20.04.1925
Neðri deild: 60. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2909 í B-deild Alþingistíðinda. (1847)

50. mál, tollalög

Frsm. minni hl. (Klemens Jónsson):

Þegar mál þetta var hjer til 1. umr., urðu lengri umræður um það en dæmi eru til í þingsögu vorri, því að þær stóðu, ef jeg man rjett, 4 daga. Þá var málið aðallega rætt frá almennu sjónarmiði. Jeg tók þátt í þeim umræðum, og get því, hvað hina almennu hlið málsins snertir, látið mjer nægja að vísa til þeirra. Málið virðist því vera talsvert rætt. Þegar það því kom til fjhn., fann hún heldur ekki ástæðu til að taka frv. til efnislegrar meðferðar, ekki einungis vegna undangenginna umræðna, heldur aðallega vegna þess, að skoðanamunur innan nefndarinnar var svo ákveðinn og skýr fyrirfram, að það var alveg auðsjeð, að allar umr. þar væru óþarfar. Það var því fullkomið samkomulag, að nefndin klofnaði strax, og kæmi hvor hlutinn fram með sitt álit.

Hv. meiri hl. nefndarinnar hefir nú viðrkent með nál. sínu, að málið, a. m. k. frá hans sjónarmiði, sje fullkomlega útrætt eða upplýst, því hann lætur sjer nægja að vísa til undangenginna umræðna og greinargerðar flm. Það er því ekki hægt að taka nál. frá hv. meiri hl. frekara til umr., því það inniheldur ekkert annað en till. um að samþykkja frv. og þá breytingu á því, að lögin skuli öðlast gildi 1. jan. 1926 og frá sama tíma skuli einkasölulögin frá 1921 falla úr gildi, en eftir frv. áttu lögin að öðlast gildi þegar 1. júlí þ. á. og einkasölulögin að falla úr gildi 1. sept. þ. á. Á það var bent við 1. umr., hvílík fjarstæða þetta væri, og það hefir þá unnist við þá umr., að tímatakmarkið er komið í sæmilega skynsamlegt horf.

Mjer virðist nú samt, að ýmislegt sje fram komið, bæði í ræðu og riti, síðan 1. umr. var — meðal annars ekki hvað síst einkarglögg skýrsla um tóbakseinkasöluna frá landsversluninni, er ekki lá þá fyrir — er sýnir það meðal annars, að frv. er bygt á röngum grundvelli, að ríkissjóður verði fyrir allmiklu tapi, ef frv. verður að lögum, og að verð á tóbaki verði lægra. ef einkasalan heldur áfram, heldur en það gæti orðið ella og skal jeg rökstyðja þessi atriði.

En áður en jeg sný mjer að þessu, verð jeg að taka fram, að frv. þetta er að einu leyti merkilegt, og það er, að aðalefni þess er ekki í samræmi við fyrirsögnina. Þess munu fá eða engin dæmi, að í lögum um einfalda tolllagabreytingu sje ákvæði um að leggja niður stofnun, sem sett hefir verið með sjerstökum lögum. Það hefði því átt betur við, að fram hefðu komið tvö lagafrv., til þess að ná því takmarki, sem frv. þetta miðar að, nefnilega aðalfrv. um afnám tóbakseinkasölunnar, eða um afnám laganna frá 27. júní 1921, og svo annað um tollhækkun á tóbaki, til þess að bæta ríkissjóði að einhverju leyti tekjumissinn við það.

Eins og hefir verið tekið fram af mjer og mörgum öðrum við 1. umr., þá er frv. og greinargerðin fyrir því bygt á þeirri meginvillu. að innflutningur tóbaks á stríðsárunum og næstu tveim árum á eftir, sem var langt fram yfir eðlilegt meðaltal, t. a. m. árin 1916 og 1919, er borinn saman við fyrstu starfsár einkasölunnar. Þá var innflutningurinn eðlilega margfalt minni vegna hinna miklu fyrirliggjandi birgða kaupmanna frá þeim tímum, einkum 1919 og 1920, er hinn óeðlilegi innflutningur átti sjer stað. Þetta sjest einkar glögt á því, að ½ milj. kr. Þetta er sannleiki, sem ekki verður vjefengdur, og þessar birgðir eru nú fyrst alveg nýlega þrotnar; hafa verið að seljast alt fram að þessu.

Af þessu verður það ljóst, að allir útreikningar og staðhæfingar flm. frv. og annara, sem bygt hafa vörn fyrir það á samskonar forsendum, geta með engu móti staðist, þegar málið er athugað frá rjettri hlið. Það hefir verið sýnt fram á það með fullum rökum og enginn treyst sjer til að mótmæla, hvorki meiri hl. nefndarinnar nje aðrir, að árið 1924 er það ár, sem leggja ber til grundvallar, þegar um það er að ræða, hverjar tekjur ríkissjóður muni hafa af tóbakseinkasölunni í framtíðinni. Í skýrslu landsverslunarinnar til Alþingis, um tóbakseinkasöluna, er berlega sýnt fram á, og því hefir meiri hl. nefndarinnar heldur ekki gert tilraun til að mótmæla, að tekjur ríkissjóðs eftir frv. hljóti að verða á þriðja hundrað þúsund krónum minni árlega en með núverandi fyrirkomulagi og miðað við sama innflutning. Hinar glæsilegu vonir háttv. flm. um aukinn innflutning tóbaks get jeg ekki sjeð nein líkindi til, að muni rætast, enda lít jeg svo á, að það að leggja kapp á aukinn innflutning sje tvíeggjað vopn, frá hvaða sjónarmiði, sem á það er litið, hvort heldur frá fjárhagslegu eða siðmenningarsjónarmiði. Að vinna að því að auka óeðlilegan innflutning á tóbaki, getur ekki leitt til annars en aukinna útgjalda fyrir þjóðina, en það er ekki í samræmi við aðalstefnu Íhaldsflokksins, sem a. m. k. í orði er sú, að spara á öllum sviðum, bæði fyrir þjóðarheildina og einstaklinga.

Jeg skal nú því næst rökstyðja það nánar, að ríkissjóður verður fyrir allmiklum tekjumissi, ef frv. verður samþykt.

Tekjur ríkissjóðs af tóbakseinkasölunni voru þessar 1924:

1. Tollur kr. 524464,05

2. Rekstrarhagnaður .... — 385106,47

3. Gengishagnaður — 67988,33

Samtals kr. 977558,85

Í greinargerð frv., á bls. 3, áætla hv. flm. tekjur ríkissjóðs eftir frv. þannig: 67100 kg. tóbaks á 6 kr. pr. kg. kr. 402600 15545 kg. vindla og vindlinga

á 16 kr. pr. kg — 248720

Samtals kr. 651320

Verði frv. að lögum, verða því tekjur ríkissjóðs kr. 326238.85 minni en nú. Og þó gert sje ráð fyrir, að tóbaksinnflutningur aukist um 12% frá því, sem hann hefir verið að meðaltali þrjú síðustu árin, eins og hv. flm. gera ráð fyrir, þá verður þó munurinn 248113,85 ríkinu í óhag, auk þess sem einkasalan hefði líka einhvern hag af aukningunni. Það er því tæpur miljónarfjórðungur, sem á að kasta hjer í burtu og í hendur einstakra manna. Það munar um minna. Og frá mínu sjónarmiði er það hart, að við skulum þurfa að halda að okkur höndunum á öllum sviðum. Við stöndum hjer upp á Alþingi og játum og viðurkennum það fúslega, að hitt og þetta fyrirtæki sje bráðnauðsynlegt, við þurfum að byggja landsspítala, stækka Klepp, byggja brýr. leggja akvegi, byggja vita, rækta landið og svo ótal margt fleira, en að við getum það ekki vegna fjeleysis, það verði að bíða betri tíma, — en um leið köstum við burtu ½, miljón króna, sem svo lendir í vasa örfárra gróðamanna.

Já, jeg fyrir mitt leyti verð að segja það, að jeg get ekki verið því samþykkur að kasta þessu fje á glæ, og jeg á bágt með að trúa því, að til sjeu ekki þeir menn, jafnvel meðal þeirra, sem halda fast við frjálsa verslun, frjálsa samkepni, að þeim ói ekki við að kasta þessari kvartmiljón frá sjer.

Auk þess vil jeg ennfremur benda á, að útlit er fyrir, að enn meiri hagnaður verði af tóbakseinkasölunni í ár, 1925 en var árið 1924, eins og sjest á samanburði sölunnar fyrsta ársfjórðunginn 1925, borið saman við söluna fyrsta ársfjórðunginn 1924. Tölur þessar hefi jeg frá landsversluninni. Aurum er slept. Salan var:

1924:

Janúar kr. 159941

Febrúar — 143537

Mars — 180139

Alls kr. 483617

1925:

Janúar kr. 169415

Febrúar — 186161

Mars — 219009

Alls kr. 574585

Salan fyrsta ársfjórðunginn 1925 var því 90968 krónum hærri en á sama tíma 1924, og mun þó magn hins selda nokkru meira en krónuupphæðin bendir á, því útsöluverð landsverslunar hefir lækkað töluvert frá í fyrra, og það þegar 1924. Hv. frsm. meiri hl. (JakM) taldi verðið hafa verið hið sama alt það ár. Um þetta skal jeg ekkert fullyrða fyr en jeg hefi kynt mjer það nánar, en hitt fullyrði jeg, að útsöluverðið hefir enn að nýju lækkað frá síðustu áramótum.

Þar með hefi jeg rökstutt 2. lið í nál. minni hl.

Jeg kem þá að 3. atriðinu, tóbaksverðinu. Hv. flm. frv. staðhæfa, að tóbaksverðið innanlands muni fara lækkandi, ef frv. nær fram að ganga, en jeg vil aftur á móti fullyrða, að miklu meiri líkur sjeu til, að hið gagnstæða muni eiga sjer stað. Því til sönnunar vil jeg tilfæra skýrslu um smásöluverð á nokkrum tóbakstegundum hjá kaupmönnum árið 1921 og smásöluverð nú í janúar þ. á.:

Des. 1921. Jan. 1925.

Rjól, kílóið kr. 20—23,00 kr. 19,50

Munntóbak, kílóið — 20—25,00 — 22,00

Reyktóbak:

Moss Rose lbs kr. 12,00kr. 7,55

Pioneer Brand — 17,00 — 15,60

Vindlingar:

Lucana 10 stk kr. 0.60—0,70 — 0.61

Westminster 10 stk — 1.10—1,15 — 1,01

Vindlar:

Bonarosa 100 stk — 35—40,00 — 36,90

Amistad 100 stk kr. 45,00 — 44,50

Romanos 100 stk — 48,00 — 48,40

Frá smásöluverði í ársbyrjun 1925 er dregin tollhækkunin 1924, sem var 1 kr. pr. kg. af tóbaki og 2 kr. pr. kg. af vindlum og vindlingum, til þess að samanburðurinn verði rjettur. Þetta sýnir, að smásöluverð á tóbaki er yfirleitt nokkuð lægra nú heldur en þegar einkasalan tók að starfa, og munar sjerstaklega á reyktóbakinu. Þó hefði smásöluverðið hjer átt að vera 5—10% hærra nú, vegna óhagstæðs gengis ísl. krónunnar. Gengið var í desember 1921 danskar og ísl. krónur jafnar, en sterlingspundið jafngilti þá 26 kr. ísl. í janúar 1925 voru 100 kr. danskar jafngildar 104,40 ísl., og sterlingspundið jafngilti þá 28 kr. ísl.

Smásöluverðið er bygt á upplýsingum kaupmanna til landsverslunar í des. 1921.

Jeg hefi aflað mjer upplýsinga um verðlagið á tóbaki erlendis, þ. e. í Danmörku og Englandi, og borið það saman við einkasöluverðið hjer. Niðurstaðan á þeim samanburði hefir orðið sú, að verðið á vindlum og munntóbaki er mjög svipað á báðum stöðum, en á vindlingum og sjerstaklega reyktóbaki er það miklu hærra erlendis. Dæmi:

Munntók kostar hjer 24 kr. pr. kg., ytra 24,50 pr. kg.

Vindlar: Romanos 43 kr. pr. kassa hjer, 43,85 ytra. Times 30,00 hjer, 29,20 ytra.

Vindlingar: Capstan 70 au. pr. 10 st. hjer. ytra eins. Three Castles 77 au. hjer, 93 au. ytra. Derby 2,25 hjer. 4,10 ytra.

Reyktóbak pr. 1 lbs.: Waverley mixture 13 kr. hjer, 22,40 ytra. Richmond mixture 10,50 hjer, 27,07 ytra.

Nú er samanburður á smásöluverðinu erlendis og hjer auðvitað að miklu leyti kominn undir tóbakssköttum og tollum í hverju landi. Þegar þess er gætt, að tóbaksskattur er t. d. í Danmörku miklu lægri á ódýrustu og miðlungstegundunum heldur en hjer þá kemur það í ljós, að smásöluverðið hjer á landi er einnig að öðru leyti töluvert lægra en í Danmörku. Þetta sýnir, hve gætilega landsverslunin starfar og hve hófleg hún er í álagningu. Já, munu andstæðingar landsverslunar segja; það munu kaupmenn líka gera, samkepnin skapar verðið. Jú, svo ætti það að vera, — en er orðið um mikla samkepni að ræða hjer á landi? Jeg efast um, að svo sje. Kaupmenn hafa myndað fastan fjelagsskap með sjer, og það er ekkert óeðlilegt í því. Þeim hefir fundist öll einkaverslun vera bein árás á sig, og því bundist föstum fjelagssamtökum, og einkaverslunin hefir kannske fært þá enn nær hvern öðrum. Samkomulagið er orðið svo mikið, að samkepni verður varla vart. Maður getur gengið búð úr búð og spurt um sama hlutinn og alstaðar er verðið eins; ekki einu sinni á eldspýtum er um

samkepni að ræða, en hún var einu sinni svo mikil, að Reykvíkingar gátu birgt sig upp um áratugi fyrir 7 aura pakkann, og svona er það með hvern einstakan smáhlut.

Jeg þykist nú hafa fært full rök fyrir þeim þrem atriðum. sem tekin eru fram í áliti minni hl., og afleiðingar þeirra hljóta að verða þær, að allir íhalds- og sparnaðarmenn þessa lands hljóti að halda sem fastast um einkasöluna, og þá ekki síst fyrir þá sök, að enginn dirfist að vjefengja það, að versluninni hafi verið og sje prýðilega og um leið gætilega stjórnað og gefi ríkissjóði svo álitlegar tekjur á þessum krepputímum, að ekki megi án þeirra vera. Hæstv. fjrh. hefir oftar en einu sinni tekið það fram, að krepputíminn muni ekki vera á enda, þótt hið einstaka og afarmikla góðæri síðasta ár hafi bætt afarmikið úr. Aftur á móti hefir hv. frsm. meiri hl. jafnoft vjefengt þetta og spurt, hvaðan fjármálaráðherra kæmi sú viska, að kreppan haldi áfram. Hann er miklu bjartsýnni á framtíðina en hæstv. fjrh., og þess vegna er skoðun hans í þessu máli næsta eðlileg. Hann er ,,principielt“ á móti allri einkasölu, og álítur auk þess, frá sínu sjónarmiði, ekki þörf á þessum tekjuauka. Jeg hallast þar fremur að skoðun hæstv. fjrh. Kreppan byrjaði 1921 og var á hæsta stigi árin 1922 og ’23, og fór fyrst að lina á miðju ári 1924, en nú má vænta þess, að við sjeum komnir yfir það versta, en samt álít jeg, að við eigum að fara gætilega og vera við öllu búnir, og þess vegna furðar mig stórlega á, að fjármálaráðherrann, sem sjerstaklega á að bera hag ríkissjóðs fyrir brjósti, skuli vera mótfallinn því að halda áfram einkasölunni á tóbaki, þegar það er sýnt og sannað, að hún gefur landinu mikinn arð.

Fyrir honum hlýtur því þetta mál að vera alveg sjerstakt ,,princip“-mál. Hann vill ekki þennan hagnað í ríkissjóð, af því að hann metur meira svokallaða frjálsa verslun. Jeg skal ekki áfella hann fyrir það. Jeg er þar á alveg öfugri skoðun, eins og jeg hefi áður tekið eindregið fram, en jeg met auðvitað skoðun hvers þingmanns alveg eins rjettháa og mína. En ráðherra, sjerstaklega fjrh., verður oft að brjóta bág við sína einkaskoðun, er um fjárhag ríkisins er að ræða. Hv. aðalflm. frv. (BL) er engu síður en hæstv. fjrh. á móti allri einkasölu, en þó var, eftir því sem mig fastlega minnir, samþykt sú till. á þingmálafundi á Akureyri nú í vetur, að því aðeins skyldi afnema einkasölu á tóbaki, að afkoma ríkisins þyldi það. (BL: Þetta er rjett). Jeg hefi nú sýnt fram á, að tekjurnar af einkasölunni sjeu svo miklar, og fara auðvitað vaxandi, að það sje mjög ísjárvert að hafna þessu með öllu, svo jeg komist ekki sterkara að orði, að þess mætti mega vænta, að þeir og aðrir andstæðingar einkasölunnar höfnuðu frv. eða það væri tekið til baka. Jeg get nú reyndar sagt það, að jeg býst varla við því. Þetta mál mun vera orðið það kappsmál milli flokkanna yfirleitt, en þó er jeg ekki vonlaus um, að einhverjir úr Íhaldsflokknum muni vera móti frv., en það mun atkvgr. sýna, þegar þar að kemur.

Þá eru ekki fleiri atriði viðvíkjandi þessu máli, sem vert er að ræða nú, enda má, ef frv. lifir til 3. umr., gera því þá betri skil. Jeg drap á það við 1. umr., að ákvæði 2. gr. frv. mundu reynast allerfið framkvæmda, um tolleftirlitið, og vænti jeg, að hv. frsm. meiri hl. hefði tekið það til greina, sem hann þó hefir ekki gert. Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) heldur því fram, að smyglunarhættan sje meiri með einkasölufyrirkomulaginu en með frjálsri verslun, og skil jeg ekki, að svo geti verið, en jeg held, að smyglunarhættan sje ekki eins mikil og hann hefir haldið fram og að hún muni haldast óbreytt, hvort heldur einkasala er eða frjáls verslun. Jeg er sannfærður um, að það verða áhöld um þetta. Jeg veit ekki til, að einkasalan hafi aukið smyglunina og álít, að hún muni heldur ekki aukast við frjálsa verslun. Nú er svo komið, þrátt fyrir það, að fyrir 25 árum síðan átti nær engin smyglun sjer stað, að nú er alment rætt um að allmiklu sje smyglað bæði af tóbaki, silki, úrum og öðrum verðmætum vörum sem ljett er að smygla inn.

Háttv. frsm. meiri hl. (JakM) ber hag smásalanna mjög fyrir brjósti. En jeg spyr, hví hjeldu þeir ekki áfram þessari verslun, þrátt fyrir að einkasalan komst á? Þeim var alls ekki meinað það. Nei, það mun hafa verið af því, að þeim hefir ekki þótt nægur arður af þessari verslun eftir það, — þeir næðu ekki jafnmiklu fje úr vasa landsmanna. En jeg sje ekki, að ástæða sje til að bera svo mjög hag þeirra fyrir brjósti; þeir mega hætta, ef þeir vilja. Þar sem hagsmunir ríkissjóðs eru annarsvegar, verða smásalarnir að láta sjer lynda, að ríkisheildin sje meira metin en þeir.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, en jeg legg eindregið á móti því, að frv. þetta nái samþykki.