21.02.1925
Neðri deild: 13. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2796 í B-deild Alþingistíðinda. (1812)

50. mál, tollalög

Ágúst Flygenring:

Jeg fæ ekki skilið, að nokkur geti haldið því fram í fullri alvöru. að frjáls verslun með tóbak verði einokuninni lakari í því efni, að tóbakið verði verra eða dýrara. Reynslan hefir sýnt annað. Tilgangur frv. er fyrst og fremst sá, að landsmönnum verði sjeð fyrir ódýrara tóbaki. en þó svo, að tekjur ríkissjóðs verði í engu rýrðar. En mjer fyrir mitt leyti blandast ekki hugur um það, hvað tekjum ríkissjóðs viðvíkur, að jeg gæti ekki sett það fyrir mig, þó að þær yrðu svo sem 100 þús. kr. lægri með því verslunarfyrirkomulagi, sem full vissa er fyrir, að þjóðin vill heldur við búa. Og það er víst, að tóbakseinkasalan er illa þokkuð meðal alls þorra þjóðarinnar, eins og öll einokun hlýtur að vera með þjóð vorri, hvort sem verslunin er í sjálfu sjer vel eða illa rekin. Þessi tóbakseinkasala hefir, að mínu viti, verið rekin sæmilega. Menn hefðu aldrei með rjettu getað vænst þess, að árangur hennar yrði betri.

Mjer skilst, að flestir sjeu sammálá um það, að meira yrði selt af tóbaki, ef verslunin yrði gefin frjáls, enda bendir innflutningur síðustu ára óneitanlega í þá átt. En við aukinn innflutning og aukna sölu hækka tolltekjur ríkissjóðs. Auk þess hlýtur tóbakið að verða nokkru ódýrara í útsölu í frjálsri samkepni en nú er, þar sem kostnaður við tóbakseinkasöluna er nálægt 1 kr. á hvert einasta kíló tóbaks. Það er varla við því að búast, að almenningur sje ánægður með það, að landið kosti svo dýra verslun, þegar þess er gætt, að þessi kostnaður verður nálega eða alls enginn eftir að verslunin verður gefin frjáls. Aðrir en þeir, sem hafa fyrir einhverskonar verslun, myndu tæplega byrja á að versla með tóbak eingöngu, a. m. k. engan veginn fleiri en það gera nú. Aukakostnaður vegna tóbaksverslunar yrði því hverfandi lítill.

Það stafar af ókunnugleika hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), að hann heldur því fram, að einkasala geti að jafnaði gert betri innkaup en aðrir, sem við slíka verslun kunna að fást. Tóbakseinkasalan hefir orðið að skifta við sömu erlendu verslun húsin, sem landsmenn höfðu áður skift við árum saman. Almenningur, sem var orðinn vanur ákveðnum tóbakstegundum, vildi ekki skifta á þeim og einhverjum áður óþektum. En það þarf enginn að halda, að þessi verslunarhús geri nokkurn mun á útsöluverði sínu, hvort sem menn kaupa t. d. 200 eða 300 kíló eða 1000— 2000. Jeg hefi sjálfur fengist lítilsháttar við tóbaksverslun um 20 ára skeið og veit, að það er heimska að halda slíkt. Og ef við t. d. tökum firmað Brödrene Braun, sem flestir munu kannast við, þá er nákvæmlega sama, hvort menn snúa sjer til firmans sjálfs um tóbakskaup, eða þeir ganga niður til firmans O. Johnson & Kaaber, sem hefir umboð fyrir Br. Braun hjer á landi, og kaupa tóbakið þar. Verðið er hið sama. Það nær ekki nokkurri átt, að þessi stóru erlendu verslunarhús breyti í nokkru um verðlag sitt, eða þeim reglum, sem þau fara eftir í viðskiftum sínum, þó að einhver komi og vilji kaupa meira eða minna en venjulegt er. Og ennfremur er víst, að engir geta fengið hina svokölluðu „Agentur-provision“, nema umboðsmenn viðkomandi firma. Þarna hefir því hv. þm. (SvÓ) skotið yfir markið.

Þegar menn í sambandi við þetta mál eru að tala um skaðsemi tóbaksins og telja ekki nema gott, að notkun þess minki, þá er því til að svara, að það liggur ekki í verkahring löggjafans að ráða bót á þessu, og a. m. k. er þetta mál óskylt máli því, sem hjer er um að ræða. Annars hefi jeg þá skoðun, að aldrei verið dregið til muna úr tóbaksnotkun með því að einoka verslunina. Mjer dylst ekki, að enda þótt innflutningur tóbaks samkv. verslunar- og tollskýrslum hafi stórum minkað síðan til einkasölunnar var stofnað, þá muni hann í raun og veru vera svipaður því, er áður var. Jeg hygg, að góðar ástæður sjeu til að ætla, að ólöglegur innflutningur verði mun meiri, þegar aðeins eitt fyrirtæki er um verslunina, en ef kaupmenn og kaupfjelög fengju óáreitt að flytja vörutegundina inn eftir vild sinni.

Mjer þykir það leiðinlegt, að hv. 1 þm. S.-M. skuli telja það viðeigandi hjer í þingsalnum að bera okkur, sem fylgjum þessu frv., það á brýn, að hjá okkur vegi meira í máli þessu eiginhagsmunir og hagsmunir nokkurra skjólstæðinga okkar, er hann svo nefnir, en þjóðarheill eða stefna okkar í verslunarmálum. Og eftir þessa uppgötvun óskaði hann, að frv. færi ekki út úr þessari hv. deild. Jeg get fullvissað þennan hv. þm. (SvÓ) um það, að fyrir mjer er mál þetta stefnumál eingöngu. Jeg vil hafa frjálsa verslun á hvaða sviði sem er. Sömuleiðis er jeg þess fullviss, að enda þótt frv. þetta nái ekki fram að ganga nú, þá kemur að því, fyr eða síðar, að þessi tóbakseinkasala verður úr lögum numin. Þjóðin vill enga einokun hafa, og fyrir þeim þjóðarvilja verður þingið að beygja sig, þótt síðar verði.

Mjer þótti vænt um að heyra hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) meðmæltan því, að verslun landsins væri sem allra frjálsust, þó að við eigum ekki samleið í þessu máli, sem hjer er til umr. Það fellur líka saman við mína skoðun, að heppilegra sje að tolla aðeins fáar vörutegundir, eins og hann mintist á, en hafa tollana á þeim þá þeim mun hærri. En sökum tekjuþarfar ríkissjóðs höfum við neyðst til að elta uppi svo að segja hverja einustu vörutegund og tolla hana. Hefir margur víst ljeð slíkri tolllöggjöf samþykki sitt gegn samviskunnar mótmælum, því að það er öllum augljóst, hversu afarerfið slík tollheimta er, og til frambúðar getur það ekki staðist.

Hv. þm. (ÁÁ) vjek að verslunarmálum Englendinga og tolllögum þar í landi. Jeg hygg, að hann hafi ekki farið allskostar rjett með það, að tóbakstollur sje þar mun hærri en hjer. Að því er jeg veit best, munu vera áhöld um toll þennan þar og hann verður hjer samkv. frv. þessu. ef samþykt yrði. Hitt var heldur ekki rjett hjá honum, að í Svíþjóð og Frakklandi hafi verið stofnað til tóbakseinkasölu til þess eingöngu að afla ríkjunum tekna.

Í báðum þessum löndum mun það jafnvel hafa ráðið meiru eða mestu um stofnun einkasölunnar, að hafin yrði í sambandi við hana tóbaksiðnaður og tóbaksrækt í löndunum sjálfum. Enda standa atvinnuvegir þessir mjög föstum fótum í Frakklandi, og reyndar talsvert gert að þessu í Svíþjóð líka. Munu þessar ástæður hafa verið þyngstar á metunum, þegar einkasölufyrirkomulagið var upp tekið í þessum löndum.

Þá má geta þess, að í Svíþjóð er einkasölunni annan veg fyrir komið en hjer. Þar er verslunin rekin af hlutafjelagi, og verslunarstjettinni, jafnt sem öðrum, gefinn kostur á því að eiga sinn hluta í fyrirtækinu með ríkinu. Er þetta ólíkt mildara form en hjer er nú.

Í máli þessu kennir mikils stefnumunar. Við, sem fylgjum þessu frv., hikum ekki við að játa, að fyrir okkur er það stefnumál að leggja ekki verslun með nokkra vörutegund undir rekstur hins opinbera. Við álítum, og höfum sýnt fram á, að hægt er að afla ríkissjóði nauðsynlegra tekna á annan hagkvæmari hátt. Eins og mál þetta liggur nú fyrir, verður tekjumissir ríkissjóðs sáralítill eða enginn, þó að frv. þetta nái fram að ganga. En við það vinst annað, sem er líka nokkurs virði, að allur almenningur í landinu unir mun betur verslunarfyrirkomulaginu eftir en áður.