21.02.1925
Neðri deild: 13. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2816 í B-deild Alþingistíðinda. (1819)

50. mál, tollalög

Ásgeir Ásgeirsson:

Það er svo alkunnugt, að það tjáir ekki að bera á móti því, að frv. þetta á sína rót að rekja til verslunarstjettarinnar. Og þó hún sje ekki til sem persóna — og hv. þm. Dala. (BJ) veit, að það lá ekki í orðum mínum —, þá eru margir hennar fulltrúar, sem jeg vildi óska, að ekki hefðu gert sig svo litla að stynja undan jafnlitlum búsifjum og tóbakseinkasalan er.

Hv. þm. Ak. (BL) bar sig illa og þóttist þola píslarvætti mikið í þessum umr. Það var ekki mín ætlun að vekja honum sár. En það verður að virða til vorkunnar manni, sem slíkt frv. flytur, þó honum finnist illa stinga örvarnar þeirra, er á móti standa. Jeg hefi ekki sagt, að hann flytji það í eiginhagsmunaskyni. En jeg sagði, að frv. væri flutt vegna hagsmuna verslunarstjettarinnar. Vegna þess að hún hefir hag af breytingunni, gerir hún svona harðar kröfur. Það er alls ekki vegna annara stjetta í landinu, sem frv. er fram borið. Það er opinbert og augljóst, að kaupmenn eiga töluverðar tekjur undir úrslitum þessa máls. Aftur veit jeg vel, að hv. þm. Ak. (BL) á hjer lítils eða einskis hagnaðar von. Hann berst fyrir þessu máli af því að hann er „idealisti“. En sá er hængur á, að hjer hefir hann slegið ást sinni á áttræða gamaljómfrú. Það er verslunarstjettin, sem notar þessa gömlu piparmey til þess að ginna háttv. þm. Ak. (BL), og mega allir sjá, hversu hann gín við beitunni, svo girnileg sem hún er. Þessi hv. þm. (BL) vildi telja það ósæmilegt að leggja toll á ástríður manna. Það fer vitanlega eftir því, hvernig það orð er skilið. Hv. þm. (BL) talaði um reykingar og því um líkt sem svívirðilegar ástríður að almannadómi. Jeg skal fúslega játa, að ekki ber að leggja toll á neitt það, sem svívirðilegt er að almannadómi. En tóbaksbrúkun hlýtur að jafnaði ekki þann harða dóm. Hjer er alls ekki um það að ræða að leggja toll á brot á tíu boðorðum guðs. Hjer er aðeins um það að ræða að leggja toll á vöru, sem er óþörf og margir þó nota, en fáir eða engir sjer til skaða. Og hjer eru tollar á svo mörgum líkum vörutegundum, að hjá þessu er ekki hægt að sneiða. Vilji menn klæða sig vel, verða menn að greiða háa tolla. Eins er um tóbakið. Hv. þm. (BL) vildi sýna fram á ósamkvæmni hjá mjer í því, að jeg væri hlyntur kaupfjelögum og ótakmarkaðri samábyrgð, en svo væri jeg á móti ótakmörkuðu frelsi í verslunarmálum. Jeg hefi sýnt það, að jeg er alls óhræddur við smátakmarkanir á verslunarfrelsi, svo sem einkasölu þá, sem hjer er um að ræða. En jeg er líka á móti ótakmarkaðri samábyrgð og skoða hana aðeins sem bráðabirgðaákvæði, og hv. þm. (BL) veit, að í samvinnulögunum eru ákvæði, sem þar voru sett til þess að fjelögin gætu losað sig síðar meir við samábyrgðina, sem bankarnir heimtuðu þar til sjóðir fjelaganna geta komið í staðinn. Jeg er því í meira samræmi við sjálfan mig en hv. þm. Ak. (BL). Úr því að hann er á móti ótakmarkaðri samábyrgð, þá ætti hann að geta látið sjer lynda dálitla takmörkun á verslunarfrelsinu, sem til þess er gert að afla tekna í ríkissjóð. Hjer er ósamræmið hjá honum.

Jeg veit, að ýms ummæli hans síðast voru sprottin af misskilningi, en ekki af beinni illgirni, svo sem þegar hann var að tala um illgjarnar getsakir frá minni hálfu í sambandi við framsókn og íhald, er jeg hefði sagt, að íhaldið tæki að sjer gallana á því skipulagi, sem framsókn hefði fóstrað og barist fyrir, þegar það væri orðið úrelt. Jeg veit, að hjer er um að kenna skilningsleysi hv. þm. (BL), því auðvitað átti jeg við það, að íhaldsflokkarnir tækju við af framsóknarflokkunum að halda fram því fyrirkomulagi, sem þeir skoðuðu nú úrelt. En vitanlega tæki íhaldið bæði kosti og galla hins gamla skipulags, þó svo liti út stundum, er þeir væru að verja það gegn framsókninni, að þeir hefðu tekið sjerstöku ástfóstri við gallana, því annað er það ekki en gallarnir, sem framsóknin berst á móti. Hjer hefir verið talað um 17. og 18. aldar stefnu í þessu einkasölumáli. Hjer kennir enn hins sama misskilnings á þróun sögunnar. Það er vitanlegt, að framsóknin er oft endurvakin fortíð. Og stefna okkar í verslunarmálum nú á 20. öld verður sú að reyna að koma einhvernveginn í veg fyrir þá galla, sem nú er ljóst orðið að fylgja frjálsri samkepni, sem hin 19. öld barðist fyrir. Má vera, að svo langt aftur verði sótt eftir fyrirmyndum í þessu atriði, að líkt verði eftir því fyrirkomulagi, sem hjer tíðkaðist í fornöld og sögur vorar greina frá, er kaupmenn máttu ekki selja varning sinn fyr en goðinn, sem hlut átti að máli, hafði skoðað hann og sagt, hve dýrt mætti selja hann. Líkt átti sjer stað t. d. á Þýskalandi sumstaðar á miðöldum, þar sem borgarstjóri átti að rannsaka vöru kaupmannsins, og varð kaupmaður að staðfesta framburðinn um innkaupsverð vörunnar með eiði. En síðan ákvað borgarstjóri, hve mikil ómakslaun rjett væri að hann legði á vöruna fyrir ómak sitt. — Slík fordæmi geta verið góð, þó gömul sjeu