25.02.1925
Neðri deild: 16. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2894 í B-deild Alþingistíðinda. (1837)

50. mál, tollalög

Flm. (Björn Líndal):

Það hafa nú orðið langar umr. um þetta mál og margt óþarfa orð talað síðan jeg tók seinast til máls. Þess vegna væri full ástæða til, þó að jeg þyrfti dálítinn tíma til að hrekja þó ekki væri nema allra stærstu vitleysurnar, sem háttv. andmælendur frv. hafa látið sjer sæma að kasta í garð okkar flm. En þar sem jeg hefi aðeins leyfi til þess að gera stutta athugasemd, mun jeg reyna að takmarka mig og níðast ekki á þolinmæði hæstv. forseta nje annara deildarmanna, eins og sumir þeir, sem talað hafa

í dag og flutt hálftíma ræðu, sem átti þó að heita „stutt athugasemd“.

Þær hafa heldur ekki verið það veigamiklar ástæðurnar, sem hv. andmælendur hafa horið fram, að langan tíma þurfi til að reka þær til baka með fullum rökum. Allar ræður andstæðinganna sanna aðeins það, sem áður var vitanlegt, að þar er ein hjörð og einn hirðir. Allir snúast þeir um sama tjóðurhælinn. Hringurinn aðeins mismunandi stór. Og allir hafa þeir byrjað með sömu dylgjunum og getsökunum í garð okkar flm. Engin rök bera þeir fram málstað sínum til stuðnings. Áframhaldið hefir verið hið sama, sömu slagorðin, stóryrðin og fjarstæðurnar, og allir hafa þeir endað á sömu stæðhæfingunum, án þess að finna þeim nokkurn stað.

Hjer hefir því verið haldið fram dag eftir dag, aðeins með mismunandi orðum og blekkingum, að við flm. þessa frv. værum að draga fje úr vasa alþýðu til þess að styðja hagsmuni kaupmanna. Þetta láta þessir hv. andstæðingar sjer sæma, án þess að færa fyrir þessu nokkur rök til sönnunar þessum staðhæfingum sínum. Þetta kalla jeg lúalegar getsakir og sleggjudóma rökþrota manna.

Háttv. 2. þm. Eyf. (BSt) var þó einna hóflegastur í getsökunum, og skal líka njóta þess. Hann sagði, að það væri ólíku saman að jafna, ríkiseinkasölu eða gömlu einokuninni. Jú, á þessu er að vísu nokkur munur. En þó er báðum þessum stefnum talið það sama til ágætis: hagsmunir þjóðar og ríkis. Þarf ekki nema að athuga lítilsháttar, hvað gerðist á dögum Friðriks V. á 18. öld, til þess að sannfærast um, að hjer er ekki ólíku saman að jafna að því er tilganginn snertir. Og það er mín sannfæring, að konungsverslunin á dögum Friðriks V. hafi verið rekin af meiri umhyggju fyrir velferð þjóðarinnar en sú einokun, sem nú er rekin. Þó er ástandið nú að einu leyti ólíkt því, sem það var á gömlu einokunardögunum. Þá voru það erlendir valdhafar, er kúguðu okkur og sviftu okkur athafnafrelsi, eins og hv. 2. þm. Eyf. (BSt) komst að orði. Þeir smeygðu ófrelsissnörunni um háls okkur af því að við vorum of magnþrota til þess að geta varist því. Nú er um það við sjálfir, sem smokkum þessari sömu snöru um okkar eiginn háls. Í þessu liggur munurinn: Áður voru það erlendir stórbokkar, sem ætluðu að hengja okkur; nú erum við á góðri leið með að gera það sjálfir. Ef hv. 2. þm. Eyf. þykir veglegra að gera slíkt sjálfur heldur en að reyna að verjast því svo lengi sem unt er, að aðrir geri það, þá tel jeg það illa farið. Þá hefir illur fjelagsskapur farið hjer of illa með góðan dreng.

Þá kem jeg að hv. 2. þm. Árn. (JörB). Hann var nú einna verstur og stórorðastur og óð mest á bæxlunum. Hann er líka sjáanlega einna auðsveipastur þjónn höfuðprestanna og liðugastur í snúningum þeirra vegna.

Hv. þm. Str. (TrÞ) hafði misskilið orð mín um pólitíska vígið, er honum varð svo skrafdrjúgt um. Jeg sagði aldrei, að landsverslunin væri pólitískt vígi. Heldur sagði jeg, að jafnrjettmætt væri að gera landsversluninni þær getsakir, að hún væri pólitískt vígi, eins og að bregða okkur flm. um eiginhagsmuni. Jeg veit, að margir hv. deildarmenn heyrðu þessi orð mín og geta borið mjer vitni um það, að jeg fer hjer með rjett mál. Og svo kemur hv. 2. þm. Árn. (JörB) og þylur sitt faðirvor á sama hátt eins og höfuðpresturinn eða öfugt. En svo tekur hv. 2. þm. Reykv. (JBald) við og les líka sitt faðirvor öfugt, eða þó öllu heldur aftur á bak.

Og svo lætur hann sjer sæma, þessi hv.

þm. (JBald) að fullyrða það, að jeg hafi ráðist með frekju og persónulegum árásum á ákveðinn mann, eða þennan „næst kommanderende“, sem hann var að tala um. Jeg neita því algerlega. En það, hvað skeð hafi á fundi norður á Akureyri fyrir löngu síðan, hirði jeg ekki að rifja upp. „Dagur“ og „Tíminn“ hafa margsinnis verið að monta af því, eða öllu heldur sá maður, er mun vilja telja sig höfuðforingja Framsóknarflokksins, að jeg hafi ekki þorað að svara honum á þessum fundi. Mín vegna má hver trúa þessu sem vill, en því trúir naumast nokkur, sem þekkir mig. Jeg er löngu hættur að elta ólar við rangfærslur þessara blaða eða virða þau svars.

En nú vil jeg spyrja: Væri það nú mjög ósennilegt, þó að landsverslunin yrði einskonar pólitískt vígi? Allir vita þó, að mikið og innilegt samband er á milli landsverslunar og Sambandsins. Samvinnuhugarfar er eitt af inntökuskilyrðunum í samvinnuskólann. Mætti þá ekki alveg eins verða, að landsverslunarhugarfar yrði eitt af skilyrðunum fyrir því að komast að starfi þar, t. d. að trúarjátning þeirra verði að hljóða eitthvað á þessa leið. Jeg trúi á heilagan einokunaranda? Jeg þekki nokkra menn, sem hafa orðið fjárhagslega hólpnir í þessari trú, og þar sem fjársjóðirnir eru, þar er hjartað venjulegast nærri. — Mjer er ekki grunlaust um, að þetta einokunarhugarfar sje þegar orðið skilyrði fyrir því að komast að hinum fleytifullu kjötkötlum landsverslunarinnar.

Þá þótti hv. 2. þm. Árn. (JörB) jeg vera illa að mjer í sögu, og jeg ætti því að ganga í barnaskóla til þess að fræðast betur. Hann hefir eflaust aðeins lesið barnaskólasögu þá, sem flokksbróðir hans, hv. 5. landsk. (JJ), hefir samið og gefið út. Það er sú eina Íslandssaga, sem jeg þekki, sem ekki telur hina gömlu einokun hafa verið þjóðinni til andlegrar og fjárhagslegrar eyðileggingar. Jeg vil benda honum á að lesa einokunarsögu Jóns Aðils til þess að fræðast betur í þessari grein.

Þá þótti sama hv. þm. jeg myrkur í máli. Jeg hjelt nú satt að segja, að jeg talaði svo ljóst, að hverjum meðalgreindum manni væri ekki ofætlun að skilja mig. En má jeg spyrja: Væri það svo undarlegt, þó að menn sjeu nokkuð myrkir í máli um það, sem er í myrkrunum hulið! Jeg skora á hv. 2. þm. Árn. (JörB) að hjálpa til þess að leiða fram í dagsbirtuna alt, sem landsverslunina snertir, og jeg lofa honum því, og skal efna, að þá skal ekki standa á mjer að tala ljóst, jafnvel svo ljóst, að hann geti skilið mig.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) hefi jeg litlu að svara, enda er hann nú hniginn í valinn, en ekki vani minn að leggjast á náinn. Þó get jeg vel skilið, að hann öfundi mig af þessari áttræðu piparmey, sem hann telur vera unnustu mína, þar eð sú kvensnift, sem hann er ástfanginn í, hin alþekta og illræmda frú einokun, er löngu orðin karlæg, enda nálega 400 ára gömul.

Hann sagði líka þessi sami hv. þm., að jeg væri píslarvottur í þessu máli; en því neita jeg algerlega. Hinsvegar þykir mjer sennilegt, að hann skorti ekki viljann til þess að gera mig að píslarvotti; en annað er að geta. Hann stendur næst æðsta presti „Tímasannleikans“ og er með þeim ósköpum fæddur, að honum mun láta ólíkt betur hlutverk Kaifasar en Krists.

Þá vildi jeg að síðustu víkja örfáum orðum til hv. 1. þm. Árn. (MT). Hann virtist bera það mjög fyrir brjósti, að flokkur sá, er jeg fylgi, tæki upp annað nafn og nefndist hjer eftir kaupmanna-

flokkur. Það má vel vera, að íhaldsflokkurinn skifti einhverntíma um nafn, og er því skylt að þakka góðar bendingar í þá átt. Nú vil jeg minna hann á það, að miklar líkur virðast vera til þess, að flokksbrot það hið litla, sem hann hefir lafað í um stund, leysist nú upp, og mætti þá ætla, að jafnmerkur maður og hv. 1. þm. Árn. (MT) gripi tækifærið og stofnaði nýjan flokk. Þeim flokki verður auðvitað nafns þörf, og er ekki altaf auðhlaupið að því að finna gott nafn og vel viðeigandi. Jeg vil því gera honum þann greiða í þakklætisskyni að benda honum á það til athugunar, hvort ekki mundi geta átt vel við að nefna þennan nýja flokk hans Kaupvarningsflokkinn.