20.02.1925
Neðri deild: 12. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2779 í B-deild Alþingistíðinda. (1805)

50. mál, tollalög

Árni Jónsson:

Jeg ætla aðeins að nota tækifærið til þess að segja fáein orð áður en þessari umræðu lýkur. Jeg hefi að vísu ekki búið mig undir að koma með skáldlegar líkingar eða þjóðsögur til viðhafnar ræðu minni, og mun hún því stinga allmjög í stúf við sumar ræður þær, sem haldnar hafa verið í þessu máli

Jeg þykist sjá það á undirtektum háttv. þm., að frv. þetta fer ekki baráttulaust gegnum þessa háttv. deild, og þó er það ekki stjfrv. Sje jeg þó ekki, að hægt sje að telja þetta mál stefnumál, að því er allan þorra deildarmanna áhrærir. Jeg tel þetta mál ekki vera stefnumál annara en þeirra, sem annaðhvort telja einkasölufyrirkomulagið heillavænlegt eða til ófarnaðar þjóðfjelaginu, og undrar mig því ekki, þótt þeir leiði saman hesta sína í þessu tilefni, háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) og háttv. þm. Ak. (BL), sem eru málsvarar tveggja andstæðra stefna í þessu máli. Að öðru leyti hygg jeg að mestur þorri hv. deildarmanna muni fremur vera hlutlaus um þessar stefnur. Jeg veit vel til þess, að samvinnumenn t. d. hafa ekki þjóðnýtingu á sinni stefnuskrá. Fyrir mjer er einkasala á tóbaki ekkert stefnumál. Jeg sje ekki í hendi mjer neitt samband milli þjóðnýtingar og þess, að ríkið afli sjer tekna með einkasölu á einstaka vörutegundum, enda tíðkast það víða erlendis, að ríki, sem eru andvíg þjóðnýtingu, hafi einkasölu á sumum hlutum. Mjer er þetta mál því ekkert stefnumál.

Á þessu máli eru tvær hliðar sem þurfa nákvæmrar athugunar við áður en tekin er afstaða til þess; jeg fyrir mitt leyti athugaði þær vel áður en jeg tók afstöðu til þess. — Að öllu öðru jöfnu álít jeg, að frjáls verslun eigi að ganga fyrir einkasölu, ef jafngóður verður við það hagur ríkissjóðsins og gjaldþegna ríkisins. Það verða því að liggja sjerstakar ástæður til þess, ef ríkið fer að versla og grípa þannig inn í starfssvið borgaranna. Þær tvær hliðar þessa máls, sem jeg á við, eru þessar: 1) hvort tapar eða græðir ríkissjóður á þessu og 2) verður hagur borgaranna jafngóður og áður, betri eða verri? Og jeg tel ekki fundna góða úrlausn þessa máls. nema báðum aðiljum sje jafnvel borgið.

Jeg skal á þessu stigi málsins ekki þrátta um tóbaksverðið. Í greinargerð frv. sjest að litlu munar við þessa breytingu. Jeg held því þó fram að það muni rjett vera, sem þar er sagt um álagningu kaupmanna, og held því, að almenningur fái með þessu móti ódýrara tóbak, eða sem svarar kr. 1,40 á hvert kg. Þetta verða því um 100 þús. kr. í vasa almennings, án þess að ríkissjóður missi nokkurs í eða sje íþyngt með þessu, og jeg get vel unt gömlu tóbaksmönnunum ódýrara tóbaks Þá er hitt atriðið, sem vert er ítarlegrar athugunar af væntanlegri nefnd. Það er enginn vafi á því, að salan mun aukast, og er þetta þó engin röksemd með þessu frv., því að það væri hægðarleikur ríkiseinkasölunni að auka söluna, með því að leyfa smásölunum að leggja meira á vörurnar, en við það mundi tóbaksverðið auðvitað hækka. Þetta er sjálfgefið athugunarefni fyrir nefnd þá, sem þetta mál fær til meðferðar, að vega vel allar ástæður í þessu máli, er nefndin hefir fengið öll gögn þess í sínar hendur. Það verður því ekki raunverulega hægt að taka fulla afstöðu til þessa máls fyrir þá sem ekki hafa þetta mál að stefnumáli. fyr en það kemur aftur úr nefnd, en jeg get ekki annað sjeð en að þeir hljóti að greiða þessu frv. atkv. til nefndar.