21.02.1925
Neðri deild: 13. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2808 í B-deild Alþingistíðinda. (1815)

50. mál, tollalög

Ásgeir Ásgeirsson:

Hæstv. fjrh. (JÞ) byrjaði á því að benda á þá miklu fjarstæðu, — sem hann svo kallaði, — er kom fram í minni síðustu ræðu, sem sje þá fullyrðingu mína, að verslunarstjettin væri hjer að heimta einn tekjustofn ríkissjóðs í sínar hendur. Jeg hefi að vísu ekki sagt það, að verið væri að heimta hann allan; tollurinn er auðvitað ekki heimtaður — heldur verslunarhagnaður ríkisins. Þetta er svo einfalt mál, að engrar þarf skýringar. Má orða þetta á annan veg og segja, að verslunarstjettin ætlist að vísu til, að það, sem áður var verslunarálagning, greiðist í ríkissjóðinn sem hækkaður tollur, en hún sje með þessu að áskilja sjer rjett til að heimta aukinn skatt af landsmönnum, þar sem er væntanleg hækkun vöruverðsins. Má orða það á hvorn veginn sem er, að stjettin taki þetta af landsmönnum eða ríkissjóði, ef frv. nær fram að ganga. Ekki er um fleiri aðilja að ræða í þessu máli. Ef enginn hagnaður væri í aðra hönd, mundi verslunarstjettin ekki koma með þessa ósk.

Hæstv. fjrh. kvað það geta verið mikið álitamál, hvort tekjur ríkissjóðs hefðu ekki skerst við það, að ríkið tók söluna í sína hönd. Jeg geri ráð fyrir, að hæstv. fjrh. hafi verið búinn að rannsaka þetta mál í fyrra, því að þá var það rætt. En þá sagði hann hjer í þinginu, að vegna tekna ríkissjóðs mætti einkasalan ekki missast; þannig var hans dómur þá. Ennfremur hefir hæstv. fjrh. ekki lagt fyrir þingið frv. um afnám einkasölunnar, heldur hefir hann í fjárlagafrv. fyrir 1926 áætlað tekjur af verslunarhagnaði einkasölunnar. Þetta tók jeg í þingbyrjun sem sönnun þess, að hæstv. fjrh. ætlaðist til framhalds á núv. fyrirkomulagi. Vegna þessa ljet jeg svo um mælt, að hæstv. fjrh. hefði gengið nauðugur til þessa leiks; því að hefði hann verið fús, þá hefði hann á þessu sviði gengið í broddi fylkingar, en ekki læðst í humátt á eftir, eins og nú á sjer stað.

Jeg er hæstv. fjrh. fyllilega sammála um það, að íhaldið er nú búið að taka við því, sem fyr á öldum var á stefnuskrá framsóknarmanna. Engin er það undantekning á vorum tímum; framsóknarmenn berjast fyrir nýju og betra fyrirkomulagi. Og meðan fyrirkomnlagið er nýtt, er það gott; en sá tími kemur, að það eldist, og þá tekur íhaldið við og fer að verja það. Saga mannkynsins gengur í öldum; framsóknarmenn sækja fram til nýrra endurbóta, en íhaldið heldur í gallana, sem síðar koma í ljós á breyttum tímum, vegna einstaklingshagsmuna. Við framsóknarmenn stöndum ekki í þeirri meiningu, að við berjumst fyrir fyrirkomulagi, er standi til eilífðar. Við vitum það ósköp vel, að jafnvel það, sem við nú berjumst fyrir, verður úrelt á sínum tíma, og þá tekur íhald þeirra tíma það að sjer.