25.02.1925
Neðri deild: 16. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2901 í B-deild Alþingistíðinda. (1842)

50. mál, tollalög

Ásgeir Ásgeirsson:

Því hefir verið haldið fram af nokkrum andstæðingum mínum, að jeg hafi farið með dylgjur og aðdróttanir í þeirra garð í ræðum mínum um þetta mál. Það er tilhæfulaust. Jeg fór með engar dylgjur. Ásakanir mínar voru skýrar og ákveðnar. Jeg sagði, að einn sterkasti þátturinn í andstöðu gegn einkasölu ríkisins væri kaupmannavaldið. Þetta er fullyrðing, en ekki neinar dylgjur, Þetta er alveg eins rjettmætt eins og þegar sagt er, að kaupmenn standi á bak við Morgunblaðið. Jeg veit, að því er mótmælt, en almenningur trúir því nú samt.

Það er um þetta eins og svo margt annað, sem neitað er, að almenningur heldur engu að síður fast við sína skoðun Almannarómur lýgur sjaldan.

Háttv. þm. V.-Sk. (JK) sagði, að það væri ekki „kaupmannapólitík eða aðrar illar hvatir“, sem hjer væru að starfi. Það var óþarfi af honum að gefa húsbændum sínum þá einkunn, að hvatir þeirra sjeu jafnan illar. Hv. þm. Ak. hafði ljót orð í munni og líkti mjer við Kaífas. Við því er ekkert að segja; þetta er hans smekkur. En jeg vil benda honum á annan herra frá sömu tímum, sem að mörgu leyti er fulltrúi þeirra manna, er gera sjer alt að gróða og eru ávalt falir fyrir peninga. Sá maður hjet Júdas. (BJ: Hví þá að skamma Júdas?). Jeg er ekki að skamma Júdas, enda virðist mjer, að hann gæti að mörgu leyti verið til fyrirmyndar þeim hv. þm., er barist hafa mest fyrir frv. þessu. Þegar Júdas sá hinar illu afleiðingar af verki sínu, sem í rauninni var ekki framið til þess að koma illu til leiðar, heldur til að græða fje, þá gerði hann það, sem jeg geri ráð fyrir, að hv. andstæðingar tóbakseinkasölunnar láti ógert, þó reynslan sýni, að ríkissjóður bíði af frv. þeirra mikið tjón — að hann gekk út og hengdi sig.