjum verslunarinnar. Til þess vantar kringum 65 þús. kr., þ. e. til þess að tekjurnar komi án nokkurrar aukningar á innflutningi. Til þess að sami innflutningur gefi sömu tekjur og fengist hafa þessi 3 árin, þyrfti tóbakstollurinn að hækka um 2 kr. á kg., í stað þess að frv. hækkar hann um 1 kr., en tollhækkunin á vindlum og vindlingum er hæfileg. Vonirnar um það, að þetta verði eins hagkvæmt fyrir ríkissjóðinn, byggjast á því, að eins og innflutningur virðist hafa minkað varanlega við einkasöluna, eins muni hann aukast varanlega við afnám hennar. Læt jeg það liggja milli hluta; en hitt verð jeg að segja, að mjer hefði þótt hag ríkissjóðs vel borgið, ef trygðar væru honum sömu tekjur og verið hefir af sama innflutningi. Eins og tekið er fram í greinargerðinni, þarf innflutningur tóbaks að aukast aftur um hjer um bil 12%, til þess að ríkissjóður verði sannanlega skaðlaus af breytingunni, en hann virðist hafa minkað um 28% við lögleiðingu einkasölunnar, ef reiknað er frá meðaltali áranna 1914—1921 og til áranna 1923 og 1924. Hverja af þessum tölum, sem menn vilja taka, er svo lítið sem milli ber, að sem fjárhagsatriði fyrir ríkissjóð getur það naumast talist mikilvægt, svo framarlega, að ekki verði rýrðar till., sem hjer liggja fyrir.

Jeg get því alls ekki fallist á ályktanir hv. andmælenda, að hjer sje að ræða um 200 þús. kr. tekjumissi. En jeg þykist vita það með vissu, að það ár, sem breytingin kemst á, fær ríkissjóður álitlegan tekjuauka vegna hennar. Tel jeg ekki nokkurn vafa á, að birgðirnar í landinu muni aukast mjög mikið við það, að verslunin fer úr eins fyrirtækis höndum og á margar hendur, eins og þær minkuðu stórkostlega við að safnast á eina hönd.

Get jeg látið staðar numið um þetta, en jeg vildi minnast örfáum orðum á önnur atriði. Nú upp á síðkastið hafa nokkrir menn snúið sjer til mín og spurst fyrir um tóbaksiðnað, hvort samrýmanlegt væri löggjöfinni að búa til vindla og vindlinga hjer á landi. Hjer var tóbaksiðnaður fyrir nokkrum árum, en hann leið undir lok vegna óhagstæðrar tolllöggjafar. Ýmsir hyggja á að taka til þessa iðnaðar aftur. Hefir þetta verið borið undir tóbakssöluna, og hefir hún tjáð mjer það álit sitt, að ekki megi leyfa tóbaksiðnaðinn nema landsverslunin tæki við framleiðslunni til sölu. Munu hlutaðeigendur sennilega ekki telja það aðgengilega kosti fyrir sig. Hinsvegar er enginn vafi á því, að hverjum manni er heimilt, eins og nú er, með lögmæltum skilmálum, að taka upp vindlagerð, og jeg get ekki annað sjeð en að framleiðendur hafi rjett til að selja þá sjálfir. Löggjöfin í þessu efni er ekki miðuð við núverandi ástand, og geta orðið ýms vandkvæði á, ef einhverjir gengju fast eftir rjetti sínum til að setja á stofn tóbaksiðnað. Aftur á móti hefir einkasalan talið sig fúsa til að setja á fót slíkan iðnað. Slíkt á sjer stað í öðrum löndum, þar sem er tóbaks-„monopol“.

Svo vildi jeg minnast á annað atriði. sem kom fram í umr., verðið á tóbakinu. Þar kemur hver staðhæfing á móti annari; sumir segja, að það hækki, en aðrir, að það lækki. Það er upplýst, að 1924 mun álagningin á tóbakinu upp og ofan hafa verið um 4 kr. á kg. hjá einkasölunni. En þetta er, eins og þegar er búið að taka fram, eflaust nokkru meira en gera má ráð fyrir að staðaldri, sem stafar af því, að innkaupsverðið lækkaði, en útsöluverðið var látið haldast til ársloka. Þó álagningin sje ekki nema sú minsta, sem lög leyfa, 25%, þá verður það eftir núverandi innkaupsverði alt að 3 kr. á kg. upp og ofan.

Hv. flm. þessa frv. fara fram á, að í stað álagningar einkasölunnar komi tollhækkun, er nemi 1 kr. á kg. Er mjer óskiljanlegt annað en að tóbakið verði ódýrara eftir þeirri tilhögun. Meira að segja álít jeg tollinn óþarflega lágan eftir þeirra till.; jeg álít ekki beina ástæðu til að haga breytingum þannig, að verð þessarar vöru lækki af breytingunni. Hefði verið forsvaranlegt að hækka tollinn um 2 kr. á kg.

Um tímatakmörk þau, sem frv. setur, verð jeg að áskilja mjer samninga við nefndina; jeg er ekki viss um, að jeg geti fallist á þau. Virðist eðlilegast og krókaminst, að hvorttveggja sje látið ganga í gildi um áramót, tollhækkunin og afnám einkasölunnar.