24.02.1925
Neðri deild: 15. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2822 í B-deild Alþingistíðinda. (1823)

50. mál, tollalög

Sveinn Ólafsson:

Jeg hefi í rauninni ekki mörgu að svara þeim, sem hafa andmælt mjer, enda hefir hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) velt þyngsta hlassinu í því efni. Tel jeg því, að svo komnu máli, ekki ástæðu að bæta mörgu við það, sem hann hefir sagt um frv. þetta. Þó get jeg ekki leitt með öllu hjá mjer að víkja nokkrum orðum að ýmsum ummælum hv. 1. og 2. flm. frv., þeirra hv. þm. Ak. (BL) og hv. 1. þm. G.-K. (ÁF). Hv. þm. Ak. átaldi einkum tvent í ræðu minni, og þó hvorttveggja mjög hógværlega. Jeg þarf ekki að fara langt út í þessa sálma, enda voru það ekki veigamikil atriði, sem hann dró fram, en gjalda vil jeg líku líkt og svara honum beiskjulaust. Hv. þm. (BL) fann að áætlun, sem jeg á að hafa gert á þingi 1921 um rekstrarkostnað tóbakseinkasölunnar. Sagði hann. að jeg hefði áætlað kostnað þennan um 10 þús. kr. á ári. og þótti honum skjóta nokkuð skökku við, þar sem kostnaðurinn hefði í rauninni orðið margföld þessi upphæð. Út af þessu vil jeg benda honum og öðrum hv. þm. á það, að þá var ráðgert. að landsverslunin hefði langtum fleiri vörutegundir með höndum en síðar varð raun á. Auk steinolíueinkasölu, sem menn bjuggust þá við, að stofnuð yrði, og töldu sjálfsagt að hyrfi undir landsverslunina, sem og raun hefir á orðið, þá gerðu menn einnig ráð fyrir, að áfengiseinkasalan yrði starfrækt af þessari sömu stofnun, og ennfremur að jafnvel yrði haldið áfram verslun með ýmsar aðrar vörutegundir. sem landsverslunin hafði þá með höndum. Það er því ofureðlilegt, að þegar menn voru þá að áætla kostnað við tóbakseinkasöluna sjerstaklega, þá yrði sú áætlun talsvert lægri en raun hefir á orðið, þegar verslunin hefir haft svo fáar vörutegundir með höndum. Annars má ekki ganga framhjá hinu atriðinu, að jafnframt því, sem kostnaðaráætlunin hefir gengið úr skorðum, hefir tekjuáætlunin einnig haggast. Tekjurnar af einkasölunni hafa orðið tvöfaldar við það, sem gert var ráð fyrir, bæði af mjer og öðrum, sem um stofnun einkasölunnar fjölluðu. Skiftir þetta atriði að vísu ekki miklu máli, því að það er alkunnugt, að áætlanir um svo mörg önnur efni hafa ekki betur staðist reynsluna, jafnvel þó að sjerfræðingar hafi unnið að þeim.

Í annan stað átaldi hv. þm. (BL) mig fyrir það, að jeg hafi gert honum og hv. meðflm. hans getsakir með því að telja frv. þetta borið fram af eigingjörum hvötum meira en vegna stefnu þeirra í verslunarmálum. Þessi ásökun háttv. þm. (BL) er bygð á dálitlum misskilningi. Í raun og veru sagði jeg aldrei að frv. væri borið fram í eiginhagsmunaskyni, en hitt sagði jeg, að þegar farið væri fram á að leggja niður tóbakseinkasöluna. Þá væri ekki allsendis ósennilegt að saman við stefnu þá i verslunarmálum, sem þar liggur til grundvallar kunni að blandast eiginhagsmunir ýmsra skjólstæðinga hv. flm., eða jafnvel þeirra sjálfra, sumra hverra. Það getur engum dulist, að nærri liggur að ætla, að svo geti verið, og er því þarflaust að kalla það meinlegar getsakir, þótt bent sje á þennan möguleika. Enda gerði hv. þm. (BL) í raun og veru ekki mikið úr þessu atriði. Hann var yfirleitt mjög hógvær í minn garð og þarf jeg þess vegna ekki að fjölyrða frekar um ræðu hans. En í þess stað vil jeg víkja nokkrum orðum að því, sem hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) sagði í þessu sambandi. Hann hljóp undir bagga með mjer, þar sem hann átaldi tóbakseinkasöluna sem vanskapnað af hendi ríkisvaldsins, sem tæki frá verslunarstjettinni það, sem henni bæri, nefnilega ágóðann af tóbakssölunni. Með þessu sló hann því föstu, sem jeg hafði áður aðeins hugboð um, að hagsmunir kaupmanna lægju á bak við flutning frv., a. m. k. að einhverju leyti. Get jeg því verið honum sjerstaklega þakklátur fyrir þessa hreinskilnislegu játningu. Annað mál er það, að jeg er honum ekki sammála um, að líta beri á þetta atriði eins og hann gerir, og vil jeg sjerstaklega neita því, að verslunarstjettinni sje í nokkru misboðið, þó að ríkið taki einkasölu á einstöku vörutegundum í hagsmunaskyni. Jeg álít þvert á móti, að hagsmuni ríkisins beri að setja langtum ofar hagsmunum kaupmanna og að þeir hafi engan rjett til að krefjast þess, að ríkið falli frá þessum verslunarrekstri. Jeg kannast ekki við, að starf verslunarstjettarinnar sje yfirleitt svo þjóðþarft, einkum þar sem þessi stjett er langtum fjölmennari en þörf krefur og harla óþörf og ásælin um að nota sjer kaupfýsn almennings. Jafnframt rænir þessi stjett þjóðfjelagið þeim styrk, sem því að rjettu ber af þeim, sem starfandi mönnum, er stunda ættu einhverja heiðarlegri vinnu en mangarahátt.

Hv. þm. (ÁF) vildi halda því fram, að það væri ekki hlutverk löggjafans að taka frá landsmönnum voða þann, sem þeim kynni að stafa af notkun tóbaks eða annara ólyfjana. Þar ætti hver að sjá um sig. Þessi ummæli hans stöfuðu af því. að jeg hafði haldið því fram að fremur væri þakkarvert en hitt, að einkasalan drægi úr skaða þeim, sem tóbakið veldur mönnum. og að innflutningur þess mætti gjarnan minka eða hverfa alveg úr sögunni. Jeg held nú að ein fyrsta og sjálfsagðasta skylda löggjafarvaldsins sje einmitt sú, að vernda borgara þjóðfjelagsins gegn hættu þeirri, sem þeim stafar af misbrúkun skaðlegra nautnameðala. Mætti í þessu sambandi benda á það, að gerðar hafa verið opinberar ráðstafanir til þess að aftra því að almenningur bíði tjón af nautn ópíums og annara slíkra eiturtegunda. sem víða erlendis eru talsvert notaðar sem nautnameðul, þótt hjer sje það sjaldgæft, sem betur fer.

Þá taldi hv. þm. (ÁF) mig hafa spáð hrakspám fyrir frv. þessu og talið, að það kæmist ekki í gegnum þessa hv. deild. Að vísu spáði jeg engu um afdrif frv., en ljet aðeins í ljós þá ósk mína og von, að það næði ekki samþykki hv. deildar, enda held jeg því fram, að frv. eigi ekki skilið að fá betri meðferð. Jeg skal skýra háttv. þm. frá því, á hverju jeg bygði þessar vonir. Það var fyrst og fremst á því, að mjer þótti það ósennilegt, að háttv. þingdeild vildi fallast á, að rjettur ríkisins til tekna af tóbakinu og rjettur almennings til betri viðskiftakjara ætti að lúta í lægra haldi fyrir hagsmunum nokkurra manna, sem kynnu að bera meira úr býtum, ef þessi lög yrðu feld niður. Jeg bygði ætlun mína í öðru lagi á því, að í þessari hv. deild eru ekki allfáir þeirra manna, sem studdu tóbakseinkasölulögin 1921, og mjer þótti sennilegt, að þeir hefðu ekki skift um skoðun síðan. Í þriðja lagi bygði jeg á því, að sá flokkur, sem jeg telst til, mundi óskiftur verða á móti frv. Og jeg bygði í fjórða lagi þessa tilgátu mína á því, að jeg bjóst alls ekki við og býst ekki enn við því, að hæstv. atvrh. (MG). sem var höfundur þessa frv. og flutti það svo röggsamlega 1921, mundi vilja bregða fæti fyrir einkasöluna nú. Jeg var samverkamaður hans á því þingi og jeg man að samvinna okkar var bróðurleg og einlæg í þessu máli. Trúi jeg ekki fyr en jeg tek á, að hann snúi nú baki við því. (Atvrh. MG: Háttv. þm. skemdi fyrir mjer frv.; það gerði hann!). Fleiri áttu nú þátt í skemdunum þeim, og frsm. minstan.

Þetta voru þá þær fjórar aðalástæður, sem jeg hafði fyrir mjer, þegar jeg óskaði eftir, að frv. ætti ekki lengri leið fyrir höndum.

Jeg hefi nú svarað þessum tveim hv. flm. frv. að nokkru, og þarf jeg ekki neinu sjerstaklega við að bæta, enda voru þeir báðir tiltölulega hógværir í andmælum sínum. Jeg get að vísu bætt við nokkrum orðum alment um þetta mál. En af því að flest af því, sem jeg hefi í huga, hefir verið tekið fram af öðrum, sem talað hafa, vil jeg ekki tefja tímann frekar, og skal því láta hjer staðar numið.