24.02.1925
Neðri deild: 15. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2842 í B-deild Alþingistíðinda. (1826)

50. mál, tollalög

Ágúst Flygenring:

Eitt atriði í ræðu hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) finn jeg sjerstaklega ástæðu til að leiðrjetta. Háttv. þm. (SvÓ) bar okkur flm. þessa frv. þeim getsökum, að eiginhagsmunir sjálfra okkar og skjólstæðinga okkar rjeðu afstöðu okkar til þessa máls. Sjerhverjum slíkum aðdróttunum leyfi jeg mjer, f. h. mína og meðflm. minna, að vísa til föðurhúsanna sem algerlega ástæðulausum og órökstuddum, og getur það síst talist meðmæli með hv. þm. (SvÓ), að hann skuli hafa látið sjer slík orð um munn fara.

Jeg stend við alt, sem jeg hefi sagt í þessu máli, einnig við það, að jeg vil ekki sleppa versluninni úr höndum kaupmanna, sem með lögum hafa öðlast rjett til hennar. Það er heldur ekki svo, að nokkur hagur sje að einkasölunni fyrir landið, því að niðurlagning hennar sparar landinu ca. 100 þús. kr. útgjöld, þau útgjöld, sem nú ganga til þess að launa sjerstaka menn til þess að selja þessa vöru, auk þess sem verslunin mun altaf reynast betur komin í höndum verslunarstjettarinnar sjálfrar. Jafnvel þó að tollurinn hækkaði ekki, tel jeg vafalítið, að tekjurnar af henni frjálsri myndu nema meiru en því svarar, sem tóbakseinkasalan gefur nú af sjer. — Þori jeg óhræddur að bíða reynslunnar í því efni.

Hv. 2. þm. Árn. (JörB) spurði, hverjir það væru, sem smygluðu tóbaki nú á tímum inn í landið. Væntanlega gefst síðar tækifæri til að gefa hv. þm. (JörB) svör við þeirri spurningu, en jeg skal aðeins minna hann á það, að 8 skip ganga að staðaldri milli Íslands og útlanda og fara kringum 100 ferðir á ári, og mun ekki of í lagt, þótt gert sje ráð fyrir 30 farþegum í hverri ferð. Víða er það svo, að auðvelt er að koma smyglun við, enda er lítið eða ekkert tolleftirlit annarsstaðar en í Reykjavík. — Hinsvegar fullyrði jeg að það eru ekki tóbakskaupmennirnir nje stórsalarnir, sem gera sig seka um tollsvik. Jeg þekki marga þeirra persónulega og veit, að þeir eru svo mætir menn og þjóðhollir, að þeir myndu síst gerast til þess að flytja vörur inn í landið undir fölsku merki. — Það er á öðrum stöðum á landinu, sem smyglunin fer fram, en í Reykjavík, þar sem stórsalarnir búa.

Jeg get ekki haft mig til að fara að eyða orðum að þeim stórpólitísku draumum, sem virðast svífa fyrir hugarsjónum sumra hv. þm. um, að ríkið taki alla verslun í sínar hendur. Slíkri heimsku tekur vonandi enginn mark á. Það eru ekkert nema hreinræktaðar bolsivíkakenningar, sem vonandi fá aldrei festu í íslenskum jarðvegi.