24.02.1925
Neðri deild: 15. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2844 í B-deild Alþingistíðinda. (1827)

50. mál, tollalög

Magnús Jónsson:

Fyrsta umræða þessa máls hefir nú staðið nokkuð á þriðja fund, og má búast við, að varla komi fram margt beinlínis nýtt í því. En þó er varla hægt að telja það neitt undarlegt, að umræður verði nokkuð langar, þegar jafngamalt og mikið deilumál er tekið á dagskrá hjer á Alþingi.

Þó að menn greinist nú hjer í tvo flokka á þinginu um aðalniðurstöðu málsins, með eða móti, þá virðast samt ástæður beggja vera nokkuð mismunandi. Kemur þar þrent til greina: Fjárhagsatriði málsins, skoðanir á verslunarfrelsi og það, með hverju móti heppilegast sje, að ríkið afli sjer tekna. Fyrir sumum er hjer um hreint fjárhagsmál að ræða. Þeir hugsa ekki um neitt annað en upphæð þá, sem ríkissjóður fær, en er annars sama um það, með hverju móti hún næst, og loka augunum fyrir öllum öðrum afleiðingum.

Frá þessu sjónarmiði er hjer um hreint reikningsdæmi að ræða, og það er alveg vitanlegt, að þetta er stórt atriði í málinu og verður að athugast vel, ekki síst á tímum eins og þessum, þegar svo mikið af starfi þingsins og umhugsun verður að snúast um það að rjetta við fjárhag landsins. Við, sem flytjum þetta mál, höfum því talið okkur skylt að bera málið fram að nokkru leyti á þessum grundvelli og athuga einmitt fjárhagsatriðið mjög vandlega. Þær staðhæfingar og áætlanir, sem við höfum sett fram, hafa nú af andstæðingum málsins verið vefengdar, og er það ekki nema gott, að beggja málstaður komi fram. Enda þótt hv. 1. flm. (BL) o. fl. hafi nú svarað þessum andmælum, svo að ekki ætti að þurfa frekar vitnanna við, langar mig samt til þess að gera nokkrar athugasemdir frá mínum bæjardyrum.

Hv. andmælendur frv. segja, að ganga eigi út frá afrakstri ársins 1924 einum, en ekki meðaltali þeirra þriggja ára, sem einkasalan hefir starfað. Þetta væri nú alveg einstakt, ef rjett væri, og á móti því, sem ávalt og alstaðar er gert, þegar líkt á stendur. Það er margviðurkent, að einstök ár eru vafasöm; eitt og annað, sem því getur valdið að þau verði sjerstaklega hagstæð eða óhagstæð, en hitt hefir sýnt sig, að þessar ójöfnur jeta hver aðra upp, ef svo mætti segja, þegar til lengdar lætur, og því er það ráð tekið að jafna saman sem flestum árum, þar sem ástæður annars eru þær sömu. Það, sem hjer mælti helst að finna, er það, að árin, sem einkasalan hefir staðið, eru í raun rjettri of fá til þess að verulega sje hægt á þeim að byggja. En við því verður ekki gert.

Nú hittist einmitt svo á, að af þessum 3 árum er eitt sjerstaklega óhagstætt, sem sje fyrsta árið. Að vísu er það hrein fjarstæða, sem bæði hv. 2. þm. Rang. (KlJ) og hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hafa sagt, að kaupmenn hafi viðað að sjer óvenjumiklum birgðum rjett áður en einkasalan komst á, því að þar tala tölurnar móti. En hitt er satt, sem þeir virðast ekki skilja, að birgðir hafa þá verið meiri til í landinu heldur en síðar verður undir einkasölunni, og það stafar af því einu, að verslunin flyst af mörgum höndum á eina. En ekkert bendir á, að birgðirnar 1921 hafi verið vitund meiri en á undanförnum árum. Þetta, að birgðirnar hljóta að rýrna eða færast saman, veldur óvenjulega litlum innflutningi árið 1922, svo að tolltekjurnar rýrna. En aftur á móti hefði verslunarhagnaðurinn átt að geta verið nokkuð nálægt eðlilegu.

En á móti þessu ári, sem af eðlilegum ástæðum verður að telja neðan við meðallag, kemur svo aftur uppgripaár óvenjulegt 1924. Íslenska krónan stígur stórkostlega, svo að innkaupsverð vörunnar lækkar. Árgæska óvenjuleg er í landinu og kaupgetan eykst. Háir tollar á fjölda mörgum öðrum vörum halda verði þeirra uppi, svo að menn eiga frekar að venjast verðhækkun en verðlækkun, og alt þetta kemur því til vegar, að venju meira tóbak er keypt og fyrir geysiverð. Slíka álagningu ofan á tollinn hækkaðan um 25% þarf ekki að ímynda sjer, að verslunin geti leyft sjer í meðalári öðruvísi en að það dragi til verulegrar rýrnunar á umsetningunni, ýmist með því að menn spara tóbakið við sig eða að smyglun eykst í stórum stíl.

Jeg verð því að telja, að mjög sanngjarnt sje að miða verslunina, að minsta kosti verslunarágóðann, við meðaltal þessara 3 ára. Að vilja versluninni í vil byggja aðeins á árinu 1924, er ekkert annað en þetta gamla, að svo mæla börn sem vilja, og ætti það helst ekki að vera regla hjer við meðferð stórmála. Með sama rjetti hefðum við flutningsmenn getað tekið árið 1922 eitt og úthúðað versluninni með þeim forsendum. En það hefði verið óleyfilegt framferði og datt engum í hug.

Þegar gera á upp hag einkasölunnar, er því enginn vafi, að byggja verður á meðaltali áranna, sem hún hefir starfað, og meðaltal teknanna fyrir ríkissjóð er þá af tolli og verslun kr. 723 þús., ef menn hugsa sjer, að 25% gengisviðaukinn á tollinum hefði gilt öll árin. Raunverulega er það 682670 kr. Þetta er alveg ljóst.

En þegar svo á að gera upp væntanlegan ágóða af tolli framvegis, vandast málið auðvitað meira, því að þá kemst maður inn á áætlunarsviðið. En jeg hygg, að við höfum þar farið mjög varlega í sakirnar, svo varlega, að segja má, að við fylgjum þar þeirri heilbrigðu reglu, sem hæstv. fjármálaráðh. hefir oft getið um, að áætla svo, að nálega sje víst, að reikningurinn á sínum tíma sýni meiri tekjur en áætlunin. Við höfum sem sje gengið út frá meðalinnflutningi þessara ára og bætt við hann 12%.

Nú hefir áður verið viðurkent, að eitt af þessum árum, árið 1922, hafi kipt stórlega úr innflutningnum vegna birgðarýrnunar þeirrar, sem af einkasölunni leiddi, og það dregur því meðalinnflutning þessara ára óeðlilega niður. Þetta. virðast allir fallast á. Í öðru lagi sýna árin 1923— 1924, að einkasalan dregur varanlega úr innflutningnum. Sjest þetta og vel af útreikningi þeim í greinargerðinni, sem háttv. 2. þm. Reykv. kallaði „talnarebus“ eða eitthvað slíkt. Þar sjest, að meðaltal tolleininga á mann var, meðan frjáls var verslun, 1,46, en þessi tvö síðari ár, 1,1. Með öðrum orðum, þessi tvö ár sýna, að innflutningur þessara tveggja ára er milli 20 og 30% minni en áður, og það verður að telja varlega í sakirnar farið að áætla, að hann nái aftur helmingi þess, sem hann misti. En jafnvel þótt við af varfærni drögum áætlunina þannig niður með tvennu móti, þá fást þó tolltekjur, sem eru heldur hærri en samanlagðar tolltekjur og verslunarágóði einkasölunnar, eða 729472 krónur móti kr. 723000. En ef við hefðum viljað reikna óvarlega okkar málstað í vil, eins og þeir gera sínum málstað í vil, þá hefðum við tekið meðalinnflutning frjálsu áranna síðustu, og þá gæfi tollurinn fast að miljón. En okkur hefir þótt rjettara að byggja traust heldur en glamra hátt. Þó verður enn að athuga það, að í þessum tölum eru tekjur tóbakseinkasölunnar árið 1924 taldar óskertar, að viðbættum 25% gengisviðauka alt árið, kr. 903 þús. En eins og sýnt hefir verið fram á í greinargerðinni, er þetta í raun og veru ekki rjett. Bæði hv. 2. þm. Rang. og hv. 2. þm. Reykv. hófu hjer andmæli (væntanlega báðir eftir sömu heimild, því að þeir lásu það nálega orðrjett eins upp), og því miður var hv. þm. Ak. áður búinn að viðurkenna þetta, og sýnir það, hve afarsanngjarnlega hann vill flytja þetta mál, að hann hallar rjettu máli andstæðingunum í vil. En honum hefir þar vissulega missýnst, er hann fellst á að láta gengisgróðann 1924 mæta útsvarsgjaldinu.

Svo er þessu máli varið, að eftir að greinargerðin var samin og prentuð, berst reikningur, sem sýnir, að einkasalan hefir orðið á árinu 1924 að borga útsvör þriggja síðustu ára, og þau nema nálega sömu upphæð og gengisgróðinn. En það nær engri átt, að þetta eigi hjer að mætast, þegar einkasalan er borin saman við frjálsa verslun. — Útsvar er líka skattur, sem hið opinbera þarf, þótt ekki sje það sjálfur ríkissjóðurinn, sem það fær, og það er alveg víst, að í frjálsri verslun fljóta af tóbakinu þessi og ekki minni gjöld í bæjar- og sveitarsjóði, auk tekna í ríkissjóð. Það er einmitt alveg nauðsynlegt, ef rjettan samanburð á að fá milli einkasölu og frjálsrar verslunar, að taka þetta með, jafnvel þótt einkasalan væri sjálf útsvarsfrí, því að þá væri missir útsvaranna af tóbaksversluninni einn af þeim tekjuliðum sem við hana hefðu tapast.

Að þessi 3 útsvör koma á eitt árið, 1924, ruglar ekki heldur dæmið um einn eyri þegar verið er að finna meðaltal þessara þriggja ára.

Af þessu leiðir, að tolltekjurnar fara eftir áætlun okkar nokkru meira fram úr ágóða einkasölunnar heldur en áður er talið.

Þá taldi háttv. 2. þm. Rang. okkur hafa dregið undan af tekjum einkasölunnar, þar sem við hefðum slept því, sem árlega hefir verið lagt í varasjóð. En þetta er bláber misskilningur. Þessi litli varasjóður er ekkert annað en nauðsynleg tryggingarráðstöfun, sem beint leiðir af því, að ríkið hjer er að fást við verslun, og má alls ekki skoða hann sem tekjur, heldur er hann fje, sem lagt er til hliðar fyrir væntanlegum óhöppum, sem altaf geta komið. Tóbakseinkasalan er nú mjög áhættulítil verslun, og til þess svarar líka það, að varasjóðurinn er lítill. Verði afgangur af honum, þegar alt verður gert upp, þá er það gott og blessað, en í sjálfu hugtakinu varasjóður liggur það, að hann á ekki og má ekki teljast með tekjum.

Úr því að jeg minnist hjer á varasjóð tóbakseinkasölunnar, dettur mjer það í hug, að jeg hjó eftir því hjá háttv. 3. þm. Reykv., að varasjóður landsverslunar losnaði við þessa ráðstöfun, en hann er talinn h. u. b. 1¾ miljón. Um þetta gátum við ekkert í greinargerð okkar, og jeg hygg ekki, að rjett sje að blanda honum neitt hjer inn í. Bæði er nú það, að hann mun vera tóbakseinkasölunni óviðkomandi, því að hún lifir að því er sagt er á erlendri „krít“ að mestu, og svo er ekki öll nótt úti, þótt tóbakseinkasalan hyrfi, því að eftir er annað fyrirtæki, sem henni er svo langtum áhættumeira, og það er steinolíuverslunin. Það væri óskandi, að ekki færi svo, að hún æti þessar feitu kýr og meira til á vondu árunum. Jeg myndi fyrir mitt leyti líta svo á, að öxin og jörðin geymdu hana best — og sem fyrst. En meðan steinolíueinkasalan er við lýði hygg jeg, að ekki veiti af varasjóði þessum. Og hvernig er svo þessi varasjóður? Hann sýnist að h. u. b. 2/3 hlutum vera í útistandandi skuldum, og býst jeg við, að einu sinni og tvisvar verði að berja á sumar þær dyr, áður en þar verður hver skildingur inn kominn. — Varasjóðir eru því miður svo oft affallasöm eign.

Jeg hygg nú, að jeg hafi gengið frá fjárhagsatriði málsins. Fullyrðingar hv. þm., að ríkissjóður skaðist um 200 þús. kr., eins og háttv. 2. þm. Rang. sagði, eða um allan hagnað verslunarinnar, eins og háttv. 2. þm. Reykv. sagði, eru ekkert annað en vígorð, sem hjaðna eins og bóla, ef á er andað.

Þetta atriði málsins, fjárhagslegu hliðina, hefi jeg rætt ítarlegast, af því að á þeim vettvangi hefir mest verið barist. En víkja má svo að annari ástæðu, sem skipar mönnum með og móti einkasölunni, en það er afstaða manna til frjálsrar verslunar. Þar verður ekki tölum eins vel við komið, og því er þar auðveldara að deila til eilífðar, í stað þess að í fjárhagsatriðinu ættu andstæðingar okkar að vera þeir drengir, að þeir fjellu frá fyrri villu sinni, er þeir sjá málið skýrt lagt fram.

Fyrir mjer persónulega er þetta fríverslunaratriði ekki svo sjerstaklega mikilvægt í sambandi við tóbakseinkasölu, og jeg gæti ekki fallist á að afnema tóbakseinkasöluna, eins og hv. 1. þm. G.-K. (ÁF), ef það sýndi verulegt tap fyrir ríkissjóð. En hitt er rammasta fjarstæða, sem hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) sagði, að hjer sje bókstaflega engin skerðing á frjálsri verslun, en það þyrfti ekki þar fyrir að vera ranglát skerðing. Það er líka til rjettlát og viðurkend skerðing, bæði á þessum atvinnuvegi og öðrum. En til þess að sjá, að hjer er skerðing á frjálsri verslun, þarf ekki annað en að líta á það, að þegar tóbakseinkasalan tekur til starfa, leggjast niður margar verslanir og aðrar skerðast stórlega. Alt voru þetta fullkomlega löglegar verslanir og sala þessara vara er ekki bönnuð, heldur aðeins skert verslunarfrelsið í þessari grein. Þá sagði þessi sami hv. þm., að andstæðingar verslunarfrelsis væru ekki til í hinum stærri flokkum þingsins. Hann mun nú með rjettu telja Framsóknarflokkinn þar með. En hvað sagði sá háttv. 2. þm. Rang.? Hann sagðist ekki vera á því, að landið ætti að svo komnu, að svo komnu (hann tvítók það) að taka að sjer alla verslun landsins. Í sama streng tók háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), og hv. 2. þm. Árn. (JörB) varði síðari hálftíma sinnar ræðu til þess að sýna fram á skaðræði frjálsrar verslunarsamkepni. Það eru einmitt til andstæðingar frjálsrar verslunar í næststærsta flokki þingsins.

Jeg held, að mörgum sje ekki líkt því nógu ljóst, hvað felst í þessu hugtaki frjálsrar verslunar. Það er svo oft eins og menn haldi, að frjáls verslun sje eiginlega einskonar hagsmunamál kaupmanna einna. En þeir, sem það gefa í skyn, fara með stórlega rangt mál. Verslunarfrelsið er einmitt gegnum harða baráttu heimt úr höndum verslunarstjettar, sem sat uppi með allskonar sjerrjettindi. Og enn er það einmitt þessi stjett, og aðrar skyldar stjettir, sem ógna verslunarfrelsinu sumstaðar að eyðileggja það í reyndinni, þótt það gildi á pappírnum, með stórfeldum samtökum. Má vel kannast við hina stóru hringi og samsteypur, sem sölsa undir sig verslun með ákveðnar vörur. Hitt er annað mál að allur fjöldinn af þessar i stjett heldur fram verslunarfrelsi. Verslunarfrelsið var upphaflega sótt til hagsmuni fyrir þjóðirnar, fyrir almenning allan og höfuðhagsmunir þess eru ennþá þar, sem neytendurnir eru. Frjáls samkepni, með öllum hennar stóru og mörgu annmörkum, er enn sem komið er besta lausnin, sem menn hafa fundið á þessu vandamáli, hvernig allur almenningur verði best varinn gegn okri á þeim vörum, sem kaupa þarf. Það er því meira en lítil fjarstæða, að það sje einhver kaupmannapólitík, sem verið sje að reka, þegar barist er gegn einkasölu, eins og mjer virtist koma fram í ræðu háttv. 1. þm. S.- M. (SvÓ). Það er hagsmunamál almennings, sem hjer á landi sem annarsstaðar hefir stunið undir ófrjálsri verslun, sem hjer er um að ræða. Hitt tel jeg aukaatriði, en engan veginn fagurt, að vilja helst hafna þessu hnossi fyrir almennings hönd af ofsjónum yfir því, að nokkrir af borgurum þjóðfjelagsins fá lífvænlega atvinnu við þessa dreifingu varanna til neytenda.

Í þessu sambandi er næstum brosleg söguheimspeki háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) um framsóknarflokka allra alda. Það er satt, þeir sóttu þetta hnoss verslunarfrelsisins í hendur sjerrjettindastjettarinnar og afhentu það þjóðunum, og vel sje þeim fyrir það. En hverjir eru nú arfþegar þessara framsóknarflokka: þeir, sem vilja láta þjóðirnar njóta áfram ávaxtanna af sveita þessara bardagamanna, eða þeir, sem vilja taka hnossið af þeim aftur? Háttv. þm. svarar því hiklaust: Það eru þeir, sem nú berjast á móti hugsjón þeirra! Svo hart á vindhaninn að snúast, að það, sem fyrir skemstu sneri í austur, snúi nú í vestur. Þetta er alveg rjett athugað, ef um vindhana er að ræða, en það er engin fyrirmyndarpólitík, og hefir aldrei þótt það. Og það verða menn að muna, að nöfn ein og álímdir miðar eru heldur lítils virði. Enginn verður spekingur við það eitt að heita Sólon eða Sókrates. Þótt einhver flokkur taki nú upp nafn frelsishetjanna gömlu, þá er það fánýtt, ef sá sami flokkur berst á móti hugsjón þeirra. Það má líma glæsilegan miða á ljelega vöru.

Þegar verslunarfrelsið er þannig rjett skoðað sem hagsmunamál almennings, verður það auðvitað því dýrmætara og nauðsynlegra, sem um meiri nauðsynjavöru er að ræða, og þess vegna get jeg sagt, að þetta atriði sje mjer ekkert stórt atriði um afnám tóbakseinkasölunnar. En það er þó nokkurs virði vegna þess, að þessi vara er nú orðin mörgum nauðsyn, og það engan veginn ætíð þeim, sem ríkastir eru.

Háttv. þm. V.-Ísf. tók tóbakseinkasöluna sænsku til dæmis um það að ekki væri litið á hana sem brot á frjálsri verslun. Jæja. Jeg held nú, að þetta sje nákvæmlega öfugt. Eða hvers vegna var, þegar sænska tóbakseinokunin var sett á 1915, leyfður innflutningur framhjá einkasölunni? Það var yfirlýst, að það væri til þess, að þjóðin færi ekki á mis við kosti frjálsrar verslunar að því er snerti vöruverð og vörugæði. Þessi innflutningur var að vísu vængstýfður með örðugum skilyrðum, en samt væntu menn sjer þessa af honum. Og hvers vegna var tóbakseinkasalan sett á sem hlutafjelag, sem tóbakskaupmenn máttu eiga hluti í ? Af því að það var viðurkent, að þetta væri slíkt brot á frjálsri verslun, að það yrði að draga úr því með þessu. Og af sömu ástæðum hefir tóbakseinkasalan borgað miljónir í skaðabætur til heildsala og smásala, til þess að bæta þeim upp það tjón. sem þeim var gert með þessari skerðingu á verslunarfrelsinu. Hv. þm. V.-Ísf. þekkir þetta auðvitað, þar sem hann fylgist svo vel með í sænskum blöðum og sænskum stjórnmálum. Svíar eru taldir með þroskuðustu þjóðum í viðskiftamálum og peningamálum. Og þeir hafa nú þessa skoðun á tóbakseinkasölu og verslunarfrelsi.

Þá kem jeg loks að þriðju ástæðunni. sem getur verið með og móti einkasölu ríkisins á tóbaki. Það hefir ekki verið nefnt en það er fyrir mjer höfuðatriði. Og það er, að jeg tel þessa aðferð ríkisins til þess að afla sjer tekna óheppilega og ranga. Það er röng skattapólitík. Ríkið getur valið sjer mjög margar og nálega allar leiðir til þess að afla sjer tekna. Vald þess í þeim efnum er nær ótakmarkað. Og þá tel jeg hiklaust, að það eigi að taka þá leiðina, sem næst liggur, en áhættuminst, einföldust, vissust og hefir minsta ókosti, en það er að leggja á menn skatta og tolla. Ríkið á ekki að vera að seilast inn á krókaleiðir þær, sem einstaklingarnir verða að þræða. Það á ekki að reka verslun, iðnað, fiskiveiðar eða landbúnað í því skyni að ná í tekjur. Tekjur sínar á það að taka með því valdi, sem það eitt hefir, að segja mönnum að borga. Jafnvel eins lítill vísir og tóbakseinkasalan okkar sýnir, hvílíkir örðugleikar það eru, sem ríkið bakar sjer að óþörfu. Það fær ekki meiri tekjur. Jafnvel árin 1912—1916 eru tolltekjurnar meiri en meðalár tóbakseinkasölunnar, 1923, gefur í toll og ágóða til samans, sje reiknað með rjettri vísitölu verðlags og mannfjölda. Tóbakið verður ekki ódýrara að minsta kosti. Eilífar grunsemdir og dylgjur ganga í blöðum og á mannfundum um þessa stofnun. Ríkið verður vegna samkepninnar að halda þarna menn, sem það launar ósambærilega hátt á móts við embættismenn sína, og vekur með því, eins og von er, óánægju og óróa meðal annara starfsmanna sinna. Það fær áhættu með fyrirtækinu, sem aldrei verður til fulls metin. Hættan á smyglun verður ávalt meiri og erfiðari viðfangs. Háttv. 1. þm. Árn. (MT) tók það rjettilega fram, að smyglunarlöngunin ykist í hlutfalli við smyglunarágóðann og alt, sem miðar til þess að gera vöruna dýrari, ýtir því undir smyglun. En svo er enginn efi, að það er enn erfiðara að verjast smyglun, þegar einn kaupmaður er í landinu, heldur en þegar þeir eru fleiri, dreifðir um landið og gæta talsvert hver að öðrum. Trygging sú, sem er í álímdum miðum tóbakseinkasölunnar, verður heldur lítil, því að jeg hefi sjeð miðalausa kassa af vindlum frá landsversluninni, og úr því að þeir eru til, er verndun öll að engu orðin.

Og alt þetta fyrir engan vinning. Það er röng skattapólitík, og það er mín aðalástæða fyrir því, að jeg vil láta snúa út af þessari braut, enda þótt bæði hin atriðin sjeu og nokkurs virði í huga mínum.