20.02.1925
Neðri deild: 12. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2784 í B-deild Alþingistíðinda. (1808)

50. mál, tollalög

Jón Baldvinsson:

Jeg geri ekki mikið úr því, þó að sagt sje, að innflutningur á tóbaki hafi minkað við einkasöluna. Það er ekki sem ábyggilegast að byggja þá útreikninga á tímabilinu 1914—’21, stríðstímabilinu. Jeg hefi átt kost á að sjá skýrslur um þetta, og er af þeim augljóst, að innflutningurinn hefir verið svo mismunandi, að það er alveg ófært að byggja á því. Það er t. d. ekki vit í því að miða við veltiár sum á því tímabili, t. d. 1916; þá varð innflutningur ca. 100 þús. kg.; 1917 ca. 75 þús. kg.; 1918 ca. 36 þús. kg., en 1919 var eins og stífla væri tekin úr á, og tóbakið, eins og alt annað, flæddi inn í landið, og mun innflutningurinn þá hafa orðið ca. 126 þús. kg.; innflutningur vindla og vindlinga komst þá í 42 þús. kg., og sjest nú, hversu nákvæmt væri að byggja útreikninga sína á þessu. Innflutningur á vindlum og sjerstaklega vindlingum hefir aukist mikið hin síðari árin, sem stafar af því, að nær hver unglingur nú reykir vindlinga.

Það hefir verið talsvert rætt um princip í sambandi við þetta mál, og álít jeg ekkert athugavert, þó að það sje gert. Því hefir verið haldið fram, að tóbakseinkasalan sje sjerstaklega í anda jafnaðarstefnunnar; en þetta er misskilningur. Jafnaðarmenn leggja mesta áherslu á, að einkasala sje á nauðsynjum, til þess að bæta verslunina, lækka verðið og tryggja kaupendum betri vörur. Tóbakseinkasalan hjer, eins og annarsstaðar, þar sem slíku hefir verið komið á, er ekki stefnumál neins sjerstaks flokks, en hefir aðeins verið álitið hentugt fyrirkomulag til að afla tekna í ríkissjóð. Og jafnaðarmenn telja þetta fyrirkomulag heppilegra til að útvega tekjur en tollaleiðina. Þess vegna má það standa. sem hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) sagði, að með einkasölu þessari væri ekki farið inn á neina ríkisrekstrarbraut.

Háttv. flm. (BL) var að finna að því, sem jeg sagði um merkin, og misskildi það alt. Jeg sagði ekki, að opna þyrfti hvern vindlingapakka, eins og hv. flm. sagði, að jeg hefði sagt. Heldur voru það mín orð, að líma þyrfti merki á hvern pakka, og það væri líka mikið verk, því að vindlingapakkarnir koma oft í mjög stórum búntum, oft alt að 50 þús. pakkar í hverju.

Háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) mintist á vexti af fje því, sem hjá landsversluninni stæði. En þeir munu reiknaðir þar, sem talað er um innieign hjá landsverslun í landsreikningnum 1923.

Jeg geri ekki ráð fyrir, að það hafi mikinn árangur að tala lengi um þetta mál nú, því að flestir munu fyrirfram ráðnir, hvernig þeir greiða atkvæði í því. En jeg teldi rjettast að láta það ekki fara lengra, því án efa verða miklar umræður um það, þegar það kemur aftur frá nefndinni. Umræður, sem ekki verða til annars en að auka kostnað og eyða tíma þingsins að óþörfu. Við þetta mætti losna, með því að fella frv. nú þegar.

Annars óska jeg nafnakalls við atkvæða greiðsluna.