21.02.1925
Neðri deild: 13. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2801 í B-deild Alþingistíðinda. (1813)

50. mál, tollalög

Magnús Torfason:

Það hefir verið talað mikið um stefnur í sambandi við þetta mál. Jeg fæ ekki sjeð, að nein önnur stefna hafi ráðið um stofnun þeirra tveggja einkasölufyrirtækja, sem dregin hafa verið inn í þessar umr., steinolíueinkasölunnar og tóbakseinkasölunnar, en sú, hvað hagkvæmast mundi ríkissjóði annarsvegar og einstaklingum þjóðfjelagsins hinsvegar. Steinolíueinkasalan var stofnuð einkum með hagsmuni einstaklinganna fyrir augum, en við stofnun tóbakseinkasölunnar var að mestu leyti litið á hagsmuni ríkissjóðs. Þetta ætti öllum hv. þm. að vera ljóst.

Ýmsir hafa látið í veðri vaka, að síðustu kosningar hafi sýnt það ljóslega, að meiri hl. þjóðarinnar vilji tóbakseinkasöluna feiga. Þetta get jeg ekki kannast við á nokkurn hátt. Það er áreiðanlega ekkert hægt að ráða með vissu af kosningunum í þessu efni. Þar kom svo margt til greina, sem hafði sín áhrif á kosningarnar, að þetta atriði hefir vissulega druknað í því öllu saman og þess gætt lítils sem einskis. Það er áreiðanlegt, að vilji menn fá vitneskju um, hvað þjóðin vill í þessu máli, þá verða menn að afla sjer hennar með einhverju móti öðru en almennum kosningum. En ef dæma skal nú um vilja landsmanna alment í þessu máli, þá er jeg heldur á því, að stefna frv. þessa um afnám tóbakseinkasölunnar yrði að láta í minni pokann. Ræð jeg þetta af því, að þinginu hafa borist mýmargar þingmálafundarályktanir um að afnema ekki einkasöluna, og hafa þessar raddir aldrei verið háværari en einmitt nú.

Úr því að verið er að tala hjer um stefnur, þá vil jeg ekki, að framhjá einni stefnu sje gengið, íhaldsstefnunni. Jeg sje ekki betur en að frv. þetta sje beint brot á íhaldsstefnunni, sem sje þeirri stefnu, að halda í það, sem er, og sporna við öllum byltingum í þjóðfjelaginu, nema fullvíst sje, eða a. m. k. yfirgnæfandi líkur fyrir því, að breytt verði um til batnaðar. Og að því er þetta frv. snertir, þá hvílir sönnunarbyrðin á flm. þess, þar á meðal á hv. 1. þm. G.-K. (ÁF), um, að með því verði breytt til batnaðar. Af því, sem enn er fram komið af gögnum í máli þessu, fæ jeg ekki sjeð, að sannað hafi verið, að afnám tóbakseinkasölunnar sje spor fram á við, og eru þó útreikningar allir aðeins annarar handar, þeirrar, sem krefst afnámsins, og er því eftir að vita, hverjum breytingum þeir kunna að taka við nákvæma endurskoðun í nefnd.

En jafnvel þó að þessir útreikningar hv. flm. reyndust nú rjettir í öllum aðalatriðum, þá er ekki þar með sagt, að afnám einkasölunnar fái áorkað því, sem hv. flm. telja henni til rjettlætingar, að tóbak lækki í verði. Jeg ræð þetta sjerstaklega af því, að mjer virðist ekki tekið með í reikninginn eitt atriði, sem hefir þó óneitanlega sína þýðingu, en það er álagning smásalanna eftir að verslunin er gefin frjáls aftur og enginn er til að halda í hemilinn á þeim. Það er öllum kunnugt, að smásölum tóbaks hefir fækkað að mun, síðan einkasalan tók til starfa, vegna þess, að þeim hefir þótt hámarksálagning sú, sem einkasalan leyfir þeim, of lítil; þótt hún gefa of lítinn arð. Hafa þeir því kosið að hætta að versla með tóbak og ekki kært sig um eða talið sjer skylt að sjá viðskiftavinum sínum fyrir þessari vörutegund. Mjer sýnist því vafalítið, að ef ríkissjóður á að fá tekjuauka. eftir að einkasalan verður afnumin, af aukinni tóbaksverslun, þá verður það því aðeins, að smásalarnir fái að leggja á tóbakið eftir eigin geðþótta, og það ekki smálítið. Og enda þótt heildsalarnir kunni að leggja eitthvað minna á vöruna en einkasalan hefir gert, sem þó engan veginn er víst, þá er mjög tvísýnt, að tóbaksverð lækki neytendum í hag.

Ein röksemd, sem í umr. þessum hefir verið haldið talsvert á lofti, afnámi einkasölunnar til framdráttar, finst mjer dálítið athugaverð. Það hefir legið í ummælum ýmsra hv. þm., nú síðast hv. 1. þm. G.-K. (ÁF), og reyndar annara, að þeir telji það eitthvert hnoss, ef hægt verði að auka tóbaksnotkun í landinu. Jeg fyrir mitt leyti veit ekki, hvort þetta er svo mikið keppikefli. Takmörkun tóbaksnotkunar er þó a. m. k. til sparnaðar fyrir landsmenn, og hinsvegar hefir tóbak hingað til fremur verið talið spilla heilsu manna en hitt. Mjer er því nær skapi að líta svo á, að það sjeu góð lög, sem draga úr tóbaksnotkun að einhverju leyti.

Vitaskuld er ekki hægt að bera á móti því, að tekjur ríkissjóðs gætu vaxið eitthvað við afnám einkasölunnar, svo framarlega sem það er rjett, að minna yrði um tóbakssmyglun, ef verslunin verður gefin frjáls. En að mínu viti er það mjög óvíst, hvort sú ráðstöfun dregur nokkuð úr smygluninni. Þrjátíu ára reynsla mín sem lögreglustjóra segir mjer, að smyglun fari yfirleitt ekki eftir neinum öðrum „principum“ en því, hvað gefi mest í aðra hönd. En sje það hinsvegar rjett, sem sumir fylgjendur frv. þessa vilja halda fram, að tóbakssmyglun hafi aukist vegna einkasölunnar, þá verð jeg að segja, að fyrir þeim ósóma á að stemma stigu á annan hátt. Vitanlega verður það einungis gert með aukinni tollgæslu.

Þá vil jeg sjerstaklega leggja áherslu á eitt atriði, sem jeg held, að enginn hafi drepið á. Einkasala á tóbaki á að geta girt fyrir það, að fluttar sjeu inn í landið og hafðar á boðstólum sjerstaklega skaðlegar tóbakstegundir, og er það út af fyrir sig ekki lítils virði.

Það, sem einkum kom mjer til að standa upp, var að jeg vildi vekja athygli háttv. flm. á einu talsvert þýðingarmiklu atriði. Setjum svo, að þeim takist að hamra afnám einkasölunnar í gegnum þingið, — eiga þeir þá víst, að tollhækkunin nái fram að ganga? Þetta er ekki sagt alveg út í hött. Þess er skemst að minnast, að síðasta þingdaginn í fyrra varð sjálfdauða frv., sem fól í sjer talsverðan tekjuauka fyrir ríkissjóð. Það frv. strandaði á því, að það var sett í samband við annað óskylt mál.

Jeg er viss um, að það eru menn með þessu frv., sem ekki á nokkurn hátt vildu hækka tóbakstollinn frá því sem er, enda álíta sumir stuðningsmenn frv. þegar lagt fullfreklega á þessa vörutegund.

Fyrir mitt leyti hefði jeg kosið, að þetta deilumál hefði ekki komið inn í þingið að sinni. Þingið er þannig saman sett, að óvíst er, hvernig málið færi. Sjerstaklega verð jeg að styðja á það, að það, að frv. er flutt nú, virðist benda á, að Íhaldsflokkurinn haldi, að hann sje enn meiri hluti þingsins. En þetta tel jeg ákaflega vafasamt. Og víst er um það, að frv. þetta verður ekki til að styrkja þann meiri hluta.

Jeg held óhætt að segja, að þessi tóbaksverslun hafi farið sæmilega. Á síðasta ári hefir hún gefið vonir um, að betra lag sje að komast á og þess vegna virðist mjer ekki ástæða til að eyðileggja hana nú.

Loks er eitt atriði sem jeg vildi nefna í sambandi við þetta frv., og hæstv. fjrh. (JÞ) gat um. Mjer heyrðist hann lýsa eftir lögum um tóbaksiðnað. Vil jeg skera á hann að koma fram með frv. um það mál, því að ekki er ástæða til að setja það í samband við þetta frv., sem óvíst er að nái fram að ganga á þessu þingi.