20.04.1925
Neðri deild: 60. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2933 í B-deild Alþingistíðinda. (1855)

50. mál, tollalög

Bjarni Jónsson:

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) minnir mig á sjúkling nokkurn, sem Hóras segir frá. Hann sat í tómu leikhúsi og hló og klappaði vegna þess, hve honum þótti vel leikið. Einhver varð þá til þess að gefa honum hnerrirót, svo að manntetrið rumskaði við sjer og brá í brún, þegar hann sá, að hann hafði klappað fyrir tómu húsi. Hv. 2. þm. Reykv. fer eitthvað líkt, þegar hann er að tala hjer landsversluninni til lofs og dýrðar.

Hvernig hefir nú þessi verslun reynst undanfarið. Meðan landsverslunin lá undir stjórnarráðið á stríðsárunum, gekk alt á hinum mestu trjefótum, sem kunnugt er. Skip biðu vikum og mánuðum saman í erlendum höfnum og söfnuðu skuldum, sem síðan voru lagðar á sama farminn, er heim kom. Þetta gaf auðvitað kaupmönnum tækifæri til að selja sínar vörur með sama ránsverðinu, enda hefir aldrei hlaupið eins á snærið fyrir þeim. Seinna voru þó ráðnir menn til að veita versluninni forstöðu, sem vit áttu að hafa á slíku, en þó hefir hagurinn aldrei verið ýkjagóður. Svona gekk nú þessari stofnun.

Þá ætti hv. 2. þm. Reykv. að spyrja útgerðarmenn um álit þeirra á steinolíuversluninni. Olían er bæði dýr og vond. Færeyingar fá hana bæði betri og ódýrari. Þetta er nú djásnið þeim megin.

Þá kemur vínverslunin, sem er að líkindum rekin eins vitlaust og tök eru á. Í stað þess að flytja hingað inn sönn þrúguvín frá Suðurlöndum, hafa þeir uppgötvað vínverslunarborgir, sem heita Horsens og Randers, og aðrar slíkar. Þessi vjelavín eru í senn vond og auk þess svo dýr, að enginn vinnur til að reyna að hýrga sig á þeim í stað þess að kaupa vín hjá launsölunum, sem hjer eru á hverju strái, eins og kunnugt er. Vínverslunin hefir því gert þjóðina að brennivínsþjóð, í stað þess að gera hana að vínþjóð.

Þá kemur tóbaksverslunin, sem allir ætla nú að springa af harmi yfir, ef afnumin verður. Hún byrjaði með því að kaupa alt rusl af kaupmönnum, sem þeir áttu og ekki hafði gengið út árum saman og aldrei selst. Auk þess er tóbakið svo dýrt, að óleyfilegur innflutningur hlýtur borga sig, enda eru heilir landshlutar sem varla sjá annað en smyglað tóbak frá Færeyjum og annarsstaðar frá. Nú eru líkur til þess, þegar kaupmenn geta verslað með tóbak eftir skynsamlegum reglum, þá líti þeir betur eftir því, að brytar á skipum selji það ekki í kapp við þá, rjett við hliðina á þeim. En þegar kaupmenn fá ekki nema 10% í sölulaun, en verðið hinsvegar uppskrúfað, þá getur maður skilið það, að þeir hætti flestir að selja tóbak, eða láti sig litlu skifta, hvernig um það fer. Hv. 2. þm. Reykv. sagði um innflutninginn, að hann hefði verið upp á 3 milj. kr. En hann gat ekki um það, hvað hann hefði verið mörg pund. Þá er þetta verð vitanlega ekkert að marka. Jeg svo sem þekki þessa verslun, sem kaupir fyrir 60 kr. það, sem aðrir gefa samtímis 30 kr. fyrir. Það munar þó dálitlu. Annars er jeg ekkert að rekast í því, þó eitthvað hafi orðið á fyrir þessum mönnum, sem óvanir eru allri verslun, og þó ekki síst verslun með tóbak. En það verða menn að játa, að þegar verslunargróðinn er fenginn með því að leggja á vöruna 75% í stórsölu, og 85% alls, þá er verklega að verið gagnvart þeim, sem vöruna kaupa. Það mætti svo sem koma löggjöfinni þannig fyrir að leyfa ýmsum stofnunum að flá landsmenn og taka af þeim fje eins og þeim þóknast, en kalla svo upp á eftir: Þetta er gott fyrir landssjóðinn! En hvernig er það fyrir landsmenn? Einn dag kom jeg í búð og keypti vindil. Hann kostaði 60 aura. En daginn áður hafði samskonar vindill kostað 40 aura. Hvernig stóð á þessu? Það var landsverslunin, sem var tekin við tóbaksversluninni. Þetta er ósköp gott fyrir landssjóðinn, að setja slík ránslög um að taka úr vösum landsmanna fje eins og hugurinn girnist. En ekki er það nein sjerleg fjárspeki. Að vísu hefir þingið vald til slíks meðan ekki er um beint brot á stjórnarskránni að ræða, þannig að eigur manna sjeu beinlínis af þeim teknar, en hjer stappar býsna nærri því.

Um vörugæðin hefir það verið sagt, að þau sjeu jafnmikil og áður. En því fer fjarri. Við, sem notum tóbak, höfum margoft orðið að hugsa um það, hvort við gætum haldið áfram að reykja þessa fretsterta, sem hjer fást og kallast vindlar. Þetta hefir þó lagast ögn á síðustu tímum, þannig að landsverslunin hefir uppgötvað sinnar þær tegundir, sem hjer fengust áður. Að vísu eru þær nú verri en fyrrum, þó það sje ekki einkasölunni að kenna. Það er gamla sagan, að vörur eru fyrst vandaðar, en versna síðar. En einmitt frjáls verslun er holl og góð til þess að sjá borgið hag ríkisins og landslýðs alls. Samkepni og þekking í verslunarsökum veldur því, að landssjóður fær sömu tekjur og áður af einkasölunni, þegar menn taka hana í sínar hendur, sem verslunarvit hafa og ekki hafa leyfi til að leggja á vöruna 75% í stórsölu — sem annars munn hvergi dæmi í heiminum — af því samkepnin bannar slíkt. Þannig hafa allir hag af því, að verslunin verði frjáls. Því gat jeg ekki á mjer setið að gefa hv. 2. þm. Reykv. þessa hnerrirót í nefið, ef það mætti venja hann af því að klappa í tómu leikhúsi. Annars hefir Sjálfstæðisflokkurinn, sem jeg telst til, ætíð haft frjálsa verslun á sinni stefnuskrá, og aldrei vikið frá því nema í eitt skifti, þegar gefin var heimild til einkasölu á steinolíu. En það kom af því, að einokun var þegar orðin á steinolíu, og þetta var tilraun til þess að hún gæti orðið frjáls aftur. Þarf því engan að undra, þó að sá flokkur gráti ekki yfir úrslitum þessa máls, ef það tekst að leggja einkasöluna að velli.