20.02.1925
Neðri deild: 12. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2775 í B-deild Alþingistíðinda. (1804)

50. mál, tollalög

Flm. (Björn Líndal):

Jeg vildi sjerstaklega snúa máli mínu til hv. 2. þm. Rang. (KlJ). Hann kvað það geta munað mörgum þúsundum króna á gróða landsverslunarinnar, hvaða tölur væru lagðar til grundvallar fyrir þeim útreikningi. Þetta er auðvitað alveg jafnrjett og það, að munað getur nokkrum miljónum á hag ríkissjóðs, á pappírnum, hvort lagðar eru til grnndvallar rjettar tölur eða rangar. Að telja varasjóðinn gróða, eða til eigna, er ekki rjett, þar sem vitanlegt er, að talsvert hlýtur að tapast af skuldum viðskiftamanna og við birgðarýrnun. Tel jeg engar líkur til þess, að varasjóðurinn hrökkvi fyrir þessu tapi. hvað þá heldur meira. Hingað til hefi jeg ekki átt kost á að sjá bækur einkasölunnar, en af þeim skuldalista, sem jeg hefi í höndum, er auðsætt, að þar tapast meira en nemur varasjóði. Mun þetta sannast á sínum tíma. Jeg hygg að það verði mun erfiðara fyrir hv. 2. þm. Rang. (KlJ) að sanna, að vantaldir sjeu í greinargerð okkar flm. fyrir þessu frv. fleiri tugir þús. kr. Slíkt er hægt að segja, en ekki sanna, því að það er ósatt. Þá telur þessi hv. þm. rangt að leggja til grundvallar meðaltal tekna öll þrjú árin, og vill láta miða væntanlegan hagnað við tekjur síðasta árs eingöngu. Auðvitað er þetta ekki rjett. — eða treystir hv. þm. sjer til þess að ábyrgjast ríkissjóði jafnmiklar tekjur af þessari einkasölu framvegis og þær eru taldar að hafa verið síðastl. ár? En þótt tekjur þessa árs sjeu eingöngu lagðar til grundvallar fyrir útreikningnum, þá höfum við sýnt það og sannað í greinargerð okkar fyrir frv., að innflutningurinn þarf aðeins að aukast örlítið, miðað við síðastl. ár, til þess að tekjurnar verði framvegis jafnmiklar. Og þetta verða þær ríkinu algerlega að áhœttulausu, í stað þess að verslunarvafstri ríkisins fylgir altaf margskonar stór áhætta.

Þá taldi háttv. þm. hart að gengið að ráðast nú á einkasöluna, einmitt þegar hún væri komin yfir barnasjúkdómana. Þar er jeg ekki á sama máli. Sú kvensnift, sem einkasala heitir eða einokun, er sannarlega saklausust á barnsaldrinum. Henni er áreiðanlega hættara við öðrum sjúkdómum en barnasjúkdómum. Þess vegna má hún ekki komast af æskuskeiði.

Þá taldi háttv. 2. þm. Rang. (KIJ) það umfangsmikið og kostnaðarsamt að merkja tóbakið eins og gert er ráð fyrir í frv. Auðvitað hefir þetta nokkra fyrirhöfn í för með sjer, en kostnaðurinn fyrir ríkissjóð ætti ekki að þurfa að vera mikill, ef rjett er á haldið. Ekki getur komið til mála, að opna þurfi hvern einasta pakka til að tollstimpla tóbakið. Það ætti að vera sæmileg trygging að opna eitthvað af hverri sendingu. Annars er einkennilegt, hve þýðingarmikla sumir menn telja þá merkingu, sem nú er á tóbaki. Jeg veit ekki betur en að þessi merking fari fram utanlands og sje gerð af þeim tóbaksverksmiðjum eða stórkaupmönnum, er selja landsversluninni tóbakið. Nú vil jeg sjerstaklega spyrja þá menn, sem altaf eru að dylgja um óheiðarleik ísl. kaupmanna og gruna þá um allskonar svik og pretti, hvaða tryggingu þeir hafi fyrir því, að útlendir kaupmenn sjeu þeim mun heiðarlegri og ráðvandari, að þeim megi fyllilega treysta til þess að merkja landsverslunarmerki aðeins þær vörur, sem seldar eru landsversluninni. Annars er þessi merking tóbaksins samkv. frv. ekkert aðalatriði í mínum augum.

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) fullyrti í ræðu sinni, að tóbakseinkasalan hafi gengið fyllilega eins vel og búist var við í upphafi. Jeg ætla ekki að deila við hann um þetta. En það ætti þó að mega fullyrða að rekstur tóbakseinkasölunnar hefir orðið talsvert dýrari en háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) gerði ráð fyrir á þinginu 1921. Hann gerir þar ráð fyrir því, að vinnukostnaðurinn verði um 10 þús. kr., en hann hefir orðið yfir 100 þús. kr. á ári, enda er starfsmönnum þar ríkulega launað, eins og kunnugt er. — Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) fullyrti, að ríkissjóður mundi tapa 200 þús. kr. árlega við breytinguna, en rök færir hann auðvitað engin fyrir þessu, frekar en hv. 2. þm. Rang. (KlJ), enda er það ekki hægt, ef byggja á framtíðaráætlun á því einu, sem vit er í að byggja á, og það er reynsla undanfarinna ára. En það er orðið svo venjulegt, að þessi háttv. þm. fari með staðlausa stafi hjer í þingsalnum, að það væri að misbjóða bæði þinginu og þjóðinni að eltast við að hrekja alt slíkt. Fáránleg er sú kenning þessa hv. þm., að það muni fremur freista til tollsvika, ef tekjur ríkissjóðs af tóbakinu eru eingöngu teknar undir tollsnafni, í stað þess að taka þær bæði undir tollsnafni og verslunarhagnaðar, eins og nú er gert. Þessi nafngreining hefir auðvitað enga þýðingu í þessu efni. Það, sem hjer hefir mesta þýðingu, er verð tóbaksins innanlands. Ef það er óhæfilega hátt, samanborið við innkaupsverð, freistast menn til tollsvika. Þess vegna m. a. verður að gjalda varhuga við að tolla nokkra vöru úr öllu hófi fram.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) hefir rjettilega bent á það, að allmikið fje er nú bundið í landsversluninni, sem mundi losna og verða handbært til ýmsra nauðsynlegra hluta, ef einkasalan yrði lögð niður. Eins og kunnugt er, hefir orðið að hætta að mestu leyti öllum verklegum framkvæmdum ríkisins síðastl. fjárkreppuár, sakir fjárhagsvandræða, jafnvel sjúkrahúsbyggingum, sem lífsnauðsyn er að koma upp sem allra fyrst. Verð jeg að telja það hreinasta glapræði að binda fje ríkissjóðs í vafasömu verslunarbraski, í stað þess að verja því til þess að bæta úr brýnustu þörfum þjóðarinnar.

Satt er það, að meiri hagur hefir orðið á tóbakseinkasölunni síðastl. ár en jeg gerði mjer vonir um í fyrra. En jeg er þó jafnsannfærður um það nú eins og þá, að rjett sje og sjálfsagt að leggja hana niður. Ríkið hefir nógar miklu greiðari og áhættuminni leiðir til þess að afla sjer tekna. Ýmsa háttv. þm. er naumast hægt að skilja á annan veg en þann, að þeir telji allan verslunarhagnað kaupmanna illa fenginn. Um það ætla jeg ekki að deila við þessa háttv. þm. En undarlegt má það heita, ef ríkinu sæmir betur að græða fje á verslun en einstökum mönnum. Jeg tel heiðarlega kaupmenn miklu betur komna að sínum verslunarhagnaði en þá menn suma hverja að launum sínum, sem nú eru aldir við kjötkatla einkasölunnar. Kaupfjelagsmenn ættu þó ekki að sjá ofsjónum yfir því, þótt kaupfjelögin græði á tóbaksverslun, og jeg sje ekki ofsjónum yfir nokkurs manns hagnaði. sem fenginn er á heiðarlegan hátt.